Hin nýja „siðbót“ í stjórnmálaumræðunni? Er þetta það sem koma skal?

Píratakóðinn. Smellið á myndina til að sjá hana í fullri stærð.

Píratakóðinn.
Smellið á myndina til að sjá hana í fullri stærð.

Það er svolítið skemmtilegt að gerast í stjórnmálunum á íslandi um þessar mundir en líka margt sem við þurfum að skoða vandlega í ljósi þess að upplýsingatæknin nú til dags hefur fært almenningi vopn í hendurnar sem sumir stjórnmálamenn gátu ekki séð fyrir og hafa enn ekki áttað sig á hvernig virkar.  Meira að segja margir stjórnmálamenn sem hafa alist upp við þessa tækni gera sér ekki grein fyrir að hægt er á augnabliki að fletta upp öllu sem þeir hafa sagt og skrifað opinberlega, bera það saman við staðreyndir sem einnig eru aðgengilegar á netinu og sjá þar svart á hvítu hvernig þeir, (veit að það er ljótt að segja þetta en það er því miður engin önnur leið), hreinlega ljúga blákalt framan í almenning í landinu til að réttlæta gerðir sínar.

Nú er svo komið að fólkið í landinu er búið að fá nóg af þessum óheiðarleika, lygum og svikum atvinnupólitíkusa og það er kallað eftir siðabót í stjórnmálunum.  Fólk vill fá heiðarleg stjórnmál með heiðarlegu fólki inn á alþingi íslendinga sem vinnur fyrir almenning í landinu en er ekki handbendi útgerðana, auðmanna eða annara sérhagsmunahópa sem ljóst og leynt reyna hvað þeir geta til að arðræna þjóðina svo þeir sjálfir geti haft milljónir á mánuði í laun meðan alþýðan sveltur.

En siðabótin þarf líka að vera til staðar hjá þeim sem vilja bæta og bylta þjóðfélaginu til hagsbóta fyrir almennin og við munum eiga eftir að sjá að það eru ekki allir sem vilja siðbót í baráttunni um atkvæðin þegar þar að kemur og þeir munu nota öll áróðursbrögðin í bókinni og bæta nokkrum nýjum við ef svo ber undir en þegar upp verður staðið og þeir afhjúpaðir fyrir lygarnar þá mun það bitna verst á þeim sjálfum.

Ný framboð eru að spretta upp.  Framboð sem ætla sér stóra hluti að eigin sögn, en ef einstaklingar innan þeirra framboða ætla að nota grófari og verri aðferðir en hingað til hafa þekkst til að klekkja á keppinautum sínum þá verður að svara þeim og sýna fram á ósannindin, áróðurinn og oftar en ekki hreinar og klárar lygar sem slíkt fólk notar í þeim eina tilgangi að upphefja sjálft sig á kostnað annara.
Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar á reynir því almenningur er búinn að fá alveg yfir sig nóg af lygurum og skrumurum sem þannig vinna.

Það er búið að setja í gang áróðursmaskínu á samfélagsmiðlum til höfðus Pírötum og þar eru því miður einstaklingar tengdir nýjum framboðum sem virðast hafa þann eina tilgang að breiða út áróður og lygar sem á sér enga stoð í raunveruleikanum og þeir sem standa á bak við skrifin hafa sumir hverjir sjálfir sagt að siðbótar sé þörf í stjórnmálunum.  Hvað segir þetta um þá einstaklinga?

Ég ælta í lokin að taka tvö innlegg sem hafa verið skrifuð um Pírata og birta hér að neðan sem sýna hvað fólk getur verið illa upplýst og hvað það er tilbúið að ganga langt til að sverta aðra með upplognum og fölsuðum skrifum sínum og svara þeim með staðreyndum og rökum því þeir sem hafa skrifað þetta hafa ekki einu sinni haft fyrir því að skoða vef Pírata, grunnstefnu þeirra og markmið.

