Ég fór að velta fyrir hvort það væri einhver tilgangur að halda úti heimasíðu og bloggi á netinu, borga fyrir það einhverja þúsundkalla á ári, eyða tíma í að setja upp kerfi og viðhalda því ásamt því að skrifa um þjóðfélagsmálin, hugsanir mínar og það sem hæst ber hverju sinni og hvort það sem ég og svo margir aðrir skrifum hafi eitthvað vægi í umræðunni eða hvort eitthvað sem við skrifum vekji fólk til umhugsunar eða áhuga þess.
Þjóðmálin, pólitíkin, fjölmiðlarnir og mannlífið hefur einhvern veginn ekki blásið mér anda í brjóst við skriftir undanfarin misseri þó svo öðru hvoru driti ég einhverjum orðum á bloggið og það er þá helst um eitthvað sem ég læt fara óendanlega í taugarnar á mér og til að láta ekki skapvonskuna bitna á mínum nánustu á ég til að skrifa í hálfgerðu tilfiningarússi það sem kemur upp í hugan hverju sinni.
En það er ekki nóg. Það dugar ekki þegar maður fær ekki viðbrögð við því sem maður skrifar hvort sem viðbrögðin eru jákvæð eða neikvæð. Manni verður sama hvað fólki finnst og þá lætur maður allt vaða og oft eru það ljótar svívirðingar sem maður lætur frá sér. Sé ég eftir því? Stundum í kommentakerfum vefmiðlana já en ég stend við allt sem ég skrifa og það verður ekki aftur tekið. Þannig er það bara.
En oft hef ég skrifað um gagnlega hluti og komið inn á ýmislegt þar sem ég veit að stjórnmálamenn eru hreinlega að ljúga að okkur almenningi og þá verð ég reiður. Sár og reiður því fólki sem var kosið af almenningi í þessu landi til að fara með stjórn landsins með þeim hætti að allur almenningur nyti góðs af því en ekki einhverjir sérvaldir elítuhópar sem allt þykjast eiga og mega. Þar liggur hinn raunverulegi þjófnaður og þeir þingmenn og ráðherrar sem hafa sölsað undir sig eigur almennings og sett hinn almenna borgara á vonarvöl eru landráðafólk. Segi og skrifa landráðafólk og svikarar við almenning í landinu.
Hver einn og einasti þingmaður og ráðherra sem hefur setið frá árinu 2000 og hefur samþykkt eitthvað af þeim lagasetningum sem komu landsmönnum í þá stöðu sem þeir eru í, í dag, flokkast í mínum huga sem svikarar við landið, þjóðina og fólkið.
Af hverju?
Af því þau gáfu þjófum og fjárglæframönnum ríkisbankana, ríkisfyrirtækin og gengu þannig frá hnútum að ekki væri hægt að lögsækja þá. Núverandi stjórn hefur síðan svikið þjóðs sína frá þeim degi sem hún tók við keflinu eftir síðustu kosningar. Ekkert nema svik á svik ofan. Ekki einn einasti af þeim landráðamönnum sem seldi þjóð sína og hneppti í þrældóm fátæktar hefur verið dæmdur fyrir verk sín. Ekki einn einasti af þeim sem ryksuguðu banka og fjármálakerfið innan frá hafa verið dregnir fyrir dóm eða sviftir þeim auði sem þeir rændu og hafi þeir verið dregnir til yfirheyrslu er hrokinn svo gengdarlaus, að þeir krefjast miljónabóta fyrir ónæðið. Þessir svívirðulegu þjófar sem drógu sér tugi ef ekki hundruði miljarða eru í feitum stöðum og reka sín fyrirtæki og ráðgjafaþjónustur eins og ekkert hafi ískorist og það sé þjóðin sem skuldi þeim en þeir ekki þjóðinni.
Það eru svona hlutir sem má ekki tala um. Þeir sem skrifa um útrásarræningjana, þá þjóðarsvikara og níðinga, eru dregnir fyrir dóm og kærðir fyrir meiðyrði í þeirra garð. Meiðyrði í garð ærulausra vesalinga, þjófa og landráðamanna. Maður spyr sig á hvaða leið er þjóðfélag sem er svona byggt upp?
Hér er bullandi fátækt, fólk lifir ekki af launum en samt gasprar ríkisstjórnin að allt sé á uppleið. Kaupmáttur að aukast og atvinnuleysi að minnka. Allt eru þetta upplognar tölur til að reyna að slá ryki í augu fólks. Almenningur veit betur enda þarf hann að lifa af á þeirri ölmusu sem kallast lágmarkslaun, lífeyrir eða atvinnuleysisbætur. Ekkert af þessu hrekkur til fyrir útgjöldum heimilis yfir mánuðinn. Ráðamenn vita þetta vel en það er enginn vilji til að laga þetta. Þrælar rífa ekki kjaft sé þeim hótað atvinnumissi og það vita atvinnurekendur og ráðamenn. Verkalýðsforustan er geld. Tannlaus vargur sem lepur bara þá drullu sem samtök atvinnurekenda réttir að henni. Þetta veit almenningur og þorir því ekki að rísa upp.
En til hvers að vera að skrifa um þetta? Þeir sem lesa er skítsama.
Kinka kollir og hugsa með sér; ,,Það er nokkuð til í þessu.“
Loka blogginu og gleyma. GLEYMA, GLEYMA GLEYMA! Það er eitthvað sem íslendingar eru góðir í. Gleyma.
Þeir eru búnir að gleyma hruninu.
Þeir eru búnir að gleyma hverjir ollu hruninu.
Þeir eru búnir að gleyma hvað olli hruninu.
Þeir eru búnir að gleyma hverjir eru sekir um lagasetningarnar sem ollu hruninu.
Þeir eru búnir að gleyma því sem hér er skrifað….