Um leið og ég óska lesendum mínum gleðilegs nýs árs og velfarnaðar ásamt þökkum fyrir innlitin á því sem er ganga sinn veg, þá langar mig að minnast ársins sem er að kveðja í örfáum orðum.
Árið 2012 hófst eiginlega á því, að ég sté á ný inn í heim hestamennsku, nýfluttur hingað á Selfoss, leigði ásamt sambýliskonu minni hesthús og tók 3 hross inn og sinnti þeim eins og ber að gera. Allt gekk þetta ótrúlega vel en ég varð þó fyrir því óhappi að hestur fældist undan mér í Febrúar með þeim afleiðingum að ég kastaðist af baki og vinstri öxlin hefur verið til vandræða síðan.
Í lok Mars lést móðir sambýliskonu minnar af völdum krabbameins sem hún hafði greinst með sumarið áður og var hún jarðsungin miðvikudaginn fyrir páska.
Síðastliðið sumar starfaði ég svo sem vagnstjóri á leiðinni Selfoss – Vík hjá Strætó / Hópbílum og var það í senn forvitnilegt, skemmtilegt og fræðandi á margan hátt. Farþegar voru að sjálfsögðu af mörgum þjóðernum og aðeins einu sinni minnist ég þess að komið hafi upp tungumálaerfiðleikar á þessum tæpu fjórum mánuðum, en þá var um Frakka að ræða sem töluðu ekki stakt orð í neinu öðru tungumáli en frönsku.
Í haust settist ég síðan á skólabekk í Fjölbrautarskóla Suðurlands hér á Selfossi og hóf nám í söðlasmíði. Aðrar námsgreinar fylgdu að sjálfsögðu með þar sem undirritaður hefur lítið gert af því að stunda nám eftir að hann stakk af úr grunnskóla réttra 14 vetra unglingur og færði sig á vinnumarkaðinn.
Námið gekk með ágætum þar til 20. Okt þegar örlögin knúðu dyra og settu veröldina á hliðina.
Næst versti dagurinn í lífi mínu var sem sé 20. Oktober 2012 síðdegis þegar sóknarpresturinn bankaði upp á og tilkynnti mér að sonur minn, rétt tæplega 20 vetra hefið svift sig lífi þá um morguninn. Heimurinn hrundi og þegar ég lít til baka er restin af deginum og kvöldinu í þokumóðu og öll smáatriði óljós þar sem sá tími fór í að tilkynna nánustu ættingjum og vinum þessar sorgarfréttir.
Versti dagurinn var svo 5. Nóvember þegar drengurinn var jarðsettur.
Þetta setti námið úr skorðum hjá mér og varð til þess að ég féll í 3 greinum enda var öll einbeiting úr sögunni og ég gat ekki fest hugann við nokkurn hlut frá því hann féll frá.
En nú er nýtt ár að bresta á og það þarf að halda áfram með það líf sem okkur hinum var úthlutað. Námið heldur áfram og ég mun stefna á að ná upp því sem ég tapaði og bæta að auki einhverju við og óska mér sjálfum góðs gengis í þeim efnum.
Gleðilegt nýtt ár og velfarnaður til ykkar allra þarna úti.
Í minningu sonar míns.