Nú þegar skólarnir fara að byrja og nemendur og foreldrar æða út og suður um allar trissur að kaupa skólatöskur, bækur og ritföng fyrir komandi skólaár, er vert að rifja upp grein sem skrifuð var fyrir rétt um einu ári síðan af Sigurði Hólm Gunnarssyni þar sem hann fjallar um málefnið og veltir upp spurningum og lofsverðri gagnrýni á heimalærdóm.
Ég ætla að leyfa mér að vitna í nokkur atriði sem hann fjallar um og bæti einhverju við frá eigin brjósti enda ætti þetta að vera eitthvað sem foreldrum og öllu námsfólki ætti að vera kunnugt um.
Skólastjórnendur og kennarar mættu líka alveg rýna í þetta og gott væri að koma af stað umræðum um þessi mál enda ekki vanþörf á því.
Skólatöskur ungra barna geta orðið mjög þungarenda oft fullar af skólabókum og heimaverkefnum. Sum börn þurfa að rogast með mörg kíló á bakinu á hverjum degi .
Það getur engan veginn verið hollt eða gott fyrir börn sem eru að vaxa úr grasi að burðast með níðþungar skólatöskur fram og til baka milli heimilis og skóla á hverjum degi og kanski gæti þar verið skýringar að finna á stoðkerfisvanda sem fara að hrjá ungt fólk mjög snemma á lífsleiðinni þegar engar aðrar skýringar hafa fundist.
Eftir að átta til níu tíma vinnudegi (skóli + skólagæsla) lýkur fara börnin heim og þurfa þá að leysa heimaverkefni með oft þreyttum foreldrum sem hafa mismikla þolinmæði og getu til að aðstoða þau.
Ég held í þessu samhengi að enginn fullorðinn einstaklingur mundi treysta sér til að vinna mánuðum saman í sömu fimm til átta verkefnunum í 14 til 16 tíma á dag og jafnvel flestar helgar líka því oft er námsfólki sett extra mikið fyrir um helgar og mjög margir líta varla upp úr bókunum nema rétt til að næra sig og sofa.
Kennarar þurfa að taka tillit til þess að fólk þarf líka að geta sinnt sínum hugðarefnum og slakað á þegar það er frí frá skólanum.
Grunnskólanemar eru í sérstökum áhættuhópi hvað varðar námsleiða þegar þeir þurfa að liggja yfir heimaverkefnum alla daga vikunnar, helgarnar ekkert undanskildar og hafa varla tíma fyrir vinina og félagslífið sem er þeim algerlega nauðsynlegt þegar komið er fram á unglingsárin. Maður heyrir það frá 99% unglinga sem eru á síðustu árum grunnskólans hvað þeim leiðist námið, skólinn og þær gífurlegu kröfur sem gerðar eru til heimanáms þeirra.
Skólarnir þurfa að koma á móts við nemendur og kenna þeim á skólatíma það sem þeir eiga að læra og þar eiga þeir að fá sína hjálp. Heimanám er eitthvað sem er orðið úrellt fyrirbæri á 21. öldinni með allri þeirri tækni sem við lifum við í dag.
Árangur heimalærdóms hefur einfaldlega verið rannsakaður töluvert og niðurstaðan er sú að heimalærdómur skilar ekki neinum árangri sem skiptir máli. Meiri heimalærdómur skilar heldur ekki meiri árangri en minni eða enginn heimalærdómur. Sumar rannsóknir sýna reyndar að því meira sem börnin þurfa að læra heima því verr gengur þeim í skóla.
Þetta get ég alveg tekið undir enda hef ég séð þetta gerast oftar en ég hef tölu á og þetta gildir ekki bara um grunnskólanema heldur líka framhaldsskólanema.
Margir af þeim sem eru í verknámi ýmiskonar eiga sér áhugamál sem tengist náminu og það þarf tíma til að sinna því hvort sem það er hestamennska, (Hestabraut FSU sem dæmi), Vélvirkjun, trésmíði, járnsmíði og svo má endalaust telja í þessum dúr.
Þessir nemar eru þvingaðir til að sitja heima á kvöldin og um helgar til að skrifa ritgerðir og vinna úr fyrirlestrarefni sem er dælt í þau í skólanum svo þau fá engan tíma til hins raunverulega starfsnáms sem felst í áhuganum á því að sinna sínum verkefnum hvort heldur það er í hesthúsinu, bílskúrnum eða á verkstæðinu sem þau hafa aðgang að. Á endanum annað hvort gefast þau upp og flosna upp úr náminu til að geta sinnt áhugamálinu og starfinu í stað þess að liggja öll kvöld og allar helgar yfir „helvítis“ heimanáminu.
Ég mæli með að fólk lesi greinina frá því á síðasta ári og ræði þessa hluti í fullri alvöru því þetta væri svo sannarlega til bóta fyrir skólana, kennarana, nemendurna og síðast en ekki síst fyrir forledra þeirra barna sem eiga við námserfiðleika að stríða og þurfa þess vegna meiri hjálp við heimanámið en aðrir.