Er Framsóknarflokkurinn að breytast í grínflokk?

Ómar útúrreykti.

Þrjár fréttir á tveim dögum af framsóknarmönnum í uppistandsham er eitthvað sem við íslendingar eigum ekki að venjast.  Venjulegar fréttir af Framsókn bera alla jafna með sér að þar fari lítt greindir einstaklingar sem eru algerlega á skjön við allt sem eðlilegt getur talist þegar um stjórnmálamenn er að ræða.Við skulum skoða þessar þrjár fréttir sem um er að ræða og þá þrjá einstaklinga sem þar koma við sögu.

Fyrstan ber að telja upp Ómar Stefánsson sem situr í bæjarráði Kópavogsbæjar fyrir Framsóknarflokkinn.  Hann kom með þá stórskemmtilegu tillögu á bæjarráðsfundi í gær, 7. febrúar, að banna alfarið allar reykingar innan bæjarlands Kópavogs.

Vill hann að bæjarráð samþykki að fela bæjarritara að skoða hvort hægt sé að setja í lögreglusamþykkt Kópavogsbæjar bann við reykingum utanhúss við stofnanir í Kópavogi, eins og til dæmis heilsugæslu, söfn og sundlaugar. Vill hann jafnframt að bæjarfulltrúinn athugi hvort möguleiki er á að banna alfarið reykingar í landi Kópavogs.

Bæjarráð frestaði afgreiðslu tillögunnar á fundi sínum og voru ástæður fyrir frestuninni ekki gefnar upp.  Óstaðfestar heimildir herma þó að flytja hefði þurft meirihluta bæjarráðsfulltrúa á sjúkrahús vegna súrefnisskorts vegna stöðugra hláturskrampa.  Ómari er víst ekki skemmt.

Vigga ambögudrottning og brandarakelling.

Í morgunn var síðan frétt á DV vefnum þar sem talað er við Vigdísi Hauksdóttur sem situr á alþingi fyrir Framsóknarflokkinn og var hún meðal annars spurð að því hvernig hún mæti sögu Framsóknarflokksins síðastliðin áratug og hvort flokkurinn þyrfti að gera betur upp við þetta tímabil í sögu sinni. Flokkurinn bar meðal annars ábyrgð á einkavæðingu Búnaðarbankans upp í hendurnar á Finni Ingólfssyni og Ólafi Ólafssyni, einkavæðingu VÍS upp í hendurnar á Halldóri Ásgrímssyni, einkavæðingu Íslenskra aðalverktaka upp í hendurnar á vildarvinum flokksins – einkavæðingu sem dæmd var ólögleg í Hæstarétti Íslands árið 2008 – auk þess sem nokkrir af þingmönnum flokksins stýrðu eignum Samvinnutrygginga inn í Fjárfestingarfélagið Gift. Vigdís vill hvorki svara því játandi né neitandi hvort hún telji að flokkurinn þurfi að gera betur upp þetta tímabil í sögu sinni.

Hún svaraði því til að hún væri ákaflega stolt af sögu flokksins sem spannaði 96 ár sem hann hefði verið starfandi en því miður hefði hún ekki kynnt sér sögu hans að neinu gagni og þekkti því ekki til þeirrar spillingar sem sögusagnir herma að flokkurinn sé valdur af.  Hún sé samt ákaflega stolt af flokknum.
Fregnir herma að blaðamaðurinn sem tók viðtalið við hana sé enn að jafna sig eftir hlátursköstin enda varð hann stöðugt að þagga niður í hljóðnema símans hjá sér meðan á viðtalinu stóð vegna hláturskasta.

Kögunarbarnið setur flokksþing og reitir af sér brandara

Síðast en ekki síst ber svo að nefna formann Framsóknarflokksins, Kögunarbarnið sjálft og formann flokksins, Sigmund Davíð Gunnlaugsson.  Hann setti flokksþing Framsóknarflokksins í morgunn með þeim orðum að hefðbundin stjórnmál eigi undir högg að sækja og að mikilvægt sé að bæta stjórnmálaflokka til að þeir ræki hluverk sitt betur.Í ræðunni hvatti Sigmundur fundargesti til að samþykkja raunhæfa stefnu fyrir næstu kosningar, ekki mætti lofa einhverju sem ekki væri hægt að standa við.

Það er því alveg morgunnljóst að kosningabaráttan verður spennandi í vor en þó meira skemmtileg því hvar sem framboðsfundir verða þá er nokkuð ljóst að Framsókn mun algerlega slá í gegn með svona frábæra grínista í fremstu röð.  Simmi og Vigga eiga því eftir að slá í gegn sem uppistandarar og verður því nokkuð örugglega gaman að fylgjast með þingræðum þeirra á næsta þingi, því ekki munu þau láta staðar numið þegar fyrsti árangur þeirra slær svona rækilega í gegn.

Það verður fylgst grant með á næsta kjörtímabli hvort þeirra, Simmi eða Vigga standa uppi sem sigurvegarar í því að reita af sér brandara, fara með ambögur, gera sig að aðhlátursefni og síðast en ekki síst að gera sig að algerum fíflum fyrir þingi og þjóð.

Umsagnir

Umsagnir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa

Updated: 8. febrúar 2013 — 13:51