Frítt heilbrigðiskerfi kostar ekki svo mikið að það ætti að sliga ríkissjóð

Þróun heilbrigðiskostnaðar. MYND: Jack.

Þróun heilbrigðiskostnaðar.
MYND: Jack.

Það ætti að vera kappsmál hverrar ríkisstjórnar sem er við völd í landinu hverju sinni að vinna fyrir almenning í landinu og passa upp á samfélagið þannig að fólk vilji búa í því samfélagi.  Því miður hefur það ekki verið stefna neinnar ríkisstjórnar síðustu áratugi að vinna að þeim markmiðum og aldrei hefur ástandið verið eins slæmt og núna þegar menntafólk, já og fólk bara almennt sér enga framtíð í því að búa á íslandi.  Námsfólk flýr landið og aldraðir og öryrkjar sem fá til þess tækifæri flýja úr landi til þeirra landa þar sem það hefur efni á að lifa af á þeim lúsarbótum sem þeim eru skammtaðar af ríkinu og eins til að fá heilbrigðisþjónustu sem það fær ekki hér á landi nema borga fyrir það dýrum dómum.

Á Spáni og í Þýskalandi veit ég að fólk þarf ekki að greiða komugjöld til lækna og heilbrigðisþjónusta, er eftir því sem ég hef heyrt, algjörlega ókeypis.  Sama var í Danmörk þegar ég bjó þar og lyfjaverði í þessum löndum er stillt í hóf.

Í Svíþjóð greiðir fólk að hámarki 1.100 SEK á ári fyrir heilbrigðisþjónustu, eða um 17. þús íslenskar krónur og þar eins og annarsstaðar er lyfjaverði stillt í hóf.
Hvernig þetta er í Noregi þekki ég ekki en gott væri að fá umsagnir frá fólki sem þar býr hvernig málum er háttað í því ágæta landi.

Á málþingi sem ÖBÍ hélt í gær á Hilton hótelinu kom fram í útreikningum sem Gunnar Alexander Ólafsson, heilsuhagfræðingur hafði unnið fyrir ÖBÍ kom í ljós að hægt er að reka ókeypis heilsugæslu fyrir alla íslendinga með því að bæta smáaurum, (miðað við margt annað) inn í heilbrigðiskerfið, eða í kringum sex og hálfum milljarði í það heila.

Frumvarp um breytingar á greiðsluþátttökukerfi sjúklinga er til afgreiðslu á Alþinig. Meginbreytingin er að draga úr útgjöldum þeirra sem nota heilbrigðiskerfið mikið, en auka um leið kostnað þeirra sem notað það lítið. Öryrkjabandalagið fjallaði um málið  í dag og í sjöfréttum gagnrýndi formaður bandalagsins stjórnvöld fyrir samráðsleysi. Í dag var gefin út skýrsla Öryrkjabandalagsins með tillögum þess, en Gunnar Alexander Ólafsson heilsuhagfræðingur kom að gerð hennar. Hann segir að með nýja kerfinu greiði lífeyrisþegar hlutfallslega meira af ráðstöfunartekjum sínum en aðrir.

Bara einfaldur útreikningur á meðallaunum og lífeyrisbótum leiddi í ljós að almenningur væri að greiða rétt undir 3% af sínum ráðstöfunartekjum í heilbrigðiskostnað ef þetta kerfi gengur eftir, en lífeyrisþegar gætu staðið frammi fyrir því að borga allt að 4,2% af sínum ráðstöfunartekjum.

Einnig segir Gunnar að svo virðist sem ef við gerum þetta kerfi algjörlega gjaldfrjálst, það er að segja, þessa tegund heilbrigðisþjónustunar, þá muni það kosta um 6,5 milljarða króna.  Hann segir að það hafi komið sér gríðarlega á óvart því hann hafði talið að þessi upphæð væri mun mikið hærri.

