Ferðasaga og flutningur til Svíþjóðar, lífið í Svíþjóð frá 13. júní til dagsins í dag

Lagt af stað til Svíþjóðar

Hér að neðan er samantekt á ferðalagi mínu frá því ég lagði af stað frá Selfossi þann 13. júní siðastliðin á mótorhjóli til að yfirgefa ísland og setjast að í Svíþjóð til langframa og fram til dagsins í dag.
Farið á hundavaði yfir ferðalagið og dregið saman það helsta sem á dagana hefur drifið síðan ég settist að hér í Svíþjóð ásamt unnustu minni.

Lagt í’ann.

Það er þriðjudagur 13. júní, bjart og fallegt veður, smá gola en vel hlýtt þegar farangurinn er spenntur á „Vírdó“, konan kysst að skilnaði og brunað af stað í höfuðborgina til að kveðja móður mína áður en lagt er í langferð til Svíþjóðar með viðkomu á nokkrum stöðum og heimsókn í Danmörk og Noregi á leiðinni.

Móðir mín tók á móti mér með hlaðborði matar fyrir langa ferð enda ætlunin að gista á Akureyri fyrstu nóttina og halda svo beinust leið á Seyðisfjörð og gista þar seinnustu nóttina á Íslandi.

Eftir að hafa kvatt móður mína hélt ég upp á Akranes þar sem ég stoppaði aðeins hjá syni mínum og tengdadóttur og fór þaðan klyfjaður af knúsi, kossum og góðum fyrirbænum eins við var að búast af þeim enda bæði með einstaklega gott hjartalag og vilja öllum vel sem þau kynnast.  Það mættu margir taka þau sér til fyrirmyndar og þar með talið undirritaður.   Maður getur nefnilega oft lært mikið af börnunum sínum ef vilji er fyrir hendi.

Einnig hitti ég góðan vin og félaga til margra ára, Tösku-Atla en hann gerði sér ferð til ungana minna til að kveðja mig áður en ég lagði í hann frá landinu.
Þaðan var síðan haldið í nes Borgar, tankað og haldið áleiðis inn í Norðurárdalin, veðrið enn gott en dálítil norðangjóla en sæmilega hlýtt.

Niður undir frostmark.

Stoppað við hjá Kibba í Baulu.

Upp í miðjum Norðurárdal var farið að blása ansi hressilega og þegar komið var norður fyrir afleggjarann á Bröttubrekku fór heldur betur að taka í undan vindinum og um leið að kólna smátt og smátt.  Þegar komið var upp undir Holtavörðuheiði var orðið svo hressilega hvasst, bæði á móti og oftar en ekki á hlið, að hámarkshraði var snarlega lækkaður úr löglegum niður í allt að 50 km á tíman þar sem rokið var svo mikið að í hliðarvindi var ég nánast farinn að skrapa fótpetulum í götuna og í mótvindi fannst manni að maður væri kominn á nærri 200 km hraða, slíkt var rokið á köflum.  Ekki bætti svo úr þegar maður nálgaðist háheiðina að kuldinn var farinn að bíta ansi hressilega í fingur og fætur þar sem vörnin er ekki þykk í leðrinu en mér var sagt að hitinn á heiðinni hefði farið niður í 3 gráður og svo má alveg bæta vindkælingu við þá tölu svo þetta hefur verið eins og að keyra í 10 stiga frosti.

Náði fyrir rest að tussast niður á veitinga og bensínsölu N1 í Hrútafirði, (Staðarskáli er löngu dauður og kemur aldrei aftur), enda vanvirðing við Staðarskála að kalla þetta óbermi því nafni.  N1 er þetta og N1 skal það heita alla tíð.
En alla vega, komst þangað hálf frosinn, stirður og geðvondur en hugsaði með mér að þetta gæti varla versnað úr þessu.  Kom mér fyrir undir vesturvegg í sól og skjóli með heitt kaffi, lagði jakka og hanska á borðið til að verma leðrið upp og sjálfann mig í leiðinni áður en haldið yrði áfram.
Það tólk nærri klukkutíma og fjóra rótsterka kaffibolla að koma hita í mig áður en haldið var áfram, en, oh boy, oh boy hvað ég hafði rangt fyrir mér með að þetta færi nú batnandi því hitinn fór mest í sex gráður á leiðinni á Blönduós þar sem ég stoppaði ekki til að tanka eins og vaninn var, heldur hélt áfram til vinafólks sem býr í Langadalnum og yljaði mér þar á kaffi og kjaftagangi í amk hálftíma.  Var þó hrollur í mér þegar lagt var af stað og Vatnsskarðið framundan. Tankað skyldi í Varmahlíð sem og varð en þangað kom ég á síðustu dropunum úr tankinum, kaldsveittur og skjálfandi af ótta við að verða bensínlaus áður en ég næði í Varmahlíð.

