Sæll Bjarni.
Ég sendi þér hér með þetta bréf, sem er einnig birt opinberlega á vefnum https://jack-daniels.is.
Mig langar að segja þér frá hvernig mitt líf er. Ég er öryrki í dag, 25 ára gömul vegna lífshættulegs geðsjúkdóms. Þar af leiðandi er mjög nauðsynlegt fyrir mig að hafa greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu, s.s geðlæknaþjónustu, sálfræðiþjónustu (sem mér hefur verið neitað um vegna niðurskurðar), lyfja og fleira. Í mörg ár hafa aðstæður mínar verið þannig að ég hef ekki getað fengið þá þjónustu sem er nauðsynleg til þess að ég gæti mögulega, KANNSKI, átt von um að komast út á vinnumarkað aftur. Það er nú ekkert draumalíf að vera 25 ára öryrki, með heila 6 ára óvinnufærni á bakinu nú þegar. En þessa hjálp get ég því miður ekki fengið á Íslandi. Og það er bara einfalt, það er vegna þess að það er svo svakalegur niðurskurður að þegar ég hef þurft bráðaaðstoð hefur mér oftar en ekki verið vísað á dyr. Það er ekki út af því að starfsfólkið á þessum blessaða spítala vill ekki hjálpa mér, heldur af því það getur það ekki.
Vegna fjárskorts.
Nú er það þannig að þegar maður er sjúklingur, þá leitar maður oft til annarra sjúklinga með svipuð vandamál. Og hjá þessum þjóðfélagshópi gengur manna á milli ráðleggingar hvernig maður geti fengið hjálp. Það er ákveðin setning sem maður þarf að segja til þess að fá bráðaaðstoð og hún er: ,,Ef þið hjálpið mér ekki, þá frem ég sjálfsmorð!“.
Í hvaða veröld er það gott heilbrigðiskerfi að maður þurfi bókstaflega að vera við dauðans dyr til að fá lífsnauðsynlega heilbrigðisþjónustu?
Nú þekki ég það ekki af eigin raun hvernig þetta er hjá fólki með öðruvísi sjúkdóma en sögurnar eru heldur ekki fallegar.
Staðan hjá mér í dag er sú að ég er nú flutt erlendis þar sem heilbrigðiskerfi er, sem þið viljið oft meina að íslenska kerfið sé samanburðarhæft við, sem sagt Danmörk. Ég get alveg sagt þér af eigin reynslu, að meðhöndlunin sem ég fæ hérna í Danmörku er sko ekki samanburðarhæf við þá Íslensku því hér fæ ég þá hjálp sem ég á rétt á og líður mun betur fyrir vikið.
En hér er líka heilbrigðiskerfið sett í forgang, annað en á Íslandi greinilega.
Mig langar að segja frá því, þeas, ef þú manst ekki eftir því Bjarni, að þegar „Á allra vörum“ safnaði pening til styrktar geðdeildarinnar söfnuðust heilar 40 milljónir.
Já, 40 milljónir sem fólk borgaði í heilbrigðiskerfið okkar úr eigin vasa. Og það var bara þetta eina ár.
Starfsfólk á tiltekinni deild á Landspítali Háskólasjúkrahús notar einnig pening úr eigin vasa til þess að verða sér út um muni sem er brýnt að endurnýja á þessum deildum svo þetta verði eins mannúðlegt umhverfi og hægt er. Það er ekki hægt að kalla þetta eðlilegt velferðarkerfi.
Þess vegna langar mig að biðja þig, fjármálaráðherra Íslands, um rökstuðning fyrir bílakaupum fyrir þig, utanríkisráðherra og forsætisráðherra, sem kosta svipað mikið og myndi kosta að gera heila deild á sjúkrahúsinu okkar upp! Mér er spurn, hver er hagnaður ykkar af því að eiga þessa dýru jeppa þegar kostirnir fyrir hagstæðum bílum í dag eru svo rosalega margir?
Þetta er mjög einföld spurning og maður með grunn-reiknihæfileika ætti að geta svarað þessari spurningu.
Kveðja,
Jóhanna Þorsteinsdóttir