Í dag er bolludagur og fólk treður í sig rjómabollum, kjötbollum og fiskibollum og það jafnvel svo gengdarlaust að það verður sjálft að bollum. Feitabollum.
Íslendingar eru svolítið sér á parti þegar kemur að þessum dögum, sérstaklega bollu og sprengidegi að það hreinlega getur ekki beðið fram á daginn að troða sig út af bollum viku fyrir ætlaðan dag en póstar grimmt á samfélagsmiðla í fleiri daga fyrir bolludaginn myndum af sér þar sem það er með útkámað andlit af rjóma, súkkulaði og glassúr. Einnig hefur borið svolítið á því að fólk er farið að éta saltkjet og baunir frá sunnudegi fyrir sprengidag og lýsir síðan yfir ógeði af ofáti á sjálfan sprengidaginn.
Velti því stundum fyrir mér hvort þetta sama fólk sem er svona óþolinmótt og ber litla virðingu fyrir hefðum þessara daga rjúki til í kringum 20 desember og byrji að opna jólapakkana, éta jólamatinn daglega fram að aðfangadag og sitji þá gjafalaust með ógeð á kalkún, rjúpum, hreindýrasteikinni, hamborgarhryggnum og lambinu á aðfangadagskvöld?