Nú var bara síðasti leggurinn eftir til Akureyrar og enn yfir heiði að fara, enn mót og hliðarvindur en þó ekki eins stífur og hafði verið fram að þessu, sem betur fer, hafið áhyggjur af vinstra fótstiginu á hjólinu enda búinn að skrapa það vel á leiðinni í hliðarvindinum.
Haldið var af stað og tíðindalítið ferðalag á Akureyri þó kalt væri en ég komst á Olís við Tryggvabraut frosinn inn að beini nánast.  Pantaði mér kaffi og eitthvað heitt að borða til að ná í mig yl.  Hringdi í vin minn sem býr á svæðinu og fékk gistingu hjá honum með það sama og þar sem hann býr í blokk og bíladagar að hefjast var ekkert annað í stöðunni en að brenna til foreldra hans og fá að geyma hjólið þar yfir nóttina sem var lítið mál.

Dagur tvö, Akureyri Seyðisfjörður.

Akureyri frá Vaðlaheiði.

Miðvikudagurinn 14. júní rann upp bjartur og fagur og var tekin sæmilega snemma eftir órólega nótt þar sem krampar og verkir í fótum áttu sinn þátt í því að hvíldin var ekki mikil en af stað skyldi haldið austur til Seyðifjarðar.  Taldi ég að þetta yrði ágætis ferðalag enda vindur gengin talsvert niður og átti ég von á að frekar yrði meðvindur en á móti þennan legginn.  Annað kom þó á daginn.

Voru nú vinir kvaddir eftir góðan morgunverð, Vírdó fékk sinn djús og síðan var brunað í kirkjugarð Akureyrar þar sem ég vitjaði um gröf sonar míns og kvaddi hann í síðasta sinn.  Hélt síðan áleiðis austur í blússandi blíðu og fékk gott færi á Mývatn þar sem var tankað, sporðrennt einni pylsu, kaffibolla og pissað.  Svo fóru hlutirnir að gerast.

Þegar komið var austur fyrir Jökulsá fór að blása og kólna.  Enn var það hliðarvindur og mótvindur og hitinn hrapaði á talsverðum tíma niður í fjórar gráður.  Það þýddi ekkert að gefast upp, þetta var svo gott sem síðasti dagurinn á þessu landi þar sem aldrei kemur almennilegt sumar og veðurfarið samanstendur af endalausu vori og hausti, vetur og sumar þekkist ekki nema af afspurn og frá útlöndum.

Kom á Egilsstaði frosin úr kulda og kom mér fyrir sólinni með heitt kaffi.  Hafði samband við gamla vinkonu sem býr á Seyðó og var boðin gisting með það sama svo það var ekkert annað að gera en pakka sér saman og drullast yfir heiðina og hélt að það yrði vandalítið en átti ekki von á að lenda í snjó og hálku um miðjan júní og hita við frostmark eins og raunin varð.  Það voru þrir útlendingar á undan mér á mótorhjólum og allir dóluðum við yfir hálku og snjókaflana á þrjátíu með fæturna niðri.  Ljóta djöfulls ruglið að það skuli ekki vera löngu búið að bora gat í gegnum fjandanns fjallið milli Seyðó og Egilsstaða enda heiðin eina leiðin í og úr einu ferjunni sem siglir á skrípaskerið.
En yfir komst ég heilu og höldnu, hitti vinkonu mína og höfðum við gaman af því að rifja upp gamla tíma þar sem fíflagangur, djamm og skemmtilegir tímar voru rifjaðir upp.  Ræddum líka hvað á daga okkar hafði drifið frá því leiðir skildu og þangað til við hittumst þennan dag.  Um kvöldið kom kærasti hennar yfir og spjölluðum við saman vel fram eftir og síðan var skriðið í dún og sofið enda ræs snemma til að ná í ferjuskömmina sem sigldi úr höfn um hádegi.

