Gleðilegt nýtt ár með þökkum fyrir það liðna

Iðubrú við sólarupprás.

Iðubrú við sólarupprás.

Klukkan er rétt að detta í átta á nýjársmorgni og árið er 2015.
Það er tæpur einn og hálfur tími síðan ég drattaðist fram, hellti mér upp á kaffi, tók lyfin, kveikti mér í vindli og fór fram í útidyr og horfði á nýfallinn snjóinn sem lá yfir öllu.  Hlustaði á þögnina sem var rofin af lágværri tónlist úr íbúðinni við hliðina þar sem greinilegt var að fólk var enn að skemmta sér inn í nýja árið.

Ég horfi fram á veginn með kvíðahnút í maganum fyrir árið sem er framundan.
Aldrei áður hef ég upplifað svona lamandi kvíða eins og ég finn fyrir núna.  Maður hefur oft séð það svart og maður hefur oft þurft að berjast við að halda sínum hlut í lífinu en þegar maður er vakinn upp með kjaftshöggi við þá staðreynd að líkamlega heilsan er raunverulega farin og maður getur ekki lengur unnið eða gert flest af því sem veitir manni hvað mesta ánægju í lífinu, hvar stendur maður þá?

Vissulega er alltaf hægt að taka sér eitthvað annað fyrir hendur og ég er alveg liðtækur á ýmsum sviðum, lífsreyndur eftir áratuga slark við ýmis störf en fyrir 15 árum fór ég að grúska í tölvum í kjölfar slyss þar sem ég eyðilagði endanlega á mér bakið og greindist með gigt upp úr því sem og vefjagigt og fleiri kvilla.
Fyrir rétt rúmu ári síðan tók þó steininn úr þegar ég fékk það sem læknar kalla blóðtapparegn í heilan.  Missti algerlega getuna til að tjá mig um tíma og finn enn í dag fyrir því að eitthvað skemmdist þarna uppi því stundum á ég erfitt með að finna orð og setja saman setningar hvot heldur ég er að skrifa eða tala.
Við þetta þarf maður bara að læra að lifa eins og allt annað sem örlögin ákveða að kasta í mann.

Það hefur eitt og annað gengið á þetta ár sem nú hefur runnið sitt skeið og ég ætla að láta nægja að stikkla á stóru í þeim efnum.

Í febrúar fékk ég arf eftir föður minn sem féll frá í júlí 2013 og var um talsverða upphæð að ræða.  Ég greiddi upp nokkrar skuldir sem legið höfðu þungt á okkur og fyrir sanngjarna upphæð keypti ég hesthús hér á Selfossi sem ég hóf síðan að gera upp og laga þar sem það var orðið frekar þreytt og illa farið á nokkrum stöðum.  Sú uppgerð á eftir taka nokkuð langan tíma enda er verið að breyta hluta af því til að það nýtist betur okkur og gestum okkar til ánægju og þæginda.

Áð við Steðja eða Staupastein í Hvalfirði.

Áð við Steðja eða Staupastein í Hvalfirði.

Í mars lét ég 25 ára draum rætast og fékk mér mótorhjól.  Það eru kaup sem ég sé ekki eftir enda hefur það orðið mér til mikillar ánægju og margar ferðirnar hafa verið farnar á því vítt og breitt um suður og vesturland síðastliðið sumar.
Nú hvílir það lúin hjól inni í bílskúr og bíður þess aðeins að sumarið komi á ný með enn fleir ferðalögum mér og mínum til yndis og ánægju.

Annars hafa ferðalög lítið verið á döfinni þetta ár þar sem efnin hafa ekki staðið sérstaklega til þeirra en frekar hefur verið reynt að nota fjármunina til að komast af og eiga fyrir nauðsynjum bæði fyrir okkur hjónaleysin og þá aðalega að ferfætlingunum okkar líði vel og að þeir hafi það alltaf sem best.

Hinsta hvílan.

Hinsta hvílan.

Skruppum þó norður á Akureyri dagspart til að hlú að drengnum mínum og setja niður legstein á leiðið hans í Akureyrarkrikjugarði.

Í lok Júlí fór ég vinna hjá Vélsmiðju Suðurlands hér á Selfossi en því miður entist það stutt þar sem heilsan gaf sig fljótlega og síðan í september hef ég þurft að vera á sterkum verkjalyfjum til að komast í gegnum daginn.
Hlakka samt til þess dags þegar ég get hætt á þeim þó það verði víst ekkert í bráð eftir því sem mér sýnist.

Restin af árinu hefur síðan gengið þennan vanagang öryrkjans, vakna á morgnanna, komast í gegnum daginn án þess að fríka út af kvíða og áhyggjum og horfa á þann litla aur sem maður fær um hver mánaðarmót hverfa eins og dögg fyrir sólu í eyðimörk í reikningana.
Leyfa sér aldrei nokkurn hlut eins og að fara í bíó eða út að skemmta sér á einhvern annan hátt því sá lúxus er aðeins fyrir efnafólk en ekki aumingja.

Ég kvíði árinu sem er framundan því það er alveg á hreinu að þeir sem stjórna þessu landi eiga ekki eftir að gera lífið auðveldara fyrir okkur sem erum á lægstu tekjunum og þurfum að velja á milli þess í hverjum mánuði hvort við eigum að borga reikningana, eiga fyrir lyfjum eða mat yfir mánuðinn.
Fæstir þeirra sem eru á bótum almannatrygginga geta leyft sér allt þetta því flestir eru orðnir „blankir“ fyrir miðjan mánuðinn.

Í dag hækkaði virðisaukaskattur á matvæli úr 7 prósentum í 11 prósent og fjármálaráðherra og hirðin hans hefur verið dugleg að lýsa því yfir að það sé heilmikil kjarabót fyrir heimilin, sérsaklega þau verst settu og þá sem lægstar hafa tekjurnar.
Ég er búinn að liggja yfir útreikningum hvað þetta varðar og þó svo vörugjöld séu afnumin, þá hefur það ekkert að segja fyrir þá sem lægstar hafa tekjurnar því þeir eru ekki að versla vörur sem bera vörugjöld í dag.
Allir útreikningar, hvernig sem ég hef sett þá upp í reiknilíkönum segja mér að hækkun virðisaukaskatts um 62%, úr 7% í 11% verður til þess að hækka verð á matvælum hvað svo sem fjármálaráðherra og hagfræðingar hans reyna að halda öðru fram.  Þeir einfaldlega ljúga því.
Flóknara er það ekki.

Árið 2015 verður ekki gott ár fyrir almenning í þessu landi fái núverandi stjórn að halda áfram á þeirri braut sem þeir hafa sett kúrsinn á enda er stöðugt verið að ganga á rétt almennings í landinu þar sem lögð eru á allskonar gjöld og skattar á þá verst settu meðan þeir sem best hafa það er umbunað hvað eftir annað af teboðsstjórninni sem nú er við völd.

Ég sé ekkert í kortunum annað en annað efnahgshrun fái stjórnarflokkarnir að halda áfram þeirri helferð sem þeir hafa stofnað til og því miður verður sú ferð ekki stöðvuð nema með því að almenningur taki sig saman og hrekji þessa stjórn frá völdum.
Að hér verði alvöru bylting með öllu sem tilheyrir.
Því miður.

Ég ætla að láta þessu lokið núna og óska vinum og vandamönnum gleðilegs árs með von um að réttlætið nái fram að ganga á árinu og þakka um leið fyrir liðnu árin.

Megi kærleikurinn verða okkur leiðarljós á árinu.

Updated: 27. janúar 2015 — 15:54