Gleðilegt sumar

Óska ykkur gleðilegs sumars og takk fyrir veturinn.
Hrossagaukurinn lét heyra í sér í fyrsta skipti í mín eyru núna í morgunn og hljómaði vellið í honum í há suðri, en samkvæmt gamalli hjátrú er það fyrir góðu.

Hrossagaukurinn var spáfugl og það skipti máli úr hvaða átt hann heyrðist fyrst hneggja á vorin. Um það er þessi þula:

Í austri auðsgaukur
suðri sælsgaukur
vestri vesalsgaukur
norðri nágaukur.

Og fyrst maður er farinn út í þessa sálma er ekki úr vegi að rifja upp aðeins fleira tengt hjátrú í sumarkomu.

Ýmiss konar önnur hjátrú tengist sumarkomu. Þegar maður sá fyrsta sumartunglið átti hann að þegja og bíða þangað til einhver ávarpaði hann. Þau orð sem fyrst voru sögð við hann áttu að veita vísbendingu um komandi sumar. Þetta heitir að láta svara sér í sumartunglið.

Sumir töldu líka að þegar lóan syngur bí, bí spái hún rigningu en sólskini þegar hún syngur dirrindí. Höfuðdagur er 29. ágúst og heitir svo vegna þess að þá var þess minnst að Jóhannes skírari var hálshöggvinn. Þjóðtrúin sagði að veðrið breyttist um höfuðdag og héldist svipað í um þrjár vikur.

Menn reyndu líka að spá í veður vetrar. Hagamýs voru taldar veðurglöggar. Ef mýs græfu snemma holur, drægju að sér mikinn vetrarforða eða leituðu inn í hús og bæi, benti það til að veturinn yrði slæmur. Líka var talið að mýsnar fyndu á sér úr hvaða átt myndi helst blása um veturinn og sneru holuopum sínum undan vindi. Fuglar áttu líka að finna á sér komandi veður svo að menn fylgdust vel með atferli þeirra.

Góuveður skipti miklu máli. Sagt var: Grimmur skyldi góudagur fyrsti, annar og sá þriðji, þá mun góa góð vera. Einnig var talið að ef góa væri stormasöm og vont veður fyrstu góudaga þá yrði sumarið gott. Öskudagur var talinn eiga sér 18 bræður, næstu 18 dagar á eftir öskudegi yrðu svipaðir honum.

Vona að þessi lestur hafi reynst ykkur fróðlegur eða þá í það minnsta skemmtilegur.

Umsagnir

Umsagnir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa

Updated: 19. apríl 2012 — 08:50