Stöðufærsla sem birtist í kvöld á facebook frá ungri konu sem hefur starfað sem prófarkalesari hjá fréttablaðinu, fær mann til að hugsa aðeins um heiðarleika þeirra stjórnenda sem nú sitja í ritstjórnarstólnum hjá 365 miðlum og þá sér í lagi Fréttablaðinu.
Iðunn Garðarsdóttir heitir snótin og hefur starfað hjá Fréttablaðinu í tæp tvö ár, þá nýútskrifaður íslenskufræðingur sem var ólmur að standa sig í starfi og vann lengst af hlutastarf með skóla en fullt starf á sumrum.
Í kjölfar ritstjóraskipta á dögunum var henni þó ekki sagt upp, heldur var henni tilkynnt að hlutastarfið stæði henni ekki lengur til boða og var henni því ýtt til hliðar þegar eldri karlmaður sem er með tengsl við ritstjórann vantaði vinnu.
Iðunn segir svo frá:
Í dag var síðasti dagurinn sem ég vinn á próförkinni á Fréttablaðinu. Ég byrjaði fyrir tæpum tveimur árum, nýútskrifaður íslenskufræðingur sem var ólmur að standa sig í starfi. Síðan þá hef ég unnið á blaðinu í hlutastarfi með skóla og í fullu starfi á sumrin. Á meðan ég vann hjá blaðinu voru þrjár mismunandi ritstjórnir starfandi. Lengst af vann ég þó með tveimur ritstjórum sem hafa nýlega látið af störfum hjá blaðinu. Allir yfirmenn mínir, og raunar yfirmenn langflestra deilda á blaðinu, voru karlkyns. Ég var nánast undantekningarlaust eina konan á kvöldvöktum og ef það var ekki svo voru konur í mjög miklum minnihluta.
Nýlega fékk ég að vita það að hlutastarf mitt á blaðinu stæði mér ekki lengur til boða. Mér var þó ekki sagt upp, heldur ýtt laumulega til hliðar þegar ráða þurfti mér eldri karlmann, sem hafði réttu tengslin við ritstjórana, á próförkina. Það þykir mér einstaklega kaldhæðnislegt í ljósi þess að nýlega var sú stefna mörkuð hjá 365 að auka hlut kvenna innan fyrirtækisins. Hvernig sú stefna samræmist því að ýta ungri og menntaðri konu sem stendur sig vel í starfi til hliðar, fyrir karlmann sem vantaði vinnu, get ég ekki skilið.
Ég vona svo innilega að eigendur og ritstjórar fjölmiðlanna í landinu gefi í framtíðinni fleiri konum tækifæri til að blómstra í starfi.
Takk kærlega fyrir samstarfið, allt það góða fólk sem ég kynntist á Fréttablaðinu.
Þessi vinnubrögð eru skammarleg fyrir 365 sem gefur út þá stefnu að auka hlut kvenna hjá fyrirtækinu.
Það verður gaman að sjá hvaða afsakannir þeir finna upp á til að réttlæta þetta.