Það er alveg stórfurðulegt að hlusta á meðlimi ríkisstjórnarflokkana og hörðustu stuðningsmenn þeirra halda því fram í fjölmiðlum, samfélagsmiðlum og á óteljandi bloggsíðum að hér á landi sé verið að bæta hag þeirra sem verst hafa það í þessu þjóðfélagi þegar raunveruleikinn er allur annar í umræðum meðal fólks.
Síðast í dag hitti ég fólk, tvo öryrkja og fertug hjón, mann sem er tæplega fertugur og par á þrítugsaldri sem öll eru að berjast í bökkum að láta enda ná saman yfir mánuðinn.
Öryrkjarnir sjá ekkert nema svartnætti framundan og vilja helst komast úr landi, helst í gær.
Hjónin sjá enga framtíð í að búa á íslandi lengur og þó fjölskyldufaðrinn sé í vel launaðri vinnu þá ná endar ekki saman hjá þeim í matarinnkaupum nema þau kaupi matvöru sem varla er hundum bjóðandi, hvað þá að bjóða börnum upp á þann viðbjóð sem íslenskt kjötfars og fimmta flokks hakk er, sem selt er á okurverði út úr þessum svokölluðu lágvöruverslunum hér á landi því fólk hefur ekki einu sinni efni á almennilegum mat.
Á fésbókinni eru hópar eins og Íslendingar í Noregi, Íslendingar í Danmörk, Íslendingar í Svíþjóð, Íslendingar í Ameríku og svo mætti lengi telja. Síðan eru hópar með nöfnum ýmissa bæja og borga í viðkomandi löndum þar sem íslendingar geta gerst meðlimir og sent inn fyrirspurnir og fengið allar þær upplýsingar sem þá lystir.
Fín leið til að finna þetta er að slá bara inn í leitargluggann Íslendingar í og velja svo neðst að sýna allar niðurstöður og velja svo hópa úr listanum til hægri.
Athylgi manns vekur þó sá fjöldi íslendinga sem eru að spyrjast fyrir um vinnu, laun og hvað kostar að búa í viðkomandi löndum því það hefur orðið alger sprenging í slíkum fyrirspurnum í þessum hópum. Sérstaklega í hópnum „Íslendingar í Noregi“.
Skal svo sem engan undra það því þegar maður fer að skoða kjör fólks hér á landi og bera saman við önnur lönd, td. Noreg þá kemur nefnilega margt í ljós sem fæstir íslendingar þekkja. Eins og til dæmis það, að í Noregi getur fólk lifað alveg þokkalega góðu lífi með því að vinna aðeins 8 tíma á dag fjóra daga vikunar og fimm tíma þann fimmta. Eytt síðan síðdeginu og kvöldin ásamt helgunum í faðmi sinnar fjölskyldu og haft nóg að bíta og brenna.
Hópurinn „Ísland – 20. fylki Noregs“ hefur verið undirlagður af upplýsingum um Noreg og hvernig fólki hefur vegnað þar sem þangað hefur flutt. Reynslusögur, fyrirspurnir og staðreyndir sem settar hafa verið fram í hópnum ásamt mjög góðum umræðum þar sem sýnt hefur verið fram á hvað það er sem íslendingar fara á mis við í eigin landi eru eins og kjaftshögg á þá sem halda að ísland sé best í heimi.
Það er nefnilega þannig í dag að allt hugsandi fólk sem hefur verið að fylgjast með því sem er í gangi, veit og skilur að stjórnarflokkarnir eru ekki að vinna að hagsmunum almennings í landinu. Stjórnarflokkarnir eru að drepa fólk með skattpíningum og álagningum ásamt því brjálæði að halda uppi láglaunastefnu sem gerir það að verkum að hinn almenni borgari nær aldrei að eignast nokkurn skapaðan hlut. Verðtryggingin og okurvextir ásamt fábjánalegum þjónustugjöldum banka og lánastofnanna eru líka að sliga heimilin í landinu.
Frá árinu 2008 til ársins 2014 hafa 23861 íslenskir einstaklingar á öllum aldri flust búferlum frá íslandi og haldi fram sem horfir í stjórn landins má búast við að sá fjöldi tvö ef ekki þrefaldist á næstu árum.
Brottfluttir umfram aðflutta eru 6929 sem er alveg nógu alvarlega tala. Það eru rúm 2% þjóðarinnar á 6 árum.
Það er sorglegt að eitt ríkasta land í heimi hvað auðlindir snertir skuli koma þannig fram við þegna sína að þeir sjái hag sínum betur borgið með því að flytjast búferlum til annarra landa þar sem litið er á þá sem fólk en ekki ódýrt vinnuafl og í sumum tilfellum hreina og klára þræla.
Viðhorf sumra vinnuveitenda, alþingis og auðmanna er því miður þannig. Almenningur er einfaldlega þrælar. Þeir hafa greinilega ekki skilning á hugtakinu“mannauður“.
Það verður því ekki langt þangað til að hér á landi verður að flytja inn ódýra þræla frá Kína og öðrum austantjaldslöndum því það eru takmörk fyrir sem hægt er að bjóða landsmönnum upp á og þegar öryrkjar og aldraðir sjá hag sínum betur borgið á hinum norðurlöndunum, þá held ég að það sé fokið í flest skjól.
Persónulega vil ég hvetja fólk til að skoða þann möguleika á að yfirgefa ísland svo það geti átt sér einhverja framtíð og boðið afkomendum sínum eitthvað annað líf en það að verða þrælar kvótagreifa, spilltra stjórnmála og auðmanna í landi bullandi klíkuskapar og botnlausrar spillingar í boði þeirra stjórnmálaflokka sem tröllríða alþingi og stjórn landsins.
Á íslandi er engin framtíð fyrir almúgann.