Á sýningu kynbótahrossa á Selfossi nú í vikunni gerðist sá einstaki atburður að í dómhúsi gleymdist að slökkva á hljóðnema milli kynninga hrossa í braut og upptalningu einkunna, svo að gestir og gangandi máttu heyra hvað fór dómurum á milli þegar hestar komu í braut.
Þarna gafst hestamönnum gott tækifæri til að sjá hvernig hross eru dæmd. Hér er um gríðarlegt hagsmunamál að ræða fyrir alla hestamenn.
Að minnsta kosti einn dómaranna á Selfossi taldi það ekki eftir sér að úttala sig um þekkta kynbótahesta, knapa og ræktendur og að því er virðist reyna að hafa áhrif á skoðanir meðdómara sína. Gildishlaðnir sleggjudómar að því er best verður séð en skoðun viðkomandi dómara.
Aðrir dómarar í dómhúsi virtust una því vel eða gerðu a.m.k. ekki athugasemdir við slíkt vinnulag eða umtal. Samþykkt hegðun sem sagt.
Enginn „fréttamiðill“ hestaíþrótta og hestamennsku hefur fjallað um málið.
Umræddur dómari var, eftir því sem ég best veit, enn að störfum í dag – sem aftur vekur upp spurningar um hvað dómurum almennt finnst eðlilegt og við hæfi – og hvernig gæðaeftirliti þeirra háttað.
Segir í aðsendri grein á Eiðfaxa sem Sigurður Örn Ágústsson skrifar.
Það hefur löngum verið skoðunn margra sem stunda hestamennsku, ræktun og þjálfun þá sérstaklega, að margir dómar í gæðingakeppnum og á kynbótasýningum, séu vægast sagt furðulegir og á köflum mjög hlutdrægir. Ýmsir hafa haldið því fram að dómarar á slíkum keppnum dæmi hlutlægt og dæmi ekki af fagmennsku heldur láti ráða hver sé ræktandi og hver þjálfi hestinn, sitji hann í keppnum ásamt fleiri þáttum.
Slík dómgæsla er alger gjaldfelling á dómara sem dæma hestaíþróttir.
Á spjallsvæði Hestafrétta má síðan lesa um hvaða dómara er að ræða og hvernig umtalið er og er ljóst að fólki er gjörsamlega ofboðið hvernig hann hagar sér.
Steinar segir:
Hneykslið er að Magnús Lárusson var að drulla yfir Þórodd og hneykslast á Páli í Austurkoti fyrir að sýna Snæsól aftur á meðan hann var með hana í dómi! Hneykslið er líka að þessir svokölluðu hestamiðlar fjalla ekkert um þetta því þetta sýnir svart á hvítu að maðurinn er ekki hlutlaus í skúrnum og að hann stendur einig í umfangsmiklu stóðhestahaldi sjálfur.
Steingrímur Viktorsson segir:
Ég heyrði í útsendingunni að Magnús sagði Þórodd engan kynbótahest meðan hann var að dæma eitt af hans afkvæmum. Auðvita er þetta óeðlileg framkoma og gerir manninn marklítinn í mínum hug.
Einnig er hægt að lesa hérna annan þráð á hestafréttaspjallinu þar sem fjallað er um málið.
Og enn harðnar umræðan um þessi mál eins og fylgjast má með hérna.
Ljóst er líka að umræddum dómara er greiði gerður með því að ræða þessi mál opinberlega, því dómar kynbótadómara skipta mjög miklu fyrir mjög stóra atvinnugrein. Það er fráleitt að þetta mál verði þagað í hel. Það má ekki. Þetta er mikið hagsmunamál. Það á auðvitað að vera tryggt að hlutleysi sé gætt.
Það er alveg ljóst að reglunum þarf að breyta í þessari íþrótt.
Dómarar eiga að meta hrossin án þess að vita hvað þau heita og undan hverjum þau eru áður en það kemur í brautina og óvilhallir einstaklingar eiga að hafa eftirlit með því að þeir fái engar upplýsingar fyrr en þeir hafa dæmt. Þá fyrst fá þeir blað með öllum upplýsingum um viðkoamndi hest. Þannig væri í það minnsta hægt að draga úr þeirri spillingu og því ofboðslega óorði sem komið er á dómarana sem dæma þessar keppnir.
Greinina á Eiðfaxa er hægt að lesa í heild sinni með því að smella hérna.