Framboð mitt til alþingis

Útskýrt fyrir blaðamanni Grapevine staða fatlaðra á íslandi.Ég, Jack Hrafnkell Daníelsson, hef að vandlega athugðu máli og vegna fjölda áskorana frá vinum, fjölskyldu og fólki sem ég hef unnið með að ýmsum verkefnum undanfarna mánuði og ár, ákveðið að gefa kost á mér í framboð fyrir pírata fyrir næstu kosningar, hvort sem þær verða haustið 2016 eða vorið 2017 fyrir Pírata í Suðurkjördæmi.

 

Ágrip.

Jack Hrafnkell Daníelsson er fæddur 30. janúar 1965 á Fæðingarheimili Reykjavíkur af Bandrískri konu sem hafði orðið ólétt 18 ára gömul eftir giftann mann, mörgum árum eldri en hún en hann vildi ekkert með hana hafa og afneitaði henni ásamt ófæddum syni þeirra.
Þetta var á þeim tímum sem stúlkum var hreinlega útskúfað frá fjölskyldu og vinum í Biblíubeltinu í Bandaríkjunum ef upp komst um ósæmilea hegðun þeirra og móðir mín hefði verið stimpluð fyrir lífstíð hefði hún ekki notið aðstoðar bróður síns sem giftur var íslenskri konu og bjó á þeim tíma á Íslandi.
Hann aðsoðaði systur sína til að koma til Íslands þar sem hún lauk meðgögnunni og fæddi mig síðan en einnig var mágkona hennar innan handar við ættleiðingu mína þar sem frænka hennar og maður gátu ekki eignast börn sjálf.  Var gengið frá ættleiðingu strax við fæðingu mína og kjörforeldrar mínir tóku síðan við mér í byrjun mars 1965.
Blóðmóðir mín sneri skömmu síðar aftur til Bandaríkjana og hóf nýtt líf og hefur farnast vel síðan, eignaðist þar tvö börn sem hún getur verið stolt af, fallegt heimili og góðan mann sem því miður lést fyrir nokkrum árum.

Steinunn og Daníel frá Dröngum á Skógarströnd.

Steinunn og Daníel frá Dröngum á Skógarströnd.

Foreldrar mínir sem tóku mig að sér eru dæmigert alþýðufólk sem ólst upp við þau kjör sem einkenndu ísland frá því um 1930 til 1970 og fólst í því að börn byrjuðu að vinna við hlið hinna fullorðnu um leið og þau gátu og þurftu alla tíð að hafa fyrir hlutunum og reiða sig á sjálf sig í lífsbaráttunni.

Faðir minn, Daníel Jónsson var fæddur og uppalinn í Hvallátrum á Breiðafirði, fæddur 2. desember 1934 og lést 20 júlí 2013 eftir erfið og langvarandi veikindi en móðir mín, Steinunn Bjarnadóttir, fædd 25. febrúar 1935 að Drangsnesi í Strandasýslu er enn við góða heilsu og býr í Reykjavík.

Æska og uppvöxtur.

Fyrstu tvö árin ólst ég upp í Hvallátrum en þaðan lá leiðin í Kópavoginn þar sem foreldrar mínir bjuggu í rúmt ár áður en þau festu kaup á jörðinni Drangar á Skógarströnd sem liggur við sunnannverðan Hvammsfjörð, rétt innan við eyjaklassann sem lokar Hvammsfjörðinn af frá opnu hafi Breiðarfjarðar.  Þangað fluttu þau síðan á H-daginn 1968 og hófu þar búskap sem entist í 32 ár en þá seldu þau jörðina og fluttust búferlum til Reykjavíkur til að eyða þar ellidögunum.

Drangar er eitt af fallegri bæjarstæðum í landinu þar sem bærinn kúrir vestan undir klettabelti sem liggur frá suðri til norðurs og dregur bærinn nafn sitt af þeim.
Þarna var gott að alast upp, alltaf var nóg við að vera en einmannaleiki vetrarmánaðana situr þó enn í mér því ekki var mikill samgangur á milli bæja á þessum tíma og því gátu liðið dagar og jafnvel vikur án þess að maður hitti jafnaldra sína því ekki var verið að þvælast á milli bæja í erindisleysur.

Myndin hér að neðan sýnir Dranga eins og þeir voru um það leiti sem foreldrar mínir keyptu jörðina og settust þar að en síðan þá hefur margt breyst og nýjar byggingar risið en aðrar horfið.

Drangar á Skógarströnd

Ég man ekki mikið frá þessum árum og það er ekki fyrr en ég er kominn á unglingsár sem alvaran tekur við af fullum krafti hjá mér því ég hætti í skóla fjórtán ára og hellti mér út á vinnumarkaðinn milli þess sem ég fór heim og stundaði búskapinn með foreldrum mínum.

