Jack H. Daniels

Svarthol Hugans

Fréttatíminn.

Það er dálítið athyglisvert að skoða sumar fullyrðingar sem framboðin setja fram í stefnumálum sínum í þessari kosningabaráttu því margar af þeim fullyrðingum sem settar hafa verið fram, standast ekki skoðun þegar farið er að rýna í þær.  Sem dæmi um það má nefna þá fullyrðingu, að hægt sé að leggja ,,hvalrekaskatt“ á hagnað bankana og að hægt sé að skattleggja hagnað kröfuhafa af verslun með kröfurr í hina föllnu banka.  Einnig fullyrðingar um að hagvöxtur heimilana hafi verið neikvæður frá árinu 2009, erlendar skuldir ríkissjóðs séu vandamál, bankar hafi ótakmarkaðar heimildir til að prenta peninga og svo síðast en ekki síst skattalækkunarstefna Sjálfstæðisflokksins.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir á Fréttatímanum tók saman þessa athyglisverðu grein um það sem framboðin hafa verið að setja fram sem fullyrðingar í kosningabaráttunni og niðurstaðan er nokkuð athyglisverð, svo ekki sé tekið dýpra í árinni.
Ég ætla að leyfa mér að taka greinina í heilu lagi og birta hérna að neðan.

Flokkarnir sem bjóða fram til Alþingis keppast um að ná athygli kjósenda. Margir nota til þess upphrópanir og fullyrðingar sem við nánari skoðun ýmist standast einfaldlega ekki, eru byggðar á rangfærslum eða jafnvel vanþekkingu á málefninu. Fréttatíminn tók saman nokkrar af þessum fullyrðingum og leitaði til ýmissa sérfræðinga til að leggja á þær mat. Samkvæmt því erum við ekki að borga íbúðina okkar tvisvar, ekki er hægt að leggja svokallaðan „hvalrekaskatt“ á hagnað bankanna, erlendar skuldir eru ekki vandamál og skattalækkanir borga sig ekki sjálfar.

Fullyrt: Unnt er að leggja „hvalrekaskatt“ á hagnað bankanna.
Hver: Dögun, Lýðræðisvaktin o.fl.

Staðreynd: Stjórnarskrá lýðveldisins bannar afturvirka skattlagningu. Þar með er útilokað að skattleggja frekar en orðið er þann hagnað sem þegar hefur myndast í bönkunum. En ýmsir viðbótarskattar voru lagðir á banka á kjörtímabilinu. Fyrir utan venjulegan tekjuskatt hlutafélaga (nú 20% af hagnaði) greiða bankar og fjármálafyrirtæki fjársýsluskatt (6,75% af launagreiðslum), sérstakan fjársýsluskatt (6% á hagnað umfram 1.000 milljónir á ári), og sérstakan skatt (um 0,13% af heildarskuldum á efnahagsreikningi). Fleiri skatta mætti vitaskuld leggja á, en þeir yrðu aðeins framvirkir, ekki afturvirkir.

Fullyrt: Unnt er að skattleggja hagnað kröfuhafa af verslun með kröfur í hina föllnu banka.
Hver: Framsóknarflokkurinn, Flokkur heimilanna o.fl.

Staðreynd: Ef kröfuhafinn er erlendur greiðir hann ekki skatta á Íslandi heldur í því landi þar sem hann skilar skattframtali. Ef kröfuhafinn er innlendur greiðir hann tekjuskatt af hagnaði af verslun með kröfur. Ekki er unnt að skattleggja slíkan hagnað afturvirkt umfram það sem orðið er, enda bannar stjórnarskráin afturvirka skattlagningu. Hins vegar er að öllum líkindum gerlegt að taka útgönguskatt af krónum sem erlendir kröfuhafar eignast en vilja skipta yfir í gjaldeyri og fara með úr landi. Slíkan skatt þarf þá að setja á með lögum áður en létt verður á höftunum og útgreiðslur heimilaðar.

Fullyrt: Hagvöxtur frá 2009 hefur verið neikvæður.
Hver: Flokkur heimilanna.

Staðreynd: Verg landsframleiðsla dróst saman frá 2009-2010 um 4,1%. Síðan hefur verið jákvæður hagvöxtur, um 2,9% 2010-2011 og 1,6% 2011-2012, samkvæmt nýjustu áætlun Hagstofunnar. Verg landsframleiðsla var lítillega meiri 2012 en 2009, á föstu verðlagi.

Fullyrt: Erlendar skuldir ríkissjóðs eru vandamál.
Hver: Framsóknarflokkurinn

Staðreynd: Skuldir ríkissjóðs eru vissulega miklar, og áhyggjuefni, en bróðurpartur þeirra er í krónum. Erlendu skuldirnar eru einkum vegna gjaldeyrisforða og ríkið á eignir í gjaldeyri á móti þeim. Skuldir ríkissjóðs eru að stærstum hluta til komnar vegna gjaldþrots Seðlabankans, vegna endurreisnar bankanna og vegna uppsafnaðs halla á ríkissjóði í kjölfar tekjusamdráttar í hruninu.

