Stendur Ólafur við stóru orðin?

Forseti Íslands.

Í viðtali í þættinum Sprengisandi þann 13. maí 2012 lýsti Herra Ólafur Ragnar Grímsson Forseti Íslands því yfir að fá mál væru betur til þess fallin til að setja í þjóðaratkvæðagreiðslu en þau mál sem snertu sameiginlega auðlindir þjóðarinnar.
„Þannig að ég tel að eðli málsins sé þannig, að það séu tiltölulega fá mál jafn vel til þess fallin að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og kvótamálin. Því þar er þjóðin sjálf að taka afstöðu til þess hvernig hún vill ráðstafa sameign sinni og ég gæti ekki séð það að nokkur forystumaður núverandi ríkisstjórnar, hvorki Jóhanna eða Steingrímur, gætu gagnrýnt það að forsetinn myndi vísa slíkum frumvörpum í þjóðaratkvæðagreiðslu ef þess er krafist. Vegna þess að þau hafa sjálf talað um þetta sem stærstu mál þjóðarinnar. Þannig að ég hlýt að hugleiða það mjög alvarlega, ef upp kemur sú staða, af því að ég tel að fá mál liggi jafn vel fyrir til þess að láta þjóðina sjálfa ákveða það.“

Nú hefur ríkisstjórnin ákveðið að lækka veiðigjaldið með þeim afleiðingum að tekjur ríkisins lækka um sem nemur 7,4 miljörðum á þessu ári og allt að 10  miljörðum á því næsta. Það þýðir um 60 þúsund krónur á heimili. „Þetta er ekkert mjög flókin stærðfræði. 60 þúsund krónur þarf þá hvert heimili í landinu að greiða meira í skatta, eða þola í niðurskurð þjónustu.

Núna stendur yfir undirskriftarsöfnun gegn því að lögum um veiðigjald verði breytt og hafa yfir 15.000 undirskriftir skilað sér nú þegar og fjölgar með hverjum klukkutímanum.
Þessar undirskriftir verða síðan afhentar Forseta Íslands þar sem skorað er á hann að samþykkja ekki lagabreytinguna um veiðigjaldið.

Í ljósi þess sem hann sagði í maí í fyrra á Sprengisandi verður fróðlegt að sjá hvort hann stendur við orð sín og vísar þessu stóra máli til þjóðarinnar.

Undirskriftarlistinn.

Umsagnir

Umsagnir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa

Updated: 13. október 2013 — 17:09