Ég horfði á blaðamannafund sem Píratar héldu klukkan 11 í morgunn og fyrstu viðbrögðin hjá mér voru reiði og gífurleg vonbrigði og ég ákvað að steinhalda kjafti og melta þetta aðeins með mér. Reyna að finna út hvað væri eiginlega í gangi og hvort þetta væri eitthvað sem ég ætti að skrifa um á neikvæðan hátt.
En þekkjandi Smára McCarthy og hugsunarhátt hans þá sá ég fljótlega hvað þetta er mikil ofboðsleg snilld sem þarna liggur á bakvið. Það þarf einstsaklinga eins og Smára til að hugsa svona og hrinda því í framkvæmd að stofna kosningabandaleg fyrir kosningar og jafnvel ganga svo langt að gera stjórnarsáttmála áður en kosið er svo fólk viti nákvæmlega hvaða loforð verður staðið við eftir kosningarnar.
Það sem liggur á bak við þetta hjá Pírötum er að gera tilraun til að fá heiðarleg stjórnmál eftir kosningar, ræða við þá flokka sem hugsanlega væri hægt að fá í samstarf með okkur og gera stjórnarsáttmála á grundvelli þeirra stefnumála sem flokkarnir eru að kynna núna fyrir kosningar.
Það má því alveg gera að því skóna að þeir flokkar sem ekki eru tilbúnir í slíkar viðræður og gera stjórnarsáttmála fyrir kosningarnar séu þeir flokkar sem ætla að keyra áfram á loforðum sem síðan verður ekki hægt að standa við eftir stjórnarmyndum vegna „pólitísks ómöguleika“ þar sem ekki náðust samningar um ágreiningsmál.
Með því að taka þetta mál á dagskrá fyrir kosningar geta kjósendur séð sameiginleg stefnumál þeirra flokka sem standa að svona sáttmálum og vitað áður en þeir fara í kjörklefan að við þau verður staðið.
Ég er sannfærður um það að þetta losar kjósendur úr gífurlegri krísu, sérstaklega þá óákveðnu sem vita í raun ekkert hvaða flokka þeir ættu að kjósa.
Ég treysti því líka að kjósendur skilji hvað um er að ræða því þarna koma Píratar inn með nokkuð sem aldrei hefur verið gert hér á landi áður en þekkist víðast hvar annarsstaðar í lýðræðisríkjum.
Með þessu fyrirkomulagi er hægt að koma í veg fyrir kosningasvik því sáttmálinn er tilbúinn fyrir kosningar og almenningur getur kynnt sér hvaða mál verða sett á oddinn þegar ný ríkisstjórn kemur saman.
Það er að segja ef það verða ekki núverandi stjórnmálaflokkar með einhverja hækjuna til að bakka sig upp, en ég neita að trúa því að íslendingar séu svo treggáfaðir að kjósa þá eftir reynslu síðustu þriggja ára.