15. 16. og 17. júní, siglingin og koman til Danmerkur.

Beðið eftir að komast um borð í Norrænu.

Í mígandi rigningu voru vinir kvaddir og brennt í ferjulægið, tékkað inn og farið í biðröðina sem taldi hátt í fjörtíu hjól þegar allt var komið.  Biðin var löng eða tveir tímar í rigningarsudda og kaldri gjólu uns okkur var hleypt um borð.
Lífið um borð í ferjunni er í raun hundleiðinlegt því lítið er við að vera á siglingunni annað en að hanga á barnum og röfla við aðra farþega og atast í barþjónunum.

Að morgni 17. júní var lagt að við kajan í HIrtshals og byrjað að drífa farartæki, gámavagna og annað drasl frá borði og þar sem við vorum aftast á öðru dekki tók talsverðan tíma að komast frá borði en á móti okkur tók þvílíka veðrið, 25 stiga hiti, sól og nánast logn.  Heldur betur tilbreyting eftir kuldan og rokið á íslandi.

Var nú stefnan tekin á E-45 og brennt sem leið liggur til Álaborgar en síðan beygt af og haldið sem leið lá til Thisted þar sem ég átti víst skjól hjá Svönu minni og fjölskyldu hennar en þar gisti ég í fjórar nætur og notaði tíman til að hitta vinafólk og kunningja sem ég hafði kynnst meðan ég bjó á svæðinu.  Það var skondið og svolítið skrítið að koma þarna eftir sex ár og rata þarna um allt eins og ég hefði aldrei farið af svæðinu.  Þurfti aldrei að nota GPS leiðarvísun eða spyrjast til vegar.  Notaleg tilfining svo ekki sé meira sagt.
Kíkti á gamla vinnustaðinn minn í Hanstholm en fór ekki inn og talaði ekki við neinn þar enda engin ástæða til þess.  Viðskilnaðurinn við þá vinnuveitendur mína var þess eðlis að ég hef bara ekki nokkurn minnsta áhuga á að hitta það fólk.

21. til 25. júní, Noregur.

Gunni og Eyrún á torginu við höfnin í Son.

21. júní rann upp bjartur og fagur, hiti í kringum 22 gráður svo það var tilvalið hjólaveður.
Kvaddi Svönu og fjölskyldu, ræsti Vírdó og lagði í hann til Hirtshals til að ná ferjunni til Larvik í Noregi en það er þriggja, nærri fjögurra tíma sigling með hraðferjunni.  Góð og ljúf sigling og hitti þar hjólafólk sem ég sat og spjallaði við lungan úr ferðinni og urðum við svo þrír, Norðmaður, Sví og ég, samferða til Horten þar sem ferjan yfir til Moss lóðasaði okkur yfir Oslofjörðinn þar sem Gunni klútur tók á móti mér og fylgdi mér til síns heima.  Mikið sem það var notalegt að koma til þeirra hjónaleysa, Gunna og Eyrúnar, en þau búa í miðbæ Son, alveg við torgið á einhverjum fallegasta stað sem ég hef komið á um ævina.

Næstu dagar fóru í það að hjóla um svæðið, kíkja á staði og kynna sér aðeins umhverfið og njóta þess að vera túristi í ókunnu landi en þó ekki svo ókunnu.  Vírdó fékk smá yfirhalningu, nýja olíu og síu ásamt því að hann var yfirfarin til að koma í veg fyrir áföll og bilanir sem skilaði sér svo sannarlega í því sem á eftir kom en einnig fengu leðurbrækur þær sem eru til verndar neðri hluta líkama míns smá viðgerð þar sem saumar í vinstri buxnaskálminni gáfu sig nánast frá klofi og niður úr.  Upp voru því grafnar nálar, hörtvinni og sest við saumaskap.  Tók viðgerðin vel á fjórða tíman enda tímafrekt að sauma leður svo vel sé þó svo götin séu til staðar en fylgja verður þeim af nákvæmni ef vel á að vera og saumurinn að halda.

