Trylltir af heimtufrekju, siðblindu og hroka

Örvænting sumra minna helst á hund.

Örvænting sumra minnir helst á hund. MYND: Gunnar Karlsson

Stundum verður maður algjörlega kjaftstopp þegar maður les um yfirlýsingar einstakra þingmanna sem nánast var sparkað út af þingi eftir síðasta kjörtímabil eftir að upp komst um hagsmunatengsl þeirra á erlendum aflandseyjum og skattaskjólum sem haldið hefur verið leyndum fyrir almenningi.  Nú grenjar það fólk sem hefur ekki til að bera snefil af heiðarleika, siðferði eða neinum mannlegum kenndum að það eigi skilið að fá sæti sem ráðherrar í nýrri ríkisstjórn sem er verið að reyna að koma saman af formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni.

Meira að segja Framsóknarmenn sumir segja að veita eigi Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni ráðherraembætti í þeirri ríkisstjórn og þar gengur fremstur í flokki, Sveinn Hjörtur Guðfinnsson formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur, en í viðtali við hann í Morgunblaðinu á dögunum sagði hann þetta:

„Nú er tími til kom­inn að stinga á þessu kýli. Við höf­um leitað sátta en ár­ang­urs­laust. Sú mann­eskja sem get­ur sætt þessi and­stæðu öfl í flokkn­um er Lilja Al­freðsdótt­ir. Hún nýt­ur mik­ils trausts úr báðum fylk­ing­um. En það er hins veg­ar krafa okk­ar, stuðnings­manna Sig­mund­ar Davíðs, að ætli Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn í rík­is­stjórn­ar­sam­starf er eina leiðin til sátta að Sig­mund­ur Davíð verði ráðherra,“ seg­ir Sveinn Hjört­ur.

Maður hlýtur að spyrja sig í hvaða undraveröld þetta fólk lifir?
Þarf virkilega að minna fólk á hvers vegna Sigmundur Davíð hraktist úr embætti og hvers vegna kosningar voru haldnar hálfu ári áður en kjörtímabilið rann út?

Síðan stígur einnig fram Sjálfstæðismaðurinn Brynjar Níelsson og heimtar í frekjukasti að verða ráðherra þó svo það sé ekki einu sinni búið að leggja drög að stjórnarmyndun þó svo Bjarni Ben sé að ræða við formenn annara flokka.

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er gestur í Þjóðbraut í kvöld. Þar ræða hann og Björt Ólafsdóttir um stöðuna í stjórnmálunum. Ljóst er að nokkuð ber á milli flokka þeirra, Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar. Ekki síst í sjávarútvegsmálum.

Brynjar svarar, aðspurður, að verði Sjálfstæðisflokkurinn í næstu ríkisstjórn muni Brynjar sækjast eftir að fá ráðherraembætti.

Björt er ekki eins afdráttarlaus. Segir annað skipta meira máli.

Klippan er því miður ekki enn komin á vef Hringbrautar til áhorfs en það verður að segjast eins og er að málflutningur af þessu tagi er hreint út sagt ótrúleg heimtufrekja og hroki viðkomandi þingmanns.

Ég velti því oft fyrir mér í hvaða súrrealíska raunveruleika ég lifi um þessar mundir því það er engu líkara en allt sem heitir heiðarleiki, siðferði og góðir siðir séu bölvaldur en svik, lygar og óheiðarleiki algjörlega inn hjá landsmönnum þessa dagana.

Það er eins og almenningur átti sig ekki á því að síðasta ríkisstjórn hefur dekstrað við útgerðarmafíuna og auðvaldið með þeim afleiðingum að innviðirnir eru orðnir svo rotnir að allt er að hruni komið.  Það má líkja grunnstoðum þjóðarinar við útvegg á húsi sem er nýmálaður og ofsalega flottur að sjá en þegar kíkt er á bak við hann eru allar stoðir, stífur og innveggir gjörsamlega horfnir af myglu, fúa og rotnun en auk þess nagaðir niður af músum og rottum að í raun ætti veggurinn að vera hruninn til grunna.

Þannig eru grunnstoðir samfélagsins á íslandi í dag.  Menntakerfið er svo fjársvelt að það virkar ekki lengur.
Lögreglan getur ekki haldið uppi þeirri þjónustu sem lögbundin er vegna manneklu og fjársveltis.
Heilbrigðisstofnanir bæði í höfuðborginni og úti á landi eru komnar í þrot af fjárhagslegu svelti stjórnvalda þrátt fyrir að aukafjárveitingum hafi verið veitt í heilbrigðiskerfið, en það vantar samt um 60 milljarða þar inn til að koma ástandinu á skikk.

Laun kennara, lækna, hjúkrunarfólks og lögreglumanna, svo dæmi séu tekin, eru svo skammarlega lág að fólk fæst ekki lengur til starfa í þessum greinum þar sem launa og starfskjör í landinu eru langt fyrir neðan það sem þekkist í siðmenntuðum ríkjum.

Fái Sjálfstæðisflokkurinn að halda áfram þeirr vinnu og þeirri stefnu sem þeir hafa stefnt að síðustu þrjú og hálft ár, verður algjörlega óbúandi í þessu landi fyrir öryrkja, aldraða, verkafólk, hjúkrunarfólk, lækna, kennara og lögreglumenn ásamt mörgum fleiri starfsstéttum.  Sjálfstæðisflokkurinn vill nefnilega alls ekki borga fólk mannsæmandi laun því SA, útgerðarmafían og þeir sem „eiga“ sjallaflokkinn vilja koma á þrælanýlendu á íslandi með ódýru, aðfluttu vinnuafli sem þorir ekki að segja orð þó svo brotið sé á því, enda höfum við séð það gerast aftur og aftur í þeim stórverkefnum sem unnið er að hér á landi þessa dagana.

Ég skal játa að ég er hræddur við framtíðina.
Alveg logandi hræddur um að glæpalýðurinn sem kallast Sjálfstæðisflokkur komist aftur til valda í landinu.