Þegar þetta er skrifað hafa 15 einstaklingar boðað komu sína og 75 til viðbótar sýnt áhuga á að koma saman framan við heimili Bjarna Benediktssonar að kvöldi fyrsta maí undir yfirskriftinni „Grillum á kvöldin„. 398 hafa fengið boð, þar á meðal undirritaður.
Þar segir nánar um viðburðinn:
Grasrótarhópurinn Beinar aðgerðir boðar til mótmæla við heimili Bjarna Benediktssonar klukkan 19 að kvöldi 1. maí. Yfirskrift mótmælanna er Grillum á kvöldin – sækjum þau heim.
Hópurinn hvetur alla landsmenn til að mæta í grillið með einnota grill, mat, tjaldstóla, trommur og góða skapið. Einnig er gott að æfa raddböndin aðeins og slagorð til þess að syngja. Í kjölfarið verða heimili ráðherra ríkisstjórnarinnar þrædd, eitt heimili á kvöldi. Látum þá ekki sitja eina að grilli og gróða á kostnað okkar hinna!
Ef gleðskapurinn hentar ekki Bjarna Benediktssyni og hans félögum í ríkisstjórn þá er lítið mál að kippa því í liðinn. Það eina sem hann þarf að gera er að samþykkja kröfur hópsins fyrir 1. maí:
Ríkisstjórn Íslands segi af sér og mynduð verði utanþingsstjórn. Sett verði dagsetning á kosningar, ekki seinna en 10. september.
Ef ríkisstjórn Sigurðar Inga hefur ekki aðhafst fyrir 1. maí þá hittumst við, kæru landsmenn, stundvíslega við heimili Bjarna klukkan 19:00 þann 1. maí:
Bakkaflöt 2
210 GarðabæAtriði sem vert er að hafa í huga:
– Þetta eru friðsamleg mótmæli. Eignaspjöll og ofbeldi eyðileggja fyrir málstaðnum. Einnig er mikilvægt að virða lóðamörk.
– Mæting mótmælenda við heimili ráðamanna er stórt skref. Grasrótarhópurinn Beinar aðgerðir telur það hins vegar nauðsynlegt. Mótmælt hefur verið á Austurvelli í hátt í þrjár vikur. Á fyrstu mótmælunum mættu um tuttugu þúsund manns. Næsta laugardag á eftir mættu um fjórtán þúsund manns. Á meðan situr ríkisstjórnin við völd og Bjarni lýsir því yfir að hún muni „ekki stjórnast af mótmælendum,“ þ.e.a.s. eindregnum og skýrum vilja almennings.
– Íslenskt samfélag berst í bökkum með laskað heilbrigðiskerfi, veikara menntakerfi, landsbyggðarflótta, aukinn ójöfnuð og fátækt, húsnæðisskort og gríðarlegar skuldir heimilanna. Eftir birtingu Panamaskjalanna er okkur ljóst að ástæðan er rán og græðgi 600 Íslendinga sem hafa holað þjóðarbúið að innan. Í samanburði við þá árás sem íslensk heimili máttu þola í hruninu mega rök um friðhelgi heimilis formanns Sjálfstæðisflokksins sín lítils, það var nú einu sinni hans flokkur sem tók þátt í árásinni á heimili landsins.
– Þegar traust er ekkert eru nokkrir mánuðir of langur tími fyrir íslenska þjóð að bíða – við viljum að ríkisstjórn Íslands segi af sér strax!
Mótmæli á Austurvelli, við Stjórnarráðið eða ráðuneyti er eitt og fullkomlega eðlilegt þegar stjórnvöld hlusta ekki á almenning í landinu en að fara heim til ráðherra og stalka þá og fjölskyldur þeirra með þessu hættir er að mínu mati gjörsamlega siðlaust og bara til að gengisfella málstað þeirra sem fyrir því standa sem og þeirra sem mæta á slíkan gjörning.
Þetta er alfarið mín skoðun og mitt álit, aðrir mega gera það sem þeir kjósa.