Gleðilegt nýtt ár til ykkar allra þarna úti og megi það verða betra en árið sem nú hefur runnið sitt skeið.
Þegar Ólafur Ragnar Grímsson forseti íslands tilkynnti í nýjársávarpi sínu að hann hygðist ekki gefa kost á sér til endurkjörs í embætti forseta íslands fóru strax í gang vangaveltur um hver gæti tekið við af honum sem forseti og sýnist sitt hverjum. Ég er líka einn af þeim sem hef skoðanir í þessu máli og þó Ólafur hafi staðið sig vel í einstaka málum sem lúta að þjóðmálunum þá hefur hann í heildina staðið sig herfilega illa í að gæta hagsmuna almennings í landinu og þá sérstaklega eftir að núverandi ríkisstjórn tók við völdum, ríkisstjórn sem er hans skilgetið afkvæmi og hann hefur leyft að ganga á rétt þeirra verst settu í þessu þjóðfélagi til að hygla ríkasta prósentinu.
Þegar kemur að umræðunni um forsetaembættið koma alltaf upp raddir sem segja að það eigi að leggja þetta embætti niður en því fylgja oft engin eða svo lélegt rök að það mætti halda að þeir sem þannig hugsa og skrifa hafi hreinlega ekki kynnt sér almennilega hvert raunverulegt hlutverk forsetans er samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins. Ef forsetaembættið yrði aflagt á þessari stundu þá væri hreinlega ekki hægt að kalla ísland lýðræðisríki lengur heldur ráðstjórnarríki því þá færðust öll völd forseta í hendur ríkisstjórnarinar þar sem hún hefði nánast frjálsar hendur til að setja þau lög sem henni hentaði og afnema í raun ýmis réttindi borgarana og hefja völd sín upp til skýana og gert sig ósnertanlega. Það held ég að yrði landinu síst til góðs þegar upp er staðið. Forsetinn hefur nefnilega mun meira vald heldur hefur verið gefið í skin og verður það útskýrt nánar hér síðar.
Við skulum byrja á því að skoða aðeins hvað gerist þegar foseti lands er valdalaus skrautfjöður eða hann er algjörlega hlutlaus og beitir ekki því valdi sem honum er gefið í stjórnarskránni, td. hér á landi. Þá erum við komin með það stjórnarfar sem nefnt er alræði og þar hefur ríkisvaldið afskipti af flestum eða öllum þáttum mannlífsins, bæði í opinberu lífi og einkalífi. Einræðisríki eru gjarnan alræðisríki en alræðisríki þurfa ekki öll að vera einræðisríki.
Síðan þurfum við að skoða lýðræðið og hvernig það virkar en á wikipedia er ágætis grein sem fjallar um lýðræði og á listanum hægra megin má skoða ýmsar tegundir stjórnarfars til að kynnast því hvernig það er uppsett og hvernig það virkar. Einn tengillinn er um beint lýðræði en þar er líka gagnrýni sem mér persónulega finnst að mörgu leiti skrifuð af vanþekkingu og fordómum á beinu lýðræði.
En nú skulum við snúa okkur að því sem skiptir meira máli og það er hlutverk forseta í lýðræðisríki og hvaða völd hann hefur í raun og veru því þau eru mjög vel skilgreind í stjórnarskránni en allir forsetar í lýðveldissögunni hafa verið ragir við að taka sér þau völd sem þeir í raun hafa og beita þeim. Mitt persónulega álit er að því þarf að breyta með því að landsmenn kjósi sér forseta sem þorir og hefur getu til að nota þau völd þegar ríkisstjórnir og ráðherrar hika ekki við að brjóta lög á alemenningi í landinu og það sem verra er, brjóta stjórnarskrárbundinn rétt á einstaka hópum samfélagsins, eins og því miður hefur gerst á nýliðnu ári.
Forsetinn þarf að hafa kjark til að farar eftir þeim greinum stjórnarskrárinar þar sem segir skýrt að hann geti veitt ráðherrum lausn frá embætti að eigin frumkvæði, en um það má lesa í 15. grein stjórnarskrárinar.
13. gr. Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.
15. gr. Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.
Þetta er ákvæði sem forseti lýðveldisríkis á að nota þegar ráðherrar verða uppvísir að því hvað eftir annað að ganga gegn lögum landsins og brjóta stjórnarskrá og einnig ef ráðherrar verða hvað eftir annað uppvísir að því að fara með ósannindi, hvort heldur í ræðum á alþingi eða í fjölmiðlum því við höfum séð það á undanförnum árum hvernig einstaka ráðherrar og þingmenn hika ekki við að fara með ósannindi og oft hreinar og klárar lygar þar sem sannleikurinn er tekinn og honum snúið algjörlega upp í andhverfu sína þannig að eftir standa hreinar og klárar lygar og ósannindi sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Gott dæmi um það er að finna hérna.