Sjóræningjarnir vilja banna allt sem er íslenskt og eða kristið. Þeir vilja banna þjóðfánann vegna þess að það er kross í honum; þeir vilja banna þjóðsönginn vegna þess að það er minnst á Guð; þeir vilja afnema helgi helgidaga svo að við vinnuþrælarnir vinnum meira eða án hátíðarálag; þeir vilja opna íslensku landamærin og hleypa hverjum sem er inn; þeir vilja hrekja forsetann úr valdastóli til að geta eyðilagt stjórnarskránna; þeir vilja banna fræðslu um kristinhald í grunnskólum og börn fari í kirkjur um jólin…..þarf ég að tína til fleiri dæmi um afreksskrá þessara snillinga? Hvar eru hinu frábæru tillögur þeirra um hvernig eigi að stjórna landinu? Jú, það þarf að kunna skil á fjárlög og öðrum leiðinlegum hlutum, ekki bara gæluverkefni. Fólk heldur að sjóræningjalýðurinn muni bjarga lýðræðinu og stjórnarskránni en því er öfugt farið. Þeir munu ef þeir fá að ráða eyðileggja íslenska þjóðríkið. Það er næsta auðvelt með því að breyta grunnlögum landsins sem er stjórnarskráin. Ég flokka Sjóræningjana með kommúnista 3ja áratugarins á Íslandi en sá flokkur vildi kollvarpa þjóðfélagsskipulaginu á Íslandi með öllu. Þetta eru stjórnleysingjar og við þurfum bara að líta á sögu þeirra á fyrri hluta 20. aldar til að átta okkur hvert þeir vilja stefna.

Lofsöngur – Þjóðsöngur Íslands

Þegar ég las þetta fyrst þá sprakk ég úr hlátri og hugsaði bara, hversu veruleikafyrrt getur fólk eiginlega verið að setja svona fram án þess að hafa kynnt sér málið áður?  Svo þegar fólk fór að taka undir þetta og segja hvað Píratar væru í raun ógeðslegir, bilaðir, geðveikir og allt sem nöfnum tjáir að nefna í því sambandi, þá áttaði ég mig á því að fólk trúði því að þetta væri það sem Píratar stæðu fyrir.

Hér á þessum tengli er svo ágætt svar frá Villa Ásgeirs út af þessu innleggi hér að ofan.

Það er nákvæmlega svona fólk, fólk sem kynnir sér ekki hlutina og fer fram með hreinræktaðar lygar sem mun aldrei geta komið á siðabót í íslensku samfélagi heldur gerir hlutina bara verri en þeir eru.

Í stefnu Pírata segir alveg kristalskýrt og greinilega þar sem allir geta lesið það:

  • Píratar vilja að ný stjórnarskrá verði samþykkt þar sem tillögur Stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar. Það þýðir að samþykkja skuli frumvarp til stjórnskipunarlaga sem er í samræmi við frumvarp Stjórnlagaráðs í öllum efnisatriðum.
  • Píratar vilja að þú getir tekið þátt í ákvarðanatöku í málum sem þig varðar. Píratar vilja ekki að þú þurfir að framselja atkvæði þitt til fjögurra ára í einu. Í þessum tilgangi hafa Píratar búið til kosningakerfi sem miðar að því að tryggja lýðræðisleg vinnubrögð en jafnframt nýta tæknina upp að því marki sem mögulegt er. Haltu atkvæðinu þínu og taktu þátt í alvöru lýðræðissamfélagi. Nánar…
  • Píratar leggja áherslu á að í stjórnarskrá verði fest ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum í náttúru Íslands. Ríkið skal bjóða aflaheimildir upp á opnum markaði fyrir hönd þjóðarinnar. Handfæraveiðar séu þó frjálsar fyrir þá einstaklinga sem kjósa að stunda þær. Allur afli skal fara á markað. Nánar…
  • Píratar vilja lögfesta lágmarksframfærsluviðmið. Allir eiga rétt á mannsæmandi tekjum í auðugu landi. Einfalda þarf framfærslukerfið og bjóða þarf bótaþegum, hvort sem það eru öryrkjar, fatlaðir eða atvinnulausir upp á fjölbreytta atvinnu, frístunda og menntunarmöguleika. Bæta skal aðstæður á almennum leigumarkaði með það að markmiði að húsnæði sem nú standa auð og án búsetu séu í boði á almennum markaði.Nánar…

Þetta er aðeins brot af stefnumálum Pírata sem þarna koma fram.  Margt er í vinnslu en skoðum nánar grunnstefnuna og píratakóðan á meðfylgjandi tenglum.