Tekin var einn dagur til að skreppa til Svínasunds til að kaupa ódýr matvæli, öl, gos og tóbak ásamt því að heimsækja vapebúðir og ná sér í nægan vökva þar sem það hefur reynst erfitt að komast yfir almennilega vökva hérna í Svíþjóð.  Enda kom að því að ég varð uppiskroppa með vökva og fór þá náttúrulega beint í tóbakið aftur.  Það var þó bara tímabundið og verður væntanlega ekki tekið upp aftur þar sem ég ætla að fara í það að búa til mina eigin vökva, þökk sé góðum vinum sem hafa bent mér á hvar ég get keypt allt sem þarf til að gera þá sjálfur.

En nóg um það, nú var komið að því að renna sér til Svíþjóðar og takast á við að leigja sér húsnæði og verða sér úti um það sem þarf til að starta nýju heimili í nýju landi og þá hófst ævintýrið fyrir alvöru.

26. júní til fimmta nóvember.

Svíþjóð.

Um hádegisbil þann 26. júní var rennt yfir landamæri Noregs og Svíþjóðar og eftir um tveggja tíma keyrslu var komið til Munkfors þar sem vinafólk mitt býr en þá eru þau á leið í heimsókn til vina sinna og fékk ég að fljóta með en Vírdó skilin eftir í bílskúr vina minna á meðan.  Eftir heimsóknina var farið í að hafa samband við manninn sem leigir mér núverandi heimili en ég hafði haft augastað á öðru húsi í Hagfors og brunaði því þangað aðeins til að komast að því að það hús var komið í útleigu og mér vísað á annað hús, húsið sem við búum í núna og það skoðað.  Mér leist hreinlega ekkert á það til að byrja með en það álit átti eftir að breytast þegar ég var búinn að vera þar í nokkra daga.

Þegar ég flutti inn hafði nýlega verið lokað fyrir rafmagnið vegna vanskila fyrri leigjanda og til að fá rafmagnið á þurfti ég að leggja fram 13. þúsund sænskar krónur til að fá það tengt aftur og tók nokkra daga að afla þeirrar upphæðar og svo nokkra daga í viðbót að fá það tengt svo ég bjó þarna rafmagnslaus í á þriðju viku.  Hafði samt góð tök á að hlaða símann og spjaldið svo maður væri nú ekki sambandslaus við umheimin.  Verra var þó að afturdekkið á hjólinu var komið inn í striga svo fyrir utan það að vera rafmagnslaus þá var maður mjög takmarkaður að komast um meðan beðið var eftir nýju afturdekki en það tók sjö daga frá því það var pantað og þangað til það var komið undir hjá mér.

Bílleysi hrjáði mig ekki fyrr en kom að því að sækja konuna til Stokkhólms en það var aulaskapur í mér að hafa ekki drifið í því fyrr en á síðustu stundu.
Keypti eftir auglýsingu VW Golf árg 2000 á 6.500,- sænskar, bíll sem átti að sögn eigenda og tilþekkjenda að vera í góðu lagi en fljótlega fóru að koma í ljós bilanir sem mundu kallast leyndir gallar.  Hjólalega að aftan var það fyrsta sem þurfti að skipta um, rör í stýrisdælu og síðast fór rafallinn í dollunni.

Konan við nýja bílinn og algjörlega í skýunum.

Þessi pistill er orðinn talsvert lengri en ætlað var en að lokum þetta.
Á þeim tíma sem við höfum búið hérna í Svíþjóð höfum við tekið eftir því að rafmagnið er ekkert eins dýrt og af er látið NEMA fólk sé að kynda með rafmagni.  Það er nánast búið að LED peruvæða allt húsið svo þar er talsverður sparnaður og rafmagnstæki eru almennt ekki í sambandi eða á rofamillistykkjum svo hægt sé að slökkva alveg á þeim þegar þau eru ekki í notkun.

Matur og nauðsynjar eru svo mikið ódýrari hér heldur en á Íslandi að maður er ekki enn búinn að fatta það almennilega og að fara út að borð er oftar en ekki ódýrara heldur en að elda heima þegar upp er staðið.

Bílar eru ótrúlega ódýrir hérna, tryggingar ekki háar og kostnaður við rekstur minni en búast má við miðað við það sem gengur og gerist á íslandi.

Læt þessum pistli lokið í bil en á örugglega eftir að skrifa meira þegar tími og nenna er til staðar.

Lifið heil, kveðja frá Svíþjóð.

 

[Best_Wordpress_Gallery id=“15″ gal_title=“Flutningur til Svíþjóðar“]

Umsagnir

Umsagnir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa

Updated: 12. nóvember 2017 — 12:21