Það sem kom þó mest á óvart á þessu málþingi var að þegar farið var að spyrjast fyrir um einstaka þætti þessa frumvarps, þá kom í ljós að það er bæði illa unnið og það vantar marga þætti þar inn sem snýr að kostnaði sjúklinga, sbr. ferðakostnaði einstaklinga og endurgreiðsluhlutfall vegna þess.  Fultrúi Velferðarráðuneytisins sem var á málþinginu gat engu svarað þegar hún var spurð út í það og hreinlega lokaðist eins og ostra um leið og hún var spurð út í það.

Í facebookhópnum, Krefjumst betri kjara, áfram við, öll sem eitt, sem ég ásamt Heiðu og Maríönu erum í forsvari fyrir, segir eftirfarandi:

Við ferðabæklingarnir (Marianna, Jack og Heidi) mættum á málþing í dag sem Öryrkjabandalagið stóð (eða sat) fyrir um nýja frumvarpið sem Heilbrigðisráðherra og Velferðarráðuneyti Íslands voru að leggja fyrir alþingi. Greiðsluþátttaka í Heilbrigðisþjónustu hefur snaraukist og mun Hækka Margfalt verði þetta frumvarp samþykkt á Alþingi.

Það verður að setja fram lagafrumvarp með aðal áherslur á að ALLAR greiðslur vegna heilbrigðisþjónustu (lyf, hjálpartæki og ferðakostnað meðtalin) og veiti rétt til afsláttar og hámarksþak verði sett á allan kostnað sjúklinga. Einnig nái þessar greiðslur yfir kostnað vegna tannlækninga, sálfræðiþjónustu, koma á bráðamótöku, sjúkra-, iðju og talþjálfunar! Í núverandi greiðsluþátttökukerfi eru mörg ólík kerfi í gangi á sama tíma sem flækir kerfið fyrir sjúklinga en ætti með réttu að vera að aðstoða sjúklinga. Lyfjakostnaður í dag er gríðarlegur og með þessu frumvarpi mun það hækka lámark þrefalt…! Sérfræðingur fyrir hönd Velferðarráðuneytissins á málþinginu í dag sagði sjálf að það væri ýmsir þættir sem ekki væri tekið tillit til í þessu frumvarpi og það lægju ekki fyrir tölur um ýmis athriði sem eru gríðarlega mikilvæg. Einnig kom skýrt fram á þessum fundi að þetta nýja frumvarp yrði til þess að 80-85% landsmanna lámark yrðu greiðendur og engin aukin fjárlög væru að koma inn í kerfið, heldur væri um að ræða milllifærslur úr einum vasa í fleiri á kostnað almennings. Sérfræðingur frá Velferðarráðuneyti fékk opnar spurningar og meðal annars var spurt Hvers vegna ófullnægjandi og ólokið frumvarp hefur verið lagt fyrir þing án neinnar samvinnu við Öbí, Sjálfsbjörg eða neina aðra aðila sem málin varða BEINT. En hún hafði engin svör við því eins og fleira sem hún sagði að væri ekki partur af hennar sérsviði. Fram kom einnig að þessi nefnd hefur starfað í 9 ár…

Það er því gjörsamlega óboðlegt að almenningur þurfi að horfa upp á einhverja tilraunastarfsemi þar sem á að leggja fram frumvarp til laga sem er varla hálfklárað og fjölmargir þættir ekki inni í því sem snýr að notendum kerfisins.  Almenningur og allra síst þeir sem eru stórnotendur heilbrigðiskerfisins, aldraðir og öryrkjar, eiga ekki að vera einhverjar tilraunarottur fyrir embættismenn í góðum stöðum til að „skoða“ hvernig kerfið virkar.  Það er ekkert annað en hrein og klár mannvonska svona ofan á það sem áður er sagt, að þetta kerfi er gífurlega illa unnið og varla hálfkarað, hvað þá heldur meira.

Setjum frekar sjö til tíu milljarða í heilbrigðiskerfið og gerum það ókeypis fyrir alla.

Updated: 27. apríl 2016 — 11:11