Ég ætla að koma smá skilaboðum á framfæri í þessum stutta pistli mínum til þeirra sem haldnir eru ólæknandi fordómum gagnvart okkur sem erum af einhverjum ástæðum ófær um að stunda líkamlega atvinnu og flokkumst vegna þess sem öryrkjar.
Það er hreint út sagt viðbjóðslegt að sjá það hugarfar sem þið opinberið með orðum ykkar og skrifum um okkur á samfélagsmiðlum, í skilaboðum til okkar, tölvupóstum og framkomu ykkar við þá sem eiga við sjúkdóma og/eða fötlun að stríða, hvort heldur hún er andleg eða líkamleg.
Þið sakið okkur um svindl og þjófnað með því að vera á bótum frá ríkinu og að við lifum í vellystingum á kostnað almennings í landinu, vinnum síðan svarta vinnu sem mest við megum, svíkjum undan skatti og þið vogið ykkur að halda því fram að það sé okkur að kenna að hér sé stundað vaxtaokur í bönkum og lánastofnunum og það sé okkur að kenna að laun séu svo lág á almennum vinnumarkaði að fólk verði að þræla sér út myrkrana á milli til að eiga fyrir salti í grautinn.
Ég og fleiri sem eru flokkaðir sem öryrkjar þurfum að sitja undir þessum ásökunum á hverjum einasta degi frá fólki sem er svo skyni skorpið að það getur ekki einu sinni hlustað á rök eða staðreyndir málana, hvers vegna fólk fer á örorku og þann tíma sem greiningin tekur. Allar sérfræðiheimsóknirnar sem kostar hvítuna úr augunum, læknisheimsóknir og ótal viðtöl og greiningar hjá Tryggingastofnun Ríkisins, svo fátt eitt sé talið upp. Ferlið getur tekið allt að tveimur árum og á meðan eru tekjurnar litlar sem engar.
Ég skal alveg játa að ég stundum óskað ykkur þess að missa heilsuna og þurfa að eiga við þetta kerfi sem við höfum þurft að eiga við og að þið þurfið að ganga í gegnum þau svipugöng helvítis sem við höfum þurft að fara í gegnum, bara til þess að þið þurfið að éta ofan í ykkur alla hatursorðræðuna sem þið hafið látið frá ykkur í okkar garð. Að þið fáið að upplifa á eigin skinni þá hatursorðaræðu sem við þurfum að fá yfir okkur frá ykkar líkum, lítilmennum og konum sem teljið ykkur hátt yfir aðra hafna, að líf ykkar muni aldrei krassa og heilsan haldist til æviloka og þess vegna sé það réttur ykkar að úthúða öðrum, niðurlægja þá og saka um þjófnað, svik og óheiðarleika.
Nú skal ég útskýra fyrir eitt fyrir ykkur.
Þið eruð ekki ódauðleg.
Þið gætuð misst heilsuna á morgunn.
Þið gætuð lent í sömu sporum og aðrir öryrkjar, jafnvel verri.
Lærið að hugsa og setja ykkur í annara spor áður en þið sýnið og sannið fyrir alþjóð hvaða persónu þið hafið í raun að geyma þegar þið spúið hatrinu á þeim sem minna mega sín yfir okkur sem af einhverjum ástæðum flokkumst sem öryrkjar.
Skömmin er öll ykkar, ekki okkar öryrkjana.
Með takmarkaðri vinsemd og engri virðingu, Jack.