Það er mánuður síðan ég skrifaði eitthvað um flutningana til Svíþjóðar og kanski ekki að ástæðulausu sem ég hef látið skrifin eiga sig þar sem óvæntir erfiðleikar settu heldur betur strik í reikninginn hjá okkur, aðalega mér þar sem ég er að leigja húsið af einkaaðila en ekki leigufélagi.
Húsið var rafmagnslaust þegar ég kom inn í það og ég þurfti sjálfur að sjá um að láta tengja rafmagnið í það og í hálfan mánuð var ég því rafmagnslaus og nánast fastur hérna þar sem afturdekkið á hjólinu hjá mér var orðið slitið niður í striga og biðin eftir nýju dekki var lengri en ég átti von á.
Til að fá rafmagnið tengt þurfti ég síðan að punga út 13.000,- sænskum krónum í tryggingu fyrir því að greiða rafmagnsreikningana tilvonandi, en þetta er orðin viðtekin regla hjá orkufyrirtækjum hér í Svíþjóð fyrir þá sem geta ekki sýnt neina innkomu hjá Skatteverket. Skiptir þá engu máli þó maður sé með bankareikning og rennsli í gegnum hann því allt of mikið af fólki hefur verið að stinga af frá reikningum síðustu tvö árin. Því var þessi regla tekin upp.
Mubblur og slíkir hlutir er eitthvað sem á eftir að verða sér úti um en það er kominn sófi, sófaborð og rúm með tilheyrandi og dugar það ágætlega í bili og var það sótt til Noregs þar sem Svíar eru lítið í því að gefa hluti heldur nota þá þangað til þeir eru útslitnir eða þá að þeir gefa þá í second hand búðir þar sem það er hægt að kaupa þá.
Mestu erfiðleikarnir hafa verið peningalegs eðlis eins og gefur að skilja en með tímanum á þetta allt eftir að lagast og maður gerir bara lítið í einu eða svona eins og efnin leyfa þessa dagana en samt er ekki annað hægt en brosa og njóta því það er augljóst að maður á eftir að komast vel af hérna með tímanum.
Keyptur var bíll þann 25. júlí síðastliðin, WV Golf, Highliner, 2.0 árg 00 á 5.500,- SEK, Sirka 70. þúsund klakakrónur. Bíll sem er í nánast toppstandi og getur enst lengi með réttri umhirðu.
Hann reyndist betur en ég þorði að vona þegar ég keyrði til Stokkhólms að sækja Karen og kettina og fór einstaklega vel með mann.
Þetta er „keeper“.
Hættur í dag, meira seinna.