Nú þegar líður að áramótum með tilheyrandi sprengingum og hávaða þar sem tugum ef ekki hundruðum milljóna verður skotið í loft upp af sprengióðum íslendingum er vert að hafa aðeins í huga hvar þú kaupir þá flugelda sem þú ætlar að fíra upp um áramótin.
Það er nú einu sinni þannig að björgunarsveitir landsins fjármagna starfsemi sína með sölu flugelda og þegar íþróttafélög og einkaaðilar eru komnir í beina samkeppni við þær, þá ætti fólk aðeins að staldra við og hugsa sinn gang áður en það kaupir flugeldana af öðrum en björgunarsveitunum því ég stórefast um að íþróttafélagið þitt komi þér til bjargar þegar og ef þakið er að fjúka af húsinu þínu eða þú festir þig uppi á heiði í snjó og ófærð en hins vegar eru björgunarsveitirnar komnar á vettvang við þær aðstæður, jafnvel í svo kolbrjáluðu veðri að aðrir mundu ekki stinga nefi út úr húsi og allra síst íþróttafélagið eða einkaaðilarnir.
Þannig að staðreyndin er einfaldlega sú að þurfir þú einhvern tíma á hjálp að halda við aðstæður sem þú ræður ekki við vegna veðurs eða ófærðar, þá eru það björgunarsveitirnar sem koma þér til aðstoðar þegar upp er staðið.
Kaupum því flugeldana af björgunarsveitunum í stað þess að horfa í aurinn og versla við aðila sem aldrei mundu koma þér til aðstoðar í neyð.