Það er kaldhæðnislegt til þess að hugsa hvað karmað heggur fast í bakhlutann á Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins ef maður horfir fjögur ár aftur í tíman fyrir þingsetninguna í oktober 2011 því þann 30. sept það ár sendi Bjarni út herkvaðningu til félaga sinna í sjálfstæðiflokknum og hvatti þá til að koma og mótmæla aðgerðum þáverandi ríkisstjórnar í efnahagsmálum.
Taldi Bjarni upp nokkra hluti sem hann taldi að stjórnvöld þyrftu að gera til að fólk missti ekki trú á framtíðina og eitt af því var að fólk yrði að geta náð endum saman og lifað við mannsæmandi lífskjör.
Kæri samherji.Á morgun 1. október verður Alþingi Íslendinga sett. Það skapar nýtt tækifæri til að leiða Ísland inn á réttar brautir.
Stefnu- og árangursleysi ríkisstjórnarinnar hefur reynst þjóðinni dýrkeypt.
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur frá upphafi kjörtímabilsins hafnað stefnu ríkisstjórnarinnar og er skýr valkostur. Við höfum staðið fyrir tillögum til að bæta hag heimilanna og fyrirtækjanna í landinu. Okkar leið hefur verið sú að skapa störf og segja atvinnuleysinu stríð á hendur. Við viljum lækka skatta, auka fjárfestingar, framkvæmdir og verðmætasköpun. Hér þarf að auka hagvöxt og bæta lífskjörin.
Við vitum að tækifærin, lausnirnar og leiðir til uppbyggingar eru til staðar. Þess vegna mun þingflokkur sjálfstæðismanna leggja fram enn metnaðarfyllri efnahagsáætlun við upphaf þingsins sem nú gengur í garð og leggja sitt af mörkum til þess að rjúfa þá stöðnun sem hér hefur ríkt alltof lengi.
Verði það ekki gert er hætt við að fólk missi trú á framtíðina, fyllist vantrú á að geta náð endum saman og búið við mannsæmandi lífskjör.
Boðað hefur verið til mótmæla við þingsetninguna á laugardaginn. Lögreglumenn hafa gefist upp á aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar og óljóst er hvernig löggæslu við þingsetninguna verður háttað. Ég hvet fólk til samstöðu með lögreglunni með því að sýna störfum þeirra virðingu. Það er sjálfsagt að halda stefnumálum sínum á lofti við þingsetninguna, en ég bið alla þá sem það ætla að gera að ganga friðsamlega til verks.
Krafa Sjálfstæðisflokksins er skýr. Það þarf nýja stjórnarstefnu, ryðja þarf nýjar brautir og boða á tafarlaust til kosninga.
Nú hefur þessi áðurnefndi Bjarni Benediktsson setið sem fjármálaráðherra í tvö ár ásamt flokki sínum og haft með velferðarmál að gera ásamt samstarfsflokki sínum. Í ljósi þeirrar staðreyndar og þess sem hann og flokkur hans hefur gert á sinni valdatíð, þá er ekki annað en hægt að kalla manninn hræsnara og lygara af verstu sort því frá því núverandi stjórn tók við völdum í landinu hafa kjör þeirra sem lægst hafa launin ekkert gert annað en versna og kaupmáttur þeirra sem á þeim launum eru hefur versnað svo um munað á þessum tveim árum.
Fjórum sinnum á þessum tveim árum hafa verið sett lög á verkfall vinnandi stétta og nú er svo komið að heilbrigðiskerfið er nánast rústir einar vegna aðgerða stjórnvalda og enginn þykist bera ábyrgð á því ástandi sem skapast hefur í kjölfarið.
En þetta er svo sannarlega ekki það eina sem hægt er að segja slæmt um aðgerðir núverandi stjórnvalda því allt sem þeir gera er að stela frá þeim fátkækustu í landinu til að gefa þeim ríkustu.
Þetta auðmannadekur er verulega viðbjóðslegt.