Fullyrt: Bankar hafa ótakmarkaðar heimildir til að búa til peninga.
Hver: Dögun

Staðreynd: Bankar starfa innan ramma reglna sem Seðlabanki og Fjármálaeftirlitið setja. Meðal annars er kveðið á um svokallaða bindiskyldu, þar sem bönkum ber að leggja tiltekið hlutfall innlána inn á reikning hjá Seðlabankanunm, lausafjárhlutföll og eiginfjárhlutföll. Þessar reglur takmarka hversu mikið bankar geta „gírað“ eigið fé sitt í útlánastarfsemi. Bankar hafa því ekki ótakmarkaðar heimildir til að lána út („búa til“) peninga.

Fullyrt: Í Evrópu borgarðu íbúðina rúmlega einu sinni, á Íslandi rúmlega tvisvar.
Hver: Samfylkingin

Staðreynd: Það hversu oft við borgum íbúðina okkar ræðst af raunvöxtum, þ.e. vöxtum umfram verðbólgu. Verðbólgan sjálf kemur á endanum ekki inn í jöfnuna enda er hún bæði fyrir ofan strik (í íbúðaverðinu) og neðan (í greiðslum af láninu). Ef miðað er við 40 ára íbúðalán með jafngreiðslum (eins og hér tíðkast) þá greiðum við 1,46 íbúðir ef raunvextir eru 2% en 2,24 íbúðir ef raunvextir eru 4,7% eins og nú bjóðast hjá Íbúðalánasjóði. Munurinn er nær því að vera 50% en 100% eins og gefið er í skyn.

Fullyrt: Lækka má skatta svo sem tekjuskatt, virðisaukaskatt, veita má skattaafslátt sem nota má til að greiða inn á húsnæðislán, og lækka má bensínverð og þar að auki að leggja af eða a.m.k. lækka veiðigjaldið verulega.
Hver: Sjálfstæðiaflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn heldur þessu fram en segir hins vegar lítið sem ekkert um hvernig á að skera niður á móti; ef eitthvað vill hann fremur auka útgjöld en minnka þau. Dæmið gengur því alls ekki upp, jafnvel þótt menn héldu að einhver hagvaxtaraukning fylgdi skattalækkunum, sem er umdeilanlegt.

Þegar maður fer svo að rýna betur í þetta út frá loforðum Framsóknarflokksins sem dæmi, þá er algerlega ljóst að hann getur aldrei staðið við þau kosningaloforð sem hann hefur sett fram þess efnis að sækja fé í vogunarsjóðina.  Þó svo það verði sett skattlagning á gróðan og gjaldeyrishöftum létt, þá bíða sjóðirnir rólegri eins lengi og þeim hentar með að fara með fjármunina úr landi.  Þess vegna 10 til 15 ár.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lofað gífurlegum niðurfærslum í skattamálum en aldrei komið með eitt stakt orð um hvernig hann ætlar að fara að því eða hvar hann ætlar að sækja peningana til að lækka skattana.  Eina leiðin til þeirra skattalækkana sem hann leggur til í sínum kosningaloforðum væri þá að skera alveg niður í heilbrigðis, menntamálum og löggæslu svo eitthvað sé nefnt, eða þá að leggja hreinlega niður velferðarkerfið og taka lífeyrinn af öldruðum og öryrkjum  svo aumingja hátekjufólkið, sem tapaði svo miklum tekjum eftir að vinstri stjórnin komst að, fái nú sitt til baka.

Það er svolítið sem stakk mig í þessari grein í Fréttatímanum, að hvergi er minnst einu orði á Píratana.  Kanski vegna þess að þeir hafa ekki verið að koma með upphrópanir í sínum málflutningi og ekki verið að gefa óraunhæf loforð sem aldrei hverður hægt að efna heldur aðeins grjótharðar staðreyndir um hvernig hægt væri að vinna úr vandamálunum sem þarf að leysa í samráði við þá flokka sem koma til með að sitja á þingi eftir kosningar og er það vel gert.

Kjósendur þurfa að fara að bera ábyrgð á því sem þeir kjósa yfir landsmenn.  Þeir þurfa að fara að hugsa svolítið sjálfstætt og horfa á hvernig hlutirnir eru í raun og veru í stað þess að láta fjórflokkinn teyma sig á asnaeyrunum sem lengjast og teygjast því fleiri sem lygarnar í loforðaflaumi hræsnarana og siðblindingjana verður meiri.

Ert þú með asnaeyru?

Umsagnir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa

Umsagnir

Svipað efni