Í dag er fyrsti virki dagur eftir jólafrí og fólk búið að mestu að halda sig heima eða í jólaboðum síðustu tvo daga með vinum og fjölskyldu. Í gærkvöld var víða blásið til skemmtannahalds og slepptu þá margir fram af sér beislinu, helltu í sig áfengi og skunduðu á dansleiki, öldurhús eða stofnuðu til skemmtannahalds í heimahúsum og ekkert er að því í sjálfu sér en verra þegar fólk getur ekki hamið skapsmuni sína og lætur hnefana tala þegar því líkar ekki hlutirnir.
Í fréttum dagsins er þetta helst að telja sem maður rekur augun í:
Þurfti ítrekað að stöðva slagsmál á Selfossi
Réðst á kærasta sinn með kúbeini
Réðust á nágranna sem kvörtuðu yfir hávaða
Nóttin var eins og helgarnótt
Réðst á foreldra sína
Það hefur oft verið í umræðunni að íslendingar séu agalausir og hafi litla stjórn á skapi sínu, sérstaklega þegar áfengi er haft um hönd. Það líður varla dagur öðruvísi en að lögreglan stoppar fólk fyrir ölvunnarakstur eða akstur undir áhrifum fíkniefna og það er eins og fólki sé svo nákvæmlega sama þó það stofni sjálfum sér og öðrum í stórhættu með hegðun sinni þegar það ákveður að setjast undir stýri undir áhrifum og aka af stað.
Slagsmál og ofbeldi virðist einnig vera orðinn nánast daglegur viðburður eftir því sem maður les í fjölmiðlum og af dagbókum lögreglu víðsvegar af á landinu. Það er eins og það þyki sjálfsagðasti hlutur að meiða sem mest þann sem verður undir í slagsmálum og að sparka í liggjandi mann er eitthvað sem ofbeldismaðurinn er stoltastur af og hefur maður heyrt menn gorta sig af því hvernig hann lét spörkin vaða í maga, hrygg og höfuð þess sem lá í götunni.
Þetta er ömurleg hegðun og það þarf að taka harðar á þeim sem stofna til slagsmála og limlesta þann sem liggur með höggum og spörkum. Fjársektir og harðari dómar er eitthvað sem ég vil sjá í þeim efnum.
Áfengisdrykkja er ekki af hinum slæma því hóflega drukkið vín, gleður mannsins hjarta en óhóf ekki. Íslendingar þurfa að læra að aga sjálfa sig bæði í drykkjunni og í skapinu.