Það ætlar að verða endaslepp hátíðin í Keflavík þessa helgina. Hver hljómsveitin og tónlistarmaðurinn af öðrum afboðar sig núna eftir að í ljós hefur komið að skipulagið á hátíðinni er í algerum ólestri. KK, Bubbi og núna síðast Hvanndalsbræður hafa tilkynnt að þeir muni ekki spila á hátíðinni eins og til stóð og Skálmöld gaf yfirlýsingu í dag frá sér þar sem þeir eru allt annað en sáttir við hvernig aðbúnaður við hljómleikahaldið í gærkvöldi var.
Óli Geir Jónsson og Pálmi Hannesson sendu frá sér yfirlýsingu í hádeginu þess efnis að þeir ætli að halda sínu striki og segja að Keflavik Music Festival ætlar að standa undir nafni, klára tónlistarhátíðina með stæl og bjóða uppá frábæra tónleika.
Skálmaldarmenn voru lítt hrifnir af aðstöðunni eða heldur aðstöðuleysinu og framkvæmd allri og má lesa yfirlýsingu þeirra í heild sinni hér að neðan.
Yfirlýsing frá hljómsveitinni Skálmöld.
Skálmöld spilaði á Keflavík Music Festival í gær og skemmst er frá að segja að þar stóð ekki steinn yfir steini. Strax við komuna til Keflavíkur upphófust vandræðin, ekki virtust vera til aðgöngupassar fyrir aðstoðarmenn Skálmaldar og enginn í forsvari, einungis ágætis stúlka sem sagðist ekki ná í yfirmenn sína í síma eða með öðrum leiðum. Seinna kom þó ljós að aðgöngupassar voru allsendis óþarfir.
Við komuna í tónleikatjaldið hófst ruglið fyrir alvöru. Pétur Ben, sá mikli öðlingur, stóð þá með hljómsveit á sviðinu og spilaði fyrir þá um það bil 20 sem í tjaldinu voru. Gott og blessað, fámennt gigg og eitthvað sem allar hljómsveitir lenda í. Það sem stakk mest í augun var þó ljósleysi á sviðinu. Ekki vantaði búnaðinn, hann hékk uppi, en slökkt var á öllu saman. Fljótlega var okkur tjáð að fyrirtækið sem sá um ljósin hefði ekki fengið greitt og neituðu því að kveikja. Sem er bæði gott og skiljanlegt mál.
Og nú komu málin á færibandi.
Þegar við komum þarna var engin gæsla á staðnum og fólk og fiðurfé ráfaði um fátæklegt baksviðið innan um tæki, hjóðfæri og tónlistarmenn. Það breyttist um mitt kvöld en öryggisverðirnir sem þá mættu vildu ekki gefa neitt upp um það hversu lengi þeir yrðu á staðnum vegna þess að ekki hefði verið staðið við samninga við þá. Það góða fólk hélt þó út kvöldið á enda og á skilið lof fyrir. Í tjaldinu stóðu svo tómir bjórkælar og borð og veitingasala því engin.
Og ruglið hélt áfram. Misjafnt er hvernig hljómsveitir semja um greiðslur fyrir spilamennsku eins og gerist og gengur, sumir setja skilyrði að fá greitt fyrirfram og aðrir ekki. Tvær sveitir sem áttu að spila á undan okkur höfðu gert samninga sem ekki var búið að efna. Meðlimir og aðstandendur þeirra reyndu að koma sér í samband við viðeigandi aðila sem ýmist svöruðu engum köllum eða lofuðu því að þeir væru rétt ókomnir á staðinn til skrafs og ráðagerða. Enginn kom og því spiluðu umræddar sveitir ekki. Skálmöld lýsir yfir stuðningi við þá ákvörðun, forsendubresturinn var þegar þarna var komið orðinn alger, aðstæður alls ekki fullnægjandi og viðmótið með skelfilegasta móti.
Nú hafði í raun ekki verið brotið á Skálmöld, enda þótt aðstæður væru óásættanlegar og nægar ástæður til að pakka saman. Við höfðum samið um greiðslu eftir tónleika og ráðnir til að spila frá 01.00–02.00. Eftir stuttan stöðufund tókum við því þá ákvörðun að spila þrátt fyrir fíaskóið enda erum við heiðarlegir menn og viljum efna það sem við höfum lofað. Það sem þyngst vó í þessari ákvörðun voru tónleikagestir, fólkið sem er búið að borga og vildi sjá okkur spila. Við töldum því í hálfmyrkvaða tónleika og gerðum það sem þungarokkssveitir gera best, tókumst á við mótlæti með spilagleði. Giggið var í raun frábært og vonandi héldu áður vonsviknir tónleikagestir aðeins sáttari út í nóttina.