Síðara innleggið er lítið skárra og hreint ótrúlegt hvað fólk getur verið ofboðslega illa að sér en er tilbúið að ljúga miskunnarlaust til að meðalið helgi tilganginn án þess að hlusta á nein rök eða kynna sér hlutina áður.

Veit ekki hvort má setja hér inn, þá bara að henda því…..

Píratar og tjáningarfrelsi

Píratar þykjast vera boðberar tjáningarfrelsis og fresis til að taka upplýstar ákvarðanir. Í stefnuskrá þeirra segir orðrétt, „Píratar vilja að þú getir tekið þátt í ákvarðanatöku í málum sem þig varðar. Haltu atkvæðinu þínu og taktu þátt í alvöru lýðræðissamfélagi.“
Nú berast þær fréttir að Píratar hafi hlaupið upp til handa og fóta yfir því að núverandi forseti ætli að bjóða sig fram aftur og hafa því hafið rógsherferð gegn honum og safna undirskriftum gegn því að hann fái að taka þátt í frjálsum forsetakosningum eins og hver annar sem uppfyllir þau skilyrði. Þarna er ljóslega verið að ráðast á einn frambjóðanda umfram aðra og reynt að hafa áhrif á kjósendur.
Altalað er að Píratar láti skipulega fylgjast með samfélagsmiðlum svo sem Facebook og útsendarar þeirra lesi allt sem um Pírata er skrifað og láti síðan refsa viðkomandi fyrir ummælin, ef þau eru ekki jákvæð, með því að færslunum sé eytt eða viðkomandi bannaður á miðlinum.
Hvar er nú tjáningarfrelsið og aðgangur upplýsinga sem þeir þusa um opinberlega? Hvaða viðkvæmni er þetta? Sama fólk hefur ekkert út á það að setja að forseti eða ríkisstjórn sé rökkuð niður daglega, bara ef þau fá frið. Þetta er orðinn fremur mikill sandkassaleikur þegar fullorðið fólk klagar yfir öllu sem það verður fyrir og lætur refsa fólki.
Þessi framkoma minnir óþægilega mikið á gömlu Sovétríkin og það er ekki svona fólk sem íslendingar þurfa í næstu ríkisstjórn. Eins og Geir sagði: „Guð blessi Ísland“ ef af því verður.

Hvar eru rökin og sannanirnar fyrir þessum ásökunum?
Ef fólk ætlar að fara út í svona árásir án þess að hafa nokkuð í höndunum til að sanna mál sitt, þá er það búið að gera sig algjörlega ómarktækt og það sem meira er, það stútar bara framboði þess flokks sem það ætlar að upphefja með svona hegðun því þetta er engin siðabót í stjórnmálunum, umræðunni eða baráttunni.  Þetta er siðrof og siðblinda sem stjórnar svona skrifum og þeir sem það stunda eru óheiðarlegir, fara með ósannindi og lygar sem þeir síðan fara með beinustu leið inn á alþingi og halda þar áfram að nota sömu aðferðir þegar þeir komast í stólana þar.

Er það siðbótin sem við erum að leita að og almenningur í landinu er að biðja um?

Þið sem eruð tilbúin að trúa þessu bulli sem hér að ofan er talið, farið á Píratar.is og farið í gegnum tenglana, skrifin og áherslurnar ef þið eruð í minnsta vafa um heiðarleika pírata því sannsögli og heiðarleiki eru það sem Píratar standa fyrir.  Ef þú hefur einhverjar spurningar eða efasemdir, þá sendir þú bara póst til þeirra til að fá greinarbetri svör.

Munið að karmað mun alltaf leita ykkur uppi, sama hvað.

Umsagnir

Umsagnir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa