Klúður áratugarinns.

Bessastaðir

Aldrei í sögu sjónvarps á íslandi hefur verið jafn illa staðið að beinni útsendingu eins og hjá Stöð 2 þann þriðja Júní 2012 þegar haldnar voru kappræður frambjóðenda til forsetakosninga í Hörpunni.  Þar sýnir sig gjörla hvernig fer þegar óhæfir einstaklingar eru látnir sjá um stjórn á svona stórri framkvæmd.
Ekki nóg með að farin var hin Ameríska leið og aðeins tveim þeim efstu úr skoðanakönnunum boðið til kappræðnana, en sex eru í framboði til forseta, heldur var útsendingin í læstri dagskrá þannig að þeir sem ekki eru með áskrift að stöð 2 gátu ekki horft á útsendinguna.

Þegar ljóst var, að aðeins tveir þeir efstu úr skoðanakönnunum, Ólafur og Þóra yrðu einu frambjóðendurnir í kappræðunum mótmælti bæði almenningur sem og hinir frambjóðendurnir hástöfum slíkri mismunum og höfðu hátt um að þarna væri jafnræðisregla brotin gagnvart þeim frambjóðendum sem ekki var boðið.  Almenningur talaði um að lýðræði væri brotið sem og að stöð 2 væri að brjóta lög með því að gera þetta með þessum hætti.

Þegar svo stöð 2 ákvað að breyta fyrirkomulaginu og bjóða hinum fjórum frambjóðendunum í kappræðurnar var það gert með þeim hætti að ekki var hægt að draga um hverjir kepptu hverju sinni, heldur var raðað upp í stafrófsröð og áttu tveir að etja kappi hverju sinni en bara einu sinni.  Ekki var raðað þannig niður að allir frambjóðendur myndu etja kappi hver við annan.  Aðeins ein umferð sem engu mundi skila.

Þetta varð til þess að þrír frambjóðendur gengu úr beinni útsendingu þegar þetta fyrirkomulag var ljóst og sendu þeir frá sér yfirlýsingu í kjölfar þess og hljóðar hún svona;

Skilaboð frá Andreu Ólafsdóttur:

Til þess að útskýra þessa útgöngu okkar Ara Trausta og Hannesar er rétt að upplýsa fólk um það hvers vegna okkur var verulega misboðið, því við höfðum í raun ekki tækifæri til að semja yfirlýsingu um allan aðdragandann.

1. Þóru og Ólafi Ragnari var eingöngu boðið – ameríski stíllinn og best að útiloka bara alla hina strax fyrst þeir eru ekki með nema lítið fylgi þrátt fyrir að umræðan sé alls ekki hafin að neinu marki.
2. Þóra tók sér þrjá daga til að hugsa málið eftir að hún hafði þegið boðið – hún stillti að lokum Stöð 2 upp við vegg og neitaði þátttöku – sem var góð ákvörðun þótt hún hafi tekið langan tíma fyrir hana.
3. Stöð 2 reynir að redda sér, búin að selja auglýsingar fyrir þáttinn og sendir okkur hinum boð um að koma, án þess að útskýra nokkuð um fyrirkomulagið annað en það verði spurningar fundarstjóra og spurningar úr sal og af Twitter. Við gerðum öll ráð fyrir því að þá yrði fyrirkomulaginu breytt þannig að við yrðum öll saman á sviði.
4. Ari Trausti kemst að því um kl. 14-15 í dag að fyrirkomulagið eigi að vera eins og upphaflega var ætlunin, en núna á að stilla upp tveimur og tveimur frambjóðendum í einu og í stafrófsröð – en hvað kemur sér vel fyrir Stöð 2 að Ólafur og Þóra eru síðust í stafrófinu 😉
5. Við hin ráðum ráðum okkar, var öllum misboðið.. Við ákveðum að biðja kurteisislega og vinsamlega um að það verði dregið um hverjir lenda saman og sendum frá okkur sameiginlega fréttatilkynningu – en okkur þótti reyndar öllum eðlilegast að við hefðum verið öll í einu á sviðinu og fengið jöfn tækifæri til að bregðast við.
6. Stöð 2 bregst illa við þessu og heldur fund – niðurstaðan er eins, NEI við drögum ekki, þetta verður svona – það er búið að ákveða þetta.
7. Klukkan er orðin næstum 19 á þessum tíma og ég og Ari Trausti og Hannes ákveðum að lesa yfirlýsingu upp í beinni þar sem við erum komin á staðinn og svona illa og ófaglega er staðið að verki, að við göngum út.
8. Niðurstaða okkar var því að við gátum ekki látið viðgangast að misbjóða okkur og lýðræðinu með þessum hætti. Virðingin var engin og ekki hægt að láta þetta viðgangast og láta eins og ekkert væri.

Miklar umræður hafa orðið um þetta á vefnum og sýnist sitt hverjum um þetta.  Flestum finns rétt af þeim að hafa gengið út meðan aðrir tala um væluskjóður og aumingja án þess að horfa á heildarmyndina.

Málið er að þarna tókst stöð 2 og stjórnendum þessarar útsendingar að gera sig að algerum fíflum fyrir alþjóð og öllum þeim sem fylgjast með kosningum á íslandi vegna lélegrar skipulagningar og óhæfs starfsfólks sem átti að sjá um þetta.  Síðan er þetta sent út í læstri dagskrá sem aðeins brot af þjóðinni getur séð.  Því má með sanni segja að þetta hafi verið klúður áratugarins og vel það.

Umsagnir

Umsagnir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa

Updated: 4. júní 2012 — 10:14