Síðan er það þetta ákvæði í stjórnarskránni.
24. gr. Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi, og skal þá stofnað til nýrra kosninga, [áður en 45 dagar eru liðnir frá því er gert var kunnugt um þingrofið],1) enda komi Alþingi saman eigi síðar en [tíu vikum]1) eftir, að það var rofið. [Alþingismenn skulu halda umboði sínu til kjördags.]
Ég óska eindregið eftir forseta sem þorir að beita þessu ákvæði sé þess þörf og þegar ríkisstjórnin öll ásamt þingmönnum hennar svíkur almenning í landinu og lýgur gengdarlaust að þjóðinni, þá þarf þjóðin forseta sem er óhræddur að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga í skjóli þess valds sem þessi stjórnarskrá veitir honum. Forsetinn þarf að vera grjótharður og ekki láta valta yfir sig af auðmönnum, útgerðargreifum, atvinnurekendum og þeim gjörsamlega siðblindu og óheiðarlegu einstaklingum sem þarna eru nefndir og hafa fengið að koma sínum gjöspilltu og þægu hundsrökkum fyrir í núverandi ríkisstjórnarflokkum.
28. gr. Þegar brýna nauðsyn ber til, getur forsetinn gefið út bráðabirgðalög [er Alþingi er ekki að störfum].1) Ekki mega þau þó ríða í bág við stjórnarskrána. Ætíð skulu þau lögð [fyrir Alþingi þegar er það er saman komið á ný].1)
[Samþykki Alþingi ekki bráðabirgðalög, eða ljúki ekki afgreiðslu þeirra innan sex vikna frá því að þingið kom saman, falla þau úr gildi.]1)
Bráðabirgðafjárlög má ekki gefa út, ef Alþingi hefur samþykkt fjárlög fyrir fjárhagstímabilið.
Eitt af því sem Ólafur Ragnar hefði geta gert milli hátíðana til að skilja eftir sig minnisvarða sem hefði aflað honum ómældrar virðingar almennings á íslandi hefði verið að nota sér 28. grein stjórnarskrárinar og gefið út bráðabirgðalög þannig að lífeyrisþegar í landinu hefðu fengið afturvirkar hækkanir á bætur almannatrygginga til fyrsta maí 2015 eins og lög gera ráð fyrir en ríkisstjórnin braut svo eftirminnilega í umræðum um fjáraukalög. Forseti með kjarkinn í lagi og tengingu við almenning í landinu hefði ekki hikað við að framkvæma það í stað þess sem Óli gerði, að skrifa þegjandi og hljóðalaust undir fjármálin á gamlársdag. Það var nefnilega aumingjaskapur sem lengi verður í minnum hafður.
Þar höfum við það og nú spyr ég, eigum við að sameinast um að efla forsetaembættið með því að reyna að finna einstakling í þetta starf sem hefur tengingu við alþýðuna í landinu, er ekki ofmenntaður eða tengdur fjölskylduböndum inn í stjórnmálaöflin í landinu og er nógu kjarkaður til að beita því valdi sem stjórnarskráin veitir honum eða eigum við að leggja þetta embætti niður, eins og svo margir heimta, og gera það að verkum að ísland verði í framtíðinni ráðstjórnarríki í anda gamla Sovét eða Kína þar sem mannréttindi er fótum troðin og ríkisstjórnin fer algjörlega sínu fram?
Okkar er valið og við þurfum enga puntudúkku á Bessastaði, við þurfum forseta sem hefur kjark og getu til að taka á málunum eins og stjórnarskráin kveður á um og hefur bæði kjark og þor til að standa upp í hárinu á gjörspilltum þingmönnum og ráðherrum og lætur ekki auðvaldið eða útgerðarmafíuna í landinu hræða sig til hlýðni. Við þurfum forseta sem skilur út á hvað það gengur að vera íslendingur og er sjálfur íslendingur með tengsl við atvinnulífið, með tengsl við almenning í landinu og sem hefur upplifað meira en getulaus grey sem aldrei hafa annað unnið við afgreiðslustörf með skólanum þangað til þeir fengu ágætis vinnu á góðum launum eftir sitt háskólanám.
Forseti þarf að hafa bein í nefinu og kjark til að framkvæma en ekki til að koma fram í sjónvarpi einu sinni á ári með innantómt raus um hvað árið hafi verið frábært og gott í alla staði, hann þarf að láta vita að hann hefur ákveðið vald og sé óhræddur að beita því, almenningi og þjóðinni allri til hagsbóta og heilla en ekki til að þóknast auðvaldinu einu.
Lesið þetta nokkrum sinnum áður en þið myndið ykkur skoðun um forsetaembættið og hvaða hætta er þjóðinni á höndum ef það verður aflagt.