Ég hef unnið við margt, bæði til sjós og lands og þekki vel inn á kjör almennings í landinu.  Síðan 2001 hef ég verið á örorkubótum vegna slyss sem ég varð fyrir 1999 en það kláraði endanlega á mér bakið og við það fór stoðkerfi líkamans í rusl, ég greinist með 2 tegundir gigtar og sú þriðja er nú komin líka vel á veg.

Ástæðan fyrir framboði mínu.

Ástæður þess að ég hef ákveðið að bjóða mig fram eru aðalega þær að mér er gjösamlega ofboðið framkoma stjórnvalda við almenning í landinu, gengdarlausar lygar og svik þeirra sem stjórna hverju sinni gagnvart almenningi og síðast en ekki síst sú eiginhagsmunastefna stjórnarherrana og kúgun almennra þingmanna í stjórnarflokkunum til hlýðni við sig því að öðrum kosti…..!
Svona stjórnarfar er aldrei hægt að sætta sig við og þessu verður að breyta.
Þingið leysist á hverjum degi upp í rifrildi og þras um hluti sem koma stjórn landsins nánast ekkert við en eru skítkast og rógur þingmanna hver á annann.

Var í þrjú ár leigubílstjóri í Danmörku.

Var í þrjú ár leigubílstjóri í Danmörku.

Ég hef margt fram að færa.  Hef verið bóndi, sjómaður, verkamaður og margt fleira en er öryrki í dag vegna margra óhappa og slysa í gegnum tíðina.  Einnig má segja að ég hafi unnið mér til óbóta þar sem ég stundaði oftar en ekki tvær vinnur sem báðar kröfðust mikils af mér og vinnutíminn langur oft og tíðum sem gerir það að verkum að fólk sem þannig vinnur brennir sig út langt fyrir aldur fram og það er kanski ein helsta ástæðan fyrir örari fjölgun öryrkja hér á landi en víða annarsstaðar.

Ég vil sjá réttlátara þjóðfélag á íslandi framtíðarinar, þjóðfélag þar sem enginn þarf að lifa við skort og enginn þarf að neita sér um mentunn eða heilbrigðisþjónustu eins og núna er.
Ég vil að ríkisstjórnin reki velferðarkerfið, heilbrigðiskerfið og menntakerfið en það sé ekki einkarekið þó svo vissulega mætti einhver hluti þess vera það að vissu marki.
Ég vil nýja stjórnarskrá.
Ég vil alskilnað framkvæmdavalds og löggjafarvalds þannig að ráðherrar verði ráðnir eða þingmenn sem taka að sér ráðaneyti geti ekki setið sem þingmenn á sama tíma.
Ég vil setja lágmark á laun þannig að þau verði aldrei undir þeim viðmiðunarmörkum sem sett verða hverju sinni til framfærslu og að lágmarkslaun verði aldrei lægri en svo að fólk geti ekki framfleytt sér á þeim miðað við 38 stunda vinnuviku.
Bætur almannatrygginga verði hækkaðar strax upp í viðmiðunarmörk og skerðingar afnumdar enda er ótækt að ríkið steli lífeyrissparnaði almennings sem greitt hefur í lífeyrissjóði árum og áratugum saman eins og nú er gert.
Ég vil sjá breytingar í landbúnaðarmálum þar sem bændur þurfa ekki að vinna tvöfalda vinnu til að hafa í sig og á, heldur á búskapurinn að geta staðið undir sér án þess að almenningur þurfi að borga það okurverð sem nú er á landbúnaðarvörum þar sem meira en helmingur verðsins fer til milliliða frá bónda til neytanda.
Ég vil réttlátara fiskveiðistjórnunarkerfi þar sem þjóðin fær sinn réttláta skerf af auðlindinni en gráðugir útgerðarmenn sitji ekki nánast einir að þeim gífurlega hagnaði sem þessi auðlind er og hirði, eins og nú er, allt að 80% hagnaðarins og stingi í eigin vasa.

Þetta er aðeins brot af því sem ég vil að gert verði eftir næstu kosningar því ef fjórflokkurinn heldur völdum sínum í framtíðinni þá heldur ástandið bara áfram að versna og almenningur þjáist meira í framtíðinni.

Ef þið hafið spurningar, tillögur eða hugmyndir, endilega póstið þeim hér að neðan í umsagnir.
Einnig er hægt að senda mér póst á netfangið jack@jack-daniels.is

Sýnum skynsemi og kjósum Pírata í næstu kosningum því aðeins þannig verður hægt að koma á réttlátu þjóðfélagi fyrir alla landsmenn.

Updated: 20. apríl 2016 — 16:11