Lífskulnun eldri borgara, öryrkja og láglaunafólks

Afleiðing fátæktar í boði stjórnvalda.

Undanfarin misseri hefur mikið verið rætt um ,,kulnun í starfi“ en ekkert horft á það gífurlega álag sem fátækt í þjóðfélaginu veldur.
Stigið hefur fram fólk og sagt sína sögu um hvernig það hefur yfirkeyrt sig á vinnu, jafnvel fólk sem hefur bara skítsæmilega góð laun og kemst vel af.  Ekkert hefur hins vegar heyrst frá forstjórum, stjórnmálamönnum eða fólki sem er með yfir milljón á mánuði í útborguð laun enda hæpið að það fólk finni fyrir kulnun í starfi enda þarf það aldrei að hafa áhyggjur af afkomu sinni.

En eins og venjulega eru það ákveðnir þjóðfélagshópar sem gleymast og fjölmiðlar passa af öllu afli að ekkert fái að heyrast í þeim eða birta nokkuð af skrifum þeirra enda líta þeir svo á að þetta sé undirmálsfólk sem hafi ekki rétt til að tjá sig um þjóðfélagsmálin eða líf sitt nema í lokuðum hópum á fésbókinni.  Þessir hópar eiga bara að halda kjafti og þakka fyrir að fá þó í það minnsta einhverja ölmusu frá ríkinu þegar það getur ekki séð fyrir sér sjálft.

Já, ég er að tala um aldraða, öryrkja, láglaunafólk á lægstu töxtunum og heimilislausa, geðsjúka og heilabilaða.

Mikið af þessu fólki á við ,,lífskulnun“ að stríða og er í mörgu ekkert frábrugðin því sem fólk upplifir þegar það verður fyrir kulnun í starfi.
Ég veit um mikið af fólki sem lifir í kvíða, þunglyndi og áhyggjum hvern einasta dag, alla daga ársins og þegar eitthvað óvænt kemur upp hjá því sem verður til þess að það fær á sig auka útgjöld þá örmagnast fólk.  Það verður bara algjört ,,system overload“ og fólk nær ekki að gera neitt.  Nær ekki að hugsa út neinar lausnir eða finna út úr því hvernig hægt er að leysa málin og hjá sumum gerist það einfaldlega að heilinn slekkur á sér um tíma.  Fólk bara hreinlega sofnar af andlegri þreytu þegar kerfið segir hingað og ekki lengra.

Annað stig lífskulnunar er svo þegar fólk hættir að vonast eftir því að ástandið lagist nokkurntíma.  Að restin af lífinu verði bara áfram þannig að það eigi ekki fyrir nauðsynjum og að það þurfi í hverjum mánuði að leita sér hjálpar fyrir mat og lyfjum hjá þeim félagasamtökum sem gefa sig út fyrir það.
Það er engin von lengur og fólk reynir bara að þrauka í gegnum ástandið án vonar eða vilja.
Lífsviljinn hverfur síðan smátt og smátt því það er ekkert eftir.
Engir draumar.
Engin von um að geta eignast nokkuð eða leyft sér neitt.
Engin ferðalög, aldrei út að borða, aldrei á kaffihús, aðeins félagsleg einangrun heima og ótti og hræðsla við að fara út úr húsi og mæta augnaráði fólks sem lítur niður á þig í hroka sínum og heimsku, haldandi að þú hafir valið þetta ástand.
Engin hjálp og engin vilji stjórnvalda til að sjá, skilja eða skynja það ástand sem þetta fólk býr við því fjölmiðlarnir kóa með stjórnvöldum að þegja þetta ástand í hel.

Að viðhalda fátækt er pólitísk ákvörðun þeirra sem landinu stjórna hverju sinni og hvert einasta sjálfsmorð sem hægt er að rekja til beinnar fátæktar er á ábyrgð þeirra.

Það hefur verið sagt að peningar kaupi ekki hamingju.  Sá sem lét þau orð falla hefur sennilega aldrei verið blankur eða þurft að berjast við að eiga í sig og á í einhvern tíma.
Ef einhver segir þetta við ykkur, bendið viðkomandi á þetta myndband hér að neðan, því það útskýrir nákvæmlega hvernig peningar, (í hófi) byggja undir að fólk sé hamingjusamt.

Umsagnir

Umsagnir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa