Karmað bítur í bossann á Bjarna Ben

Bjarni reitir fylgið af flokknum. MYND: Gunnar Karlsson

Bjarni reitir fylgið af flokknum.
MYND: Gunnar Karlsson

Fyrir rétt um tveim árum síðan stóð Bjarni Benediktsson, núverandi fjármálaráðherra, í ræðustól alþingis og sakaði Jóhönnu Sigurðardóttur og stjórn hennar að vera algerlega getulaus í samskiptum ríkisstjórnarinnar við aðila vinnumarkaðarins.  Sagði hann að þar gengju á víxlsvika- og lygabrigsl milli ríkisstjórnarinnar og forustu launþegahreyfingarinnar í landinu. ASÍ segir að ríkisstjórnin hafi sett heimsmet í svikum. Forustumenn ASÍ hafa auglýst sérstaklega tiltekna liði sem þeir telja að sviknir hafi verið og svar ríkisstjórnarinnar við þeim ásökunum eru að þau að segja Alþýðusambandið ljúga.
Þegar þetta var sagt, var fylgi við stjórn Jóhönnu rétt um 35% en í dag er fylgi við ríkisstjórnin rétt um 34%.

Síðan segir Bjarni:

Það er hlutverk ríkisstjórnar á hverjum tíma að leiða saman þjóðina, skapa sátt í samfélaginu, koma á friði og ró á vinnumarkaði eftir því sem ríkisstjórnin hefur eitthvað fram að færa í þeim efnum, en ekki að efna til átaka, svika og sundrungar í samfélaginu. Því miður hefur allt kjörtímabilið einkennst af brostnum væntingum launafólks, atvinnuveitenda og launþegahreyfingar. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem svik eru borin upp á ríkisstjórnina. Þetta er bara enn eitt skiptið.

Forusta launþegahreyfingarinnar ASÍ segir að fullreynt sé með samskipti við ríkisstjórnina. Nú spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Er ekki kominn tími til að viðurkenna uppgjöfina, viðurkenna getuleysið, viðurkenna úrræðaleysið sem blasir við öllum? Er ekki kominn tími til að skila lyklunum? Hvers vegna á að halda þjóðinni í þeirri stöðu að þurfa að bíða eftir kosningum fram á vor þegar við öllum blasir hversu mikilvægt það er að friður sé á vinnumarkaði og að fyrir hendi séu nauðsynlegar forsendur þess að hægt sé að endurnýja kjarasamninga og koma á nýju stöðugleika- og vaxtaskeiði? (Forseti hringir.) Þessi ríkisstjórn er í engum efnum líkleg til að rísa undir þeim væntingum. Þess vegna blasir sú spurning við, virðulegi forsætisráðherra: Hvers vegna ekki bara að skila lyklunum nú þegar?

Jóhanna svarar:

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður talar um fordæmalausa stöðu. Ég hygg að sú auglýsing sem ASÍ kaus að birta í gær sé án fordæmis og algerlega tilefnislaus. Við í ríkisstjórninni höfum þurft að búa við það í gegnum tíðina að sitja undir eilífum svikabrigslum frá ASÍ. Þau eru orðin það mikil að þeir geta varla verið marktækir í umræðunni þegar horft er á málin í heild. Auglýsingin er ósanngjörn og á ekki við nein rök að styðjast.

Við getum horft til þess að þeir samningar sem gerðir voru eru mjög viðamiklir og aðkoma ríkisins að þeim var mjög mikil. Margir töldu þar að við hefðum gengið of langt að því er varðar útgjöld ríkisins vegna þess að svo mjög lagði ríkisstjórnin sig fram um að ná þessum samningum. Þeir hafa leitt til þess að friður hefur verið á vinnumarkaðinum. Þeir hafa leitt til þess að kaupmáttur hefur aukist. Þeir hafa leitt til að hagvöxtur er hér meiri en í samanburðarlöndunum og þeir hafa leitt til þess að atvinnuleysi hefur minnkað verulega. Þeir hafa líka leitt til þess að við höfum farið í ýmsar aðgerðir sem stuðlað hafa að jöfnuði í samfélaginu með þrepaskiptum tekjuskatti, fullri verðtryggingu persónufrádráttar, sem ekki var reglan þegar framsóknarmenn og sjálfstæðismenn stjórnuðu, og miklum jöfnuði í samfélaginu. Það stendur ekki steinn yfir steini í þessari auglýsingu vegna þess að þau átta atriði sem þarna eru sett fram eiga ekki við rök að styðjast.

Eins og komið hefur fram er misjöfn túlkun á einu atriði varðandi bætur, atvinnuleysisbætur og almannatryggingabætur, en að öðru leyti styðst auglýsingin ekki við nein rök. Virðulegi forseti. Ég skil ekki hvað vakir fyrir forustumanni ASÍ, Gylfa Arnbjörnssyni. (TÞH: … verkalýðsforustuna.)

Bjarni svarar:

Forseti. Hér birtist okkur að forherðing ríkisstjórnarinnar er í alveg ótrúlegri stöðu. Þetta er ekkert annað en forherðing. Er ekki kominn tími fyrir ríkisstjórnina að átta sig á því að sökudólgurinn í málinu er ekki ASÍ. Forsætisráðherra beinir orðum sínum að forseta ASÍ. Má ég vekja athygli á því að forseti ASÍ hefur formenn allra aðildarfélaganna að baki sér. Hann stendur ekki einn í þessari baráttu og ASÍ er heldur ekki eitt. Samtök atvinnulífsins hafa verið á sömu nótum. Þess vegna sprakk stöðugleikasáttmálinn. Það er greinilegt að ríkisstjórnin er algerlega komin upp við vegg og kann engin ráð í stöðunni.

Kjósendur í þessu landi, landsmenn allir, launþegahreyfingin og atvinnurekendur vita hins vegar að það skiptir höfuðmáli við aðstæður eins og þær sem nú eru uppi í þjóðfélaginu að við höfum ríkisstjórn sem getur unnið með fólki, sem sendir út að stjórnvöld ætli að standa að baki hreyfingum eins og ASÍ, Samtökum atvinnulífsins og öðrum þeim sem eru að reyna að efla atvinnu og auka kaupmátt (Forseti hringir.) launþeganna í landinu. Sú forherðing sem hér birtist (Gripið fram í: Hún hefur aukist.) sannfærir mig um að það er kominn tími, Jóhanna, til að skila lyklunum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir hv. þingmenn á að ávarpa og nefna hv. þingmenn og hæstv. ráðherra fullu nafni.)

Jóhanna svarar Bjarna:

Forseti. Skila lyklunum, segir hv. þingmaður. Hvert eigum við að skila þeim? Eigum við að skila þeim til Sjálfstæðisflokksins? (Gripið fram í: Til þjóðarinnar.) Til Framsóknarflokksins? (TÞH: Þið eigið að skila þeim til þjóðarinnar.) Er það það sem hv. þingmaður er að ýja að, að betur væri komið fyrir launafólki ef sjálfstæðismenn og framsóknarmenn stjórnuðu hér? (Gripið fram í: Nei.)

Ég skal segja eitt við hv. þingmann: Ég er sannfærð um það að ef svo illa fer í kosningunum í vor að sjálfstæðismenn taki við völdum (Gripið fram í.) mun forusta ASÍ þakka fyrir þann tíma sem hún hefur haft með félagshyggjustjórn síðustu fjögur árin. (Gripið fram í: Nei, nei, nei.) [Kliður í þingsal.] Það er alveg ljóst, hv. þingmaður. Og við getum farið yfir þau mörgu atriði (Gripið fram í.) sem við höfum komið til framkvæmda á þessum fjórum árum til hagsbóta fyrir launafólk í landinu. (Gripið fram í.) Við fórum af þeirri braut sem hv. þingmaður og flokkur hans voru á (Forseti hringir.) þegar þeir hækkuðu skattana á láglaunafólk en lækkuðu skatta á hálaunafólk. Svona er hægt að telja upp hvert atriðið á fætur öðru þar sem gengið var gegn (Forseti hringir.) launafólki í þessu landi þegar íhaldsmenn stjórnuðu. Vonandi koma þeir tímar ekki aftur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Það hlýtur að vera niðurlægjandi og sárt fyrir Bjarna að vera í þeirri stöðu í dag að vera í enn verri stöðu heldur en Jóhanna Sigurðar var fyrir tveimur árum og kemur það berlega í ljós í allri umræðu um störf ríkisstjórnarinar.
Og talandi um að efna til ófriðar við launþegahreyfinguna og ASÍ, þá er deginum ljósara að sá ófriður sem nú er í uppsiglingu verður enn meiri og verri heldur en áður hefur þekkst því ASÍ hefur komið þeim skilaboðum til að stjórnvalda að nú stefni í harðar kjaradeilur.

Það má því með sanni segja að karmað sé að bíta í bossann á Bjarna Ben og bíta fast og oft.

Umsagnir

Umsagnir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa

Updated: 30. september 2014 — 01:15