Jólakveðja verður stutt í ár enda margt og mikið búið að gerast á síðasta sólarhing. Atburður sem engin átti von á að mundi gerast og sem sló mína nánustu gjörsamlega út af laginu.
Allt leit út fyrir að jóin yrðu haldi á sjúkrahús þetta árið en betur fór en á horfðist og fékk gamla hræið að fara heim yfir jólin.
Það sem gerðist var ofur einfalt. Ég fékk blóðtappa í hausinn þegar ég var að græja mig í skötuveislu í gær, heila rigningardembu, eins og læknirinn orðaði það. Þetta voru einhverjir tugir örsmárra tappa sem stífluðu smáar æðar með þeim afleiðingum að fínhreifingarnar í höndunum fór í tómt rugl og ég gat allt í einu ekki gert hluti sem ég hafði gert þúsundsinnum áður. Ég kunni ekki að raka mig, var í vandræðum með að þurka mér og ýmislegt annað sem okkur finnst alla jafna sjálfsagt að gera án þess að hugsa um það enda orðið svo ómeðvitað að gera þessa hluti.
Það sem verra var og öllu óþægilegra, var að missa hreinlega málið. Ég þekkti orðin og setningarnar en ég gat ekki tjáð mig. Það kom bara óskiljanlegt bull.
Þetta var hrikaleg upplifinu og hreinn hryllingur. Að geta ekki tjáð sig, ekki sagt orðin þó maður vissi hvað maður ætlaði að segja, þá kom bara einhver bjöguð klessa út úr manni sem var hvorki orð eða setning, hvað sem maður reyndi.
Sem betur fer gekk þetta hægt og sígandi til baka þó enn eymi eftir af þessu en með góðri hvíld í nótt og á morgunn gæti ég trúað ég verði orðinn að mér eins og ég á að vera.
Það er ekki þar með sagt að allt sé í lagi því eitthvað hlýtur að hafa látið undan þó ég viti ekki dag hversu alvarlegt það geti verið enda á ég að fara í rannsóknir eftir hátíðirnar og þá fara línur vonandi að skýrast nánar.
Við skulum líka muna að engin er eilífur og enginn er ómissandi.
Við gerum bara það besta úr því lífi sem við fáum og við fáum aðeins eitt stykki per kjaft.
Hef ekki lengra að sinni en óska öllum hugheilar jólakveðjur og vona að andi friðar í sinni og huga verði með okkur öllum.