Samtök miljarðamæringa halda lygunum og hræðsluáróðrinum áfram

Úr umdeildri auglýsingu SA.

Úr umdeildri auglýsingu SA.

Skemmst er þess að minnast fyrir nokkrum dögum þegar Samtök Atvinnulífsins ásamt Seðlabankastjóra, góluðu hér eins og stungnir grísir að ekki mætti hætta laun á almennum vinnumarkaði um meira en 1,5 til 2% í kjaraviðræðnum sem framundan eru á næstunni.  Gerðu þeir áróðursmyndband máli sínu til stuðnings þar sem fjallað er á mjög svo vafasaman hátt um hvað gæti gerst hækki laun á almennum markaði meira en um einhverja örfáa þúsundkalla á mánuði.  Það færi allt í bál og brand í landinu með det samme.  Verðbólga mundi rjúka upp í tveggja ef ekki þriggja stafa tölu á nóinu og kaupmáttur rýrna meira en sem næmi launahækkununum.  Að auki benda þeir á í myndbandinu að þjóðin sé skuldsett og þurfi að greiða stóran hluta tekna sinna í afborganir og vexti af erlendum skuldum. Undirliggjandi viðskiptajöfnuður nægir ekki til þess að standa í skilum með þessar greiðslur. Haldi sú þróun undanfarinna ára áfram sem hingað til, að launakostnaður á framleidda einingu hækki umfram það sem gerist í viðskiptalöndunum, gerist hið óumflýjanlega, að gengi krónunnar lætur undan og landsmenn fá yfir sig enn eina verðbólgugusuna.
Þetta segir fólkið sem hækkar launin sín að jafnaði einu sinni á ári um það sem nemur einum og hálfum mánaðarlaunum þeirra sem lægst hafa launin á landinu í dag.

Hérna segja Samtök atvinnulífsins að kjarasamningarnir árið 2011 hafi verið „misheppnuð tilraun“. Þeir fólu í sér miklar almennar launahækkanir og tvöfalt meiri sérstakar hækkanir kauptaxta.
Takið eftir, lægsti launataxti frá árinu 2011 hækkaði úr 157.752 kr. í 191.752 kr. í þriggja ára samningi. Samtals 34.000 kr. hækkun á launatöxtum og þetta kalla SA menn „miðheppnuð tilraun.“
Hvað með stjórnarmenn innan SA sem eru með að meðaltali 3,2 milljónir í laun, jú þeir hækkuðu um 11,4% samkvæmt umsömdum launahækkunum sem þýðir að slík laun hafa hækkað um 360.000 kr. á mánuði!

En hvar eru verkalýðsfélögin?
Aðeins einn verkalýðsforingi virðist hafa eitthvað bein í nefinu til að svara áróðursmaskínu Samtaka Atvinnulífsins meðan restin steinþegir og heyrist ekki múkk frá þeim á opinberum vettvangi.
Eru þeir sömu aumingjarnir og formaður ASÍ sem er greinilega og augljóslega eign SA?

Það er komið að launafólki sjálfu að taka til sinna ráða og hætta að láta valta svona yfir sig.
Það á eftir að koma í ljós á næstu misserum hvort íslenskir launþegar eru komnir af víkingum eða þrælum því eðlið kemur fljótt í ljós þegar reynir á.

Kæri launþegi sem vinnur í fiski, á kassa í verslun eða sem almennur launaþræll.  Ertu afkomandi víkings eða þræls?

Umsagnir

Umsagnir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa

Updated: 26. nóvember 2013 — 20:30