Þær hugrenningar sem fara hér á eftir hafa svolítið verið að grassera í hausnum á mér undanfarnar vikur og eru langt í frá fullmótaðar og geta stöðugt tekið breytingum. Ætli þar sé ekki helst um að kenna bölvuðum athyglisbrestinum sem hefur hrjáð mig frá því ég man eftir mér enda þarf ég helst að vera með fleiri en 10 hluti í gangi svo ég geti einbeitt mér að því að klára einn á sómasamlegan hátt.
Nú er stjórnkeri okkar íslendinga gjörsamlega í molum þrátt fyrir að síðustu sjö ár hafi verið reynt að byggja hér upp betra stjórnkerfi eftir efnahagshrunið 2008 en því miður hefur það ekki tekist nema að mjög litlu leiti. Ástæðan er kerfið sjálft.
Þú lesandi góður ert með tölvu, mjög líklega með windows stýrikerfi, nokkrir með Apple og einhverjir örfáir með Linux.
Ég ætla ekkert að gera upp á milli kerfa en öll þessi kerfi eiga það sameiginlegt að vera búin til af fólki. Fólki sem er misjafnt að upplagi og innræti eins og við öll. Þess vegna verða kerfin líka fyrir árásum einstaklinga sem vilja skemma og eyðileggja af því þeir, í sínum sjúka hugarheimi halda að þeir séu að gera gagn með því.
Það sama þekkjum við vel í stjórnkerfinu hér á íslandi og af Alþingi okkar íslendinga. Þar eru einstaklingar sem eru handbendi hagsmunaaðila sem vilja þjóðinni ekkert gott og eru ekki að vinna fyrir hana heldur eru þeir að vinna fyrir sína hagsmunaaðila og sjálfa sig. Þeirra kjörorð eru í raun: „Skítt með ykkur, allt fyrir okkur“.
Við vitum alveg hverjir þetta eru og hvaða fólk það er sem þarna er á ferðinni en ótrúlega fáir þora að segja það upphátt.
Þegar þú kæri lesandi vinnur í tölvunni þinni í einhverju verkefni og þú færð vírus í tölvuna sem lamar stýrikerfið hjá þér og þú kemst ekki í nein skjöl, ekki á netið eða yfir höfuð nokkurn skapaðan hlut, hvað gerir þú í því?
Það dugar ekki að endurræsa hana því vírusinn hverfur ekki við það. Hann heldur áfram að skemma fyrir þér það sem þú ert að gera.
Jú, ef þú getur ekki lagfært hana sjálfur þá ferðu með hana í viðgerð þar sem sérhæft fólk tekur að sér að laga hana fyrir þig og eyða vírusinum úr henni. Aðeins þannig getur þú haldið áfram að vinna þína vinnu eins og ætlast er til.
Sama gildir um stjórnkerfið okkar, Alþingi og ríkisstjórnina okkar. Ef þar eru einstaklingar sem vinna í raun stöðugt á móti þjóðinni en segjast vera að vinna fyrir hana og með henni, þrátt fyrir augljósar sannanir um annað, þá erum við með vírus í stjórnkerfinu sem stendur allri framþróun og heiðarleika fyrir þrifum og þannig hægir það á allri vinnu kerfisins og stoppar það jafnvel alveg ef svo ber undir þegar slökkt er á öllum eftirlitskerfum, (vírusvörnum) og kerfið hamast bara við að þjóna vírusinum, (hagsmunaaðilunum) og tekur þannig alla orku frá þeirri vinnu sem það á í raun að sinna auk þess að afvegleiða notandann inn á heimasíður sem eru uppfullar af klámi, trojuhestum og fleiri vírusum þangað til kerfið einfaldlega frýs og kemst ekki af stað aftur.
Þannig er stjórnkerfi okkar íslendinga í dag. Það er stútfullt af vírusum, (hagsmuaaðilum) sem tefja og skemma fyrir með því að afvegleiða almenning og ljúga að honum til að fá hann inn á sitt band, (heimasíðurnar fyrrnefndu) til að geta haldið áfram að skemma og eyðileggja og ná öllum auðlindum landamanna, (skjölum, gögnum, kretitkortanúmerum og lykilorðum) fyrir sjálfa sig og sína hagsmunaaðila.
Hver þekkir ekki að fá fésbókarvírusa sem dreifa sér til allra vina á lista viðkomandi?
Veistu af hverju þú fékkst þennan vírus sem dreifði sér svona?
Ég skal útskýra það fyrir þér ef þú villt.
Þú nefnileg lést forvitnina hlaupa með þig í gönur og varst of auðtrúa til að smella á hlekkinn sem þér var sendur án þess að kanna hlutina til fullnustu. Þess vegna ertu sýkt/ur.
Nákvæmlega það sama gidlir í stjórnmálum hér á landi og reyndar um allan heim, maður á ekki bara að trúa öllu sem við mann er sagt eða manni sýnt, maður á að kynna sér hlutina frá fleiri sjónarhornum og kafa aðeins ofan í þau gögn sem eru til staðar áður en maður kaupir köttinn í sekknum.
Annars fær maður vírus í tölvuna eða hagsmunaaðila á þing.
Hafið það í huga.