Það verður að segjast eins og er að ekki er öll vitleysan eins. Nú styttist í það að þjóðin þurfi að kjósa sér nýjan forseta og hafa miklar spekúleringar verið í gangi hvaða einstaklingar yrðu flottustu forsetaefnin í framtíðinni og er búið að draga fram nokkur nöfn í því sambandi. Það sem alltaf kemur manni jafn mikið á óvart og persónulega finnst mér það ákaflega heimskuleg hugmynd að draga fram hina og þessa stjórnmálamenn og máta þá við þetta embætti.
Staðreyndin er nefnilega sú að við þurfum ekki útbrunninn eða sitjandi stjórnmálamann í embætti forseta íslands. Við þurfum einstakling sem þekkir þjóðmálin, ástand þjóðmála og er í tengslum við almenning í landinu og veit hvað er að gerast hjá hinum vinnandi stéttum, þeim sem misst hafa heilsuna og hokra á hungurmörkum, eiga ekki fyrir mat eða lyfjum og borga 50 til 80% tekna sinna í húsaleigu.
Einstakling sem ber hag landsmanna fyrir brjósti en dekrar ekki við eignafólk, auðjöfra og siðblinda stjórnmálamenn.
Sem sé manneskju.
Sturla Jónsson sem vel er þekktur fyrir baráttu sína gegn bankakerfinu hefur lýst yfir áhuga á framboði til forseta og er það vel.
Sturla er alþýðumaður og þekkir vel kjör launafólks í landinu enda hefur hann um áratuga skeið starfað sem vörubílstjóri og þekkir vel hvernig laun þeirra sem þar hafa starfað síðustu áratugi hafa hríðversnað eins og hjá öllum landsmönnum.
Hann er með báða fætur á jörðinni og með sterkar og ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum, eitthvað sem kæmi sér vel í þessu embætti ef hefja á það til þeirrar virðingar meðal þjóðarinar sem það var fyrir tíð núverandi forseta sem hefur gert lítið annað en vera skrautfjöður í hatt útrásarvíkingina á sínum tíma en lítið beitt sér í því sem þó ætti að vera hans helsta verkefni, vera fulltrúi almennings gegn spillingu og vondum verkum stjórnmálamanna sem kunna ekki með vald sitt að fara.
Nóg um Sturlu og núverandi.
Ég vaknaði um hálf fimm leitið í nótt við furðulegan draum sem ég man bara slitrur úr en þær slitrur sitja í mér og þar sem mig dreymir mjög sjaldan nokkuð sem vert er að muna þá er best að festa það á rafrænt form.
Mér fannst ég vera að keyra á mótorhjólinu mínu sem leið lá eftir Reykjavíkurvegi í Fossvogsdalnum og er rétt kominn niður undir gamla Nesti þegar tvö lögguhjól þeysa fram úr mér með blikkandi ljósum og gefa mér stöðvunarmerki. Ég hlýði og stoppa en þeir koma til mín og spyrja á hvaða leið ég sé.
„Heim“, segi ég en furða mig samt á því að ég skuli segja þetta því Selfoss er svo sannarlega ekki í þessa áttina.
„Hvar býrð þú?“ Spyr annar þeirra.
Ég opna kjálkann á hjálminum svo þeir sjá framan í mig og ætla að svara þegar þeir stíga eitt skref aftur á bak og heilsa að hermannasið en stíga svo aftur fram, biðjast afsökunnar og bjóðast til að fylgja mér heim að Bessastöðum.
Þarna kemur gloppa í drauminn en allt í einu finnst mér eins og ég á tali við mann sem ég sný baki í og ég er að skamma hann eins og óþroskaðan og óþekkan krakka. Dembi yfir hann óbótaskömmum og les upp af blaðabunka sem ég held á ýmislegt sem hann hefur lofað að gera fyrir þjóðina í aðdraganda kosninga en svikið og þrætt fyrir eftir á eða snúið því og tvistað á alla vegu með orðskrúði og, já, hreinum lygum.
Orðalagið man ég ekki nákvæmlega en þegar ég sný mér við þá horfi ég á Sigmund Davíð, núverandi forsætisráðherra sem situr náfölur fyrir framan mig með heiftar og haturssvip brenndan í andlitið og síðustu orð mín við hann eru að hann skuli hundskast til að skila inn umboði sínu fyrir ríkisstjórnina áður en vikan sé liðin því annars muni ég sækja það með forsetavaldi.
Ég er aftur kominn út á hjólið og núna á Reykjanesbrautina á leðinni til Keflavíkur.
Ég finn fyrir ofboðslegri hræðslu enda er eins og ég sé að reyna að forða mér frá einhverju eða einhverjum.
Ég lít í speglana og sé á eftir mér tvo bíla á mikilli ferð sem ætla sér hreinlega að keyra mig niður en fyrir einhverja hundaheppni og snarræði sem er tilkomið eftir áralangan akstur þungra vélhjóla, næ ég að henda mér til hliðar og nauðhemla þannig að bílarnir fara sitt hvoru megin við mig en sjálfur fer ég út á vegöxlina og sný við og keyri á móti umferð þar til ég kemst á stað þar sem hægt er að skjóta sér yfir á réttan vegarhelming.
Þarna vakna ég allur snúinn og skakkur að drepast í verkjum en samt glottandi þegar ég fer að rifja þetta upp því mikið anskoti væri nú samt gaman að bjóða sig fram til forseta íslands og hrista aðeins upp í skrílnum í þessu landi með því að hóta þeim sem mest ljúga, svíkja og stela að þeir verði gerðir ábyrgir gerða sinna og orða kæmist ég í það embætti.
Og ég mundi standa við það.
Það kostar jú ekkert að láta sig dreyma.