Gleðilegt sumar er sú setning sem mætir manni á samfélagsmiðlum þennan daginn ásamt því að sumir birta myndir af veðurblíðunni sem tekur á móti manni þennan morguninn, í það minnsta hér á suðurlandsundirlendinu. Hekla í austri frá mér séð er hins vegar sveipuð hnúkaþey og því óvíst að blíðan haldist í dag þó vissulega vonar maður að svo verði.
Á svona degi er tilefni fyrir hjólafólk að draga fákana fram eftir vetrarstöðu í bílskúrum og þeysa um götur og þjóðvegi landsins og hreinsa burt vetrarrykið af heilanum, njóta veðursins, náttúnar og þess besta í lífinu, þeysast um á kraftmiklum mótorfák sem fær blóðið til að renna hraðar um æðarnar og heilann til að losa um efni sem valda léttri gleðivímu í líkamanum.
En þessi lífsstíll hefur yfir sér dökka hlið líka og hana ber að skoða vel því götur og vegir koma illa undan vetri og hættur leynast við hvern snúning dekkjana yfir malbikið. Þar leynast nefnilega holur og skurðir sem eru hreinlega lífshættulegir bifhjólafólki sé fólk ekki með athyglina 200% á veginum og umferðinni. Einnig eru bílstjórar blikkdollana ekki búnir að átta sig á því að við erum komin út í umferðina og því ber okkur hjólafólkinu að passa sérstaklega vel upp á blikkdósirnar og treysta aldrei
á það að bílstjórar þeirra sjái okkur eða virði rétt okkar í umferðinni. Sumir meira að segja svo illa gefnir að vera að senda SMS eða rýna í snjallsíma sína á samfélagsmiðlunum um leið og þeir eru að keyra enda ekki fá slysin sem hægt er að rekja til slíkrar hegðunar.
Stöndum saman að því í sumar að gera umferðarmenninguna betri en síðasta sumar, leggjum símana frá okkur meðan við erum að keyra og höfum athyglina á umferðinni, ekki samfélagsmiðlunum.
Gleðilegt sumar og komum heil heim hvernig sem við ferðumst.