,,Fjósveggurinn“ er nýjasta heitið á Facebook

Facebook.

Facebook.

Facebook samskiptasíðan er fyrir löngu orðin daglegur hlutur í lífi margra um allan heim og við íslendingar höfum verið duglegir að nota okkur hana í samskiptum við fjölskyldu og vini, kynnst nýju fólki og endurnýjað kynni við fólk sem við jafnvel höfum gleymt að við einhverntíma þekktum.

Facebook er einnig fjölmiðill að vissu marki og þar eru fréttir og fréttatengt efni sem fjölmiðlarnir dæla út í þeirri von til að ná til sem flestra lesenda en einnig skanna þeir síður einstaklinga sem hafa ,,lækað“ síður þeirra í von um að ná í eitthvað áhugavert sem hægt væri að birta á síðum blaða, bæði á prenti og á netinu.  Oft hafa fjölmiðlar náði í athyglisvert efni með þeim hætti og eiga eftir að gera.  Sú þróun ætti að vera af hinu góða því ýmis mál hafa ,,gleymst“ eða verið þögguð niður af því þau eru hættuleg háttsettum og mikilsvirtum einstaklingum í þjóðfélaginu.  Þöggun er eitthvað sem á aldrei að eiga sér stað í lýðræðisríki þegar fjölmiðlar eiga í hlut þó svo slíkt hafi verið reynt.

En svo er það eitt sem snýr að Facebook og það eru þýðingar á orðinu Facebook.  Enska orðið ,,face“ þýðir upp á íslensku ,,andlit“ og enska orðið ,,book“ þýðir bók.
Einhverjir reyndu að kalla Facebook ,,andlitsbók“ en það hvarf fljótlega enda óþjált og hreinlega bara ljótt.
Einhverjum datt í hug að kalla hana ,,fésbók“ og margir hafa haldið tryggð við þá nafngift.  Nöfn eins og smettiskinna, fésið, veggjakrass og fleira hefur skotið upp kollinum en besta þýðingin sem ég hef séð hingað til er ,,Fjósveggurinn“ en góð vinkona mín til margra ára póstaði þessu nafni á vegginn hjá sér fyrir stundu og það fékk mig til að skrifa þennan pistil.

En af hverju fjósveggur?
Jú þeir sem í fjós hafa komið vita sem er að það er ekki auðvelt að halda fjósveggjum hreinum og oft eru þar skítasletturnar upp um veggi og oft upp undir loft ef mikið hefur gengið á.  Sömu sögu er að segja með Facebook, þar eru einstaklingar sem hafa gaman af því að skíta út veggina hjá sjálfum sér og öðrum, (undirritaður langt í frá saklaus af slíku) og oft er ekki hreinsað til eftir sig.  En þannig er nú bara lífið og þó sumir reyni að bæta sig og hreinsa til eftir sig eða hreinlega sleppa því að kasta skít eru aðrir sem gera það ekki, stunda ekki sjálfsskoðun eða telja sig of mikla og hátt yfir aðra settir að þeir þurfi þess ekki.  Aðrir kunna einfaldlega ekki að biðjast afsökunnar og hjá einhverjum er orðið ,,fyrirgefðu“ ekki til í orðasafni þeirra.

En hvað um það. Facebook er gott og gilt heiti á Facebook og ég kem til með að nota það nema á slæmu dögunum þegar ég nota ,,fjósið“ eða fjósveggurinn.
Síðan er öðrum í sjálfsvald sett hvað þeir kalla ,,Fésið“

Updated: 23. febrúar 2013 — 11:37