En nú komum við að kjarna málsins: Þetta má ekki viðgangast! Slík og þvílík vanvirðing við listamenn, tæknifólk, annað starfsfólk og einkum og sér í lagi borgandi tónleikagesti er óþolandi. Þetta er í skásta falli dónaskapur og í verstu tilfellum glæpastarfsemi. Og svo voga þessir menn sér að koma fram í fjölmiðlum og reyna að slá ryki í augun á fólki með því að tala um hluti sem koma alvöru málsins ekkert við, ófyrirsjáanlegri seinkun í Reykjanesshöllinni og þar frameftir götunum. Þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um það eitt að vera heiðarlegur. Stattu við gerða samninga og ef það gengur erfiðlega skaltu koma hreint fram og ræða við þá sem þú ert að díla við. Að sjálfumglaðir og illa siðaðir smákóngar spígspori glottandi um með símann á sælent og spilandi sig sem hróka alls fagnaðar meðan fleiri þúsund manns sitja eftir með sárt ennið og óefnda samninga er ekkert annað en ógeðslegt. Þessa menn þarf að elta uppi og láta þá svara til saka. Þið eruð íslenskri tónlistar- og tónleikamenningu til skammar, og svertið ímynd þess sem við öll stöndum fyrir. En fyrst og fremst eruð þið dónar!
Aðstandendur Keflavík Music Festival, nú hysjið þið upp um ykkur. Hátíðin ykkar er ónýt, fjöldi listamanna hafa afboðað komu sína, tækni-, veitinga- og gæslumál eru í fullkomnum ólestri og þið eruð því með falsaða vöru í höndunum. Það eina í stöðunni er að endurgreiða hátíðargestum aðgangseyrinn að fullu, gera upp við alla þá listamenn, starfsmenn og aðra sem eigi inni hjá ykkur og klára svo helgina eins vel mögulega hægt er. Sýnið af ykkur snefil af stórmennsku, takið skellinn af ykkar eigin klúðri og þá mögulega fáið þið annan séns í okkar bókum.
Mögulega.
Fyrir hönd Skálmaldar,
Snæbjörn Ragnarsson
Frétt vegna þessarar tilkynningar var síðan birt á Vísir.is og þegar farið var að skoða umsagnir kom í ljós að Lay Low hafði sent inn umsögn við fréttina og þar sagði hún.
Lay Low
Til þeirra tónlistarmanna sem hafa ekki stigið á svið á Keflavík Festival og eru að spá í hvort þeir fái borgað eftirá – þá vil ég koma því á framfæri að Lay Low og hljómsveit með hljóðmanni kom fram í fyrra og hefur enn ekki fengið greitt.
Skipuleggjendur hafa marglofað greiðslu undanfarna mánuði en ekkert sem þeir hafa sagt hefur staðist. Ég var aðeins of bjartsýn í fyrra og spilaði í þeirri trú að við myndum fá borgað eftirá eins og um var talað… en nei það stóðst ekki, bara haldið áfram og ákveðið að gera enn stærra festival með enn fleiri böndum til að lofa greiðslum.
Að heyra svo hvernig þetta er að spilast út í ár er algjörlega glatað. Ég vil bara vara alla vini mína sem eru á line-upinu við og láta ykkur vita hvernig fór fyrir okkur svo að þið vitið hvað þið eruð að fara út í.
Og þetta er ekki búið því skömmu síðar skrifa Hvanndalsbræður.
Tilkynning: Keflavík Music FestivalHvanndalsbræður hafa hætt við að koma fram á Keflavík Music Festival í kvöld eins og til stóð. Ekki hefur náðst í skipuleggjendur hátíðarinnar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og því hefur ekki verið unnt að fá almennar upplýsingar um atburðinn. Við sjáum okkur því miður ekki fært að leggja upp í langferð með tilheyrandi kostnaði miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir.
Það er því alveg ljóst, eftir þessu að dæma, að forsvarsmenn hátíðarinnar eru ekki hátt skrifaðir hjá tónlitsarfólki í landinu.
Það er staðreynd að innan tónlistarbransans berast fréttir fljótt á milli og ef menn sem standa að hátíðum og uppákomum þar sem fengnar eru hljómsveitir til að spila og borga ekki fyrir það eins og um var samið þá er hætt við að sá aðili eigi erfitt með að fá aðrar hljómsveitir til að spila fyrir sig nema hann greiði fyrirfram einhvern hluta þess sem það kostar.
En svona fór um sjóferð þá hjá þeim Óla Geir og Pálma og verður fróðlegt að sjá hvernig þetta fer að lokum.