Það getur verið mjög erfitt að standa í þeim sporum fyrir kjósendur að greina á milli sannleika og lygi, staðreynda og falsana, loforða og svika þegar fólk fylgist takmarkað með því sem er að gerast í stjórnmálum landsins enda hefur hinn almenni borgari lítin tíma til að kafa djúpt í þá hluti og fær þess vegna mjög skakka mynd af því sem raunverulega er að gerast vegna lélegrar fréttamennsku í landinu þar sem fjölmiðlar eru oftar en ekki notaðir til að segja aðeins hálfsannleika en þegja yfir því sem satt og rétt er því það hentar ekki eigendum þeirra eða þeim fréttamönnum sem þar starfa.
Að sjálfsögðu á þetta alls ekki við um alla fjölmiðla en því miður flesta þeirra sem ná til flestra landsmanna og þar er líka í gangi gífurleg mismunun gagnvart flokkum og frambjóðendum þar sem sumir fá að koma í viðtöl en aðrir í drottningarviðtöl meðan aðrir eru hreinlega hunsaðir með öllu því þeir „henta“ ekki í umræðuna. Kanski vegna þess að þeir kunna ekki að segja ósatt og ljúga því sem ljúga þarf að kjósendum.
Í Píratakóðanum segir eftirfarandi:
1. Gagnrýnin hugsun og upplýst stefna
1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
1.2 Í þessu felst að Píratar móti stefnu sína í ljósi gagna og þekkingar sem er aflað óháð því hvort tillaga virðist í fyrstu æskileg eða ekki. Afstaða Pírata til hugmynda er óháð því hverjir talsmenn hennar eru.
1.3 Fyrri ákvarðanir Pírata þurfa alltaf að geta sætt endurskoðun.
1.4 Réttur einstaklinga til að leita þess að verða upplýstir skal aldrei skertur.
Þeir sem hafa sæmilegan lesskilning átta sig strax á því hvað þetta þýðir og stjórnmálaafl sem leggur upp með svona grunnstefnu og ákveður að vinna eftir henni getur ekki sett sig í þá stöðu að segja ósatt eða fara með rangfærslur í málflutningi sínum því þingmenn hans hafa kynnt sér málin frá öllum hugsanlegum hliðum, (upplýsingar eru forsenda upplýstrar ákvörðunar) og því er þeim ómögulegt að segja ósatt, fara rangt með staðreyndir eða ljúga að kjósendum sínum.
Þegar Pírati lofar einhverju, þá gerir hann það að vel upplýstu máli og í samráði við samþingmenn sína og grasrótina því ef hann lofar án þess að hafa fyrir því vilyrði grasrótarinar, þá er hann ekki upplýstur eða eða sér ekki meðvitaður um þá stöðu sem hann er í.
Í komandi kosningabaráttu mega Píratar búast við að málflutningur þeirra verði tætur í sundur, skurmskældur og þeir sakaðir um að fara rangt með staðreyndir og því langar mig að bila til allra sem eru í framboði fyrir Pírata, að vanda sinn málflutning, vera með staðreyndir algjörlega á hreinu og skotheldar svo og hafa gögn máli sínu til stuðnings til að ekki sé hægt að hrekja sannleiksgildi þeirra þegar slagurinn er komin í fullan gang.
Aðeins með því getum við varist sérhagsmunaöflunum sem munu beita öllum brögðum, hversu óheiðarleg sem þau munu verða til að reyna að klekkja á okkur. Hafið líka fortíð ykkar á hreinu, sættist við hana og látið ekki nota hana gegn ykkur heldur samþykkið hana og látið hana vinna með ykkur því þið væruð ekki þær persónur sem þið eruð í dag nema vegna þess sem þið voruð og gerðuð áður.
Hlustið á allar hliðar mála áður en þið tjáið ykkur og tjáið ykkur ekki fyrr en þið hafið tekið upplýsta ákvörðun byggða á þeim gögnum sem þið hafið aflað ykkur og leyfið ykkur að skipta um skoðun án þess að sjá eftir því ef fyrri skoðun ykkar hefur ekki reynst byggð á staðreyndum og rökin hafa ekki verið sannreynd áður.
Það er engin skömm að því að biðjast afsökunar á mistökum. Allir eru mannlegir og allir sem eru mannlegir gera mistök einhvern tíma á sínum ferli. Það eru aðeins mannleysur og hrokafullt fólk sem ekki getur beðist afsökunar á gerðum sínum og mistökum en af því Píratar eru mannlegir þá geta þeir gert mistök, en þeir geta líka beðist afsökunar og reynt að laga þau og leiðrétta.
Enn fyrst og síðast skulum við muna að hafa heiðarleika, sannsögli og staðreyndir á hreinu því ósannindi og óheiðarleiki kemur bara í bakið á þeim sem það stunda og gerir það að verkum að trúnaður viðkomandi býður hnekki sem og allra sem starfa með viðkomandi og það viljum við ekki.
Undirritaður er í prófkjöri hjá Pírötum í Suðurkjördæmi og verður sáttur með það sæti sem honum verður úthlutað en óskar þó svona undir niðri að komast í annað sæti á lista.
YARRR!