Það er alveg sama hver eða hverjir benda Bjarna Ben á þá staðreynd með rökum og tölulegum upplýsingum að ríkið steli lífeyrissparnaði af þeim sem komnir eru á eftirlaun, hvort heldur vegna aldurs eða sjúkdóma og/eða slysa. Alltaf er það sama klisjan frá Bjarna að bera það upp á aðra þingmenn að það séu rangfærslur og að hann viti sko betur en allir sérfræðingar landsins sem hafa margoft sannað þetta með útreikningum staðreyndarprófunum.
Maður er kominn á þá skoðun að Bjarni hafi nákvæmlega ekkert vit á fjármálum, (reyndar segir 130 þúsund milljóna afskriftir fyrirtækja sem hann hafði yfirumsjón með allt um það) og enn minna efnhagsvit.
Í umræðum í gær á alþingi staðfesti hann þetta eina ferðina enn þegar hann lenti í þrætum við Guðmund Inga Kristinsson þingmann Flokks fólksins þegar Bjarni hélt því fram að ísland væri með eitt öflugasta almannatryggingakerfi í heimi. Það ætti öllum að vera ljóst sem lifa undir þungum hæl Tryggingastofnunar Ríkisins og almannatryggingakerfinu að svo er ekki, sérstaklega ekki þeim sem þekkja til almannatryggingakerfana á hinum norðurlöndunum. Þar er alla vega ekki lífeyrissparnaði fólks stolið með lagasetningum sem brjóta bæði mannréttindi og stjórnarskrána eins og á íslandi.
Bjarni var svo óforskammaður að halda því fram að ríkið tæki, sem dæmi, engan tekjuskatt af 200.000 króna lífeyristekjum ellilífeyrisþega, bara engan. Hins vegar myndi viðkomandi skila útsvari til sveitarfélags.
Hvernig Bjarni fær það út er með öllu óskiljanlegt því ég borga fullan skatt af þeim rúmlega 120 þúsund krónum, brúttó, sem ég fæ úr lífeyrissjóði og sú upphæði skerðist 100% hjá almannatryggingum. Eftir stendur í dag að ég fæ samanlagt útborgaðar um 250 þúsund krónur en ættu að vera, ef ekki væri stolið af mér lífeyrissjóðnum, um 360 þúsund útborgaðar á mánuði.
Bjarni Ben getur troðið allri sinni speki, öllum sínum lygum og öllum sínum rangfærslum þangað sem sólin ekki skín og saumað fyrir. Það er með öllu óþolandi að þurfa að hlusta á fjármálaráðherra landsins standa í pontu alþingis og ljúga, aftur og aftur út í eitt að fólkinu sem hann á að vera að vinna fyrir en því miður er siðferði og heiðarleiki eitthvað sem alveg hefur gleymst þegar innréttingunni var komið fyrir í honum.
Persónulega vil ég þennan mann og flokkinn sem hann stýrir burt úr stjórnmálum og ég vildi óska að fólk hefði vit og rænu á því að gefa honum frí í næstu kosningum.