Það er undarlegt en jafnframt ánægjulegt að sjá hvað margir þjóðþekktir einstaklingar hafa stigið fram og opnað sig gagnvart þunglyndi og kvíða sem þeir sjálfir eru haldnir.
Má nefna einstaklinga eins Svavar Knút tónlistarmann, Sigvalda Kaldalóns útvarpsmann, Halldór Auðar borgarfulltrúa, Steinunni Ólínu ritstjóra og Biggi lögga svo einhverjir séu nefndir.
En það er líka fullt af venjulegu fólki úti í bæ og um land allt sem hefur opnað sig og sagt sína sögu á hashtagsíðunni, „égerekkitabú“ og fengið góð viðbrögð og ráðleggingar þar.
Ég sjálfur hef ekki tekið þátt í þessu en geri það hér og nú og á mínum forsendum því mitt þunglyndi byrjar fyrir alvöru þegar ég er á tíunda eða ellefta ári en þá var það aðalega kvíðinn fyrir að fara í skólann sem olli þunglyndinu til að byrja með en síðar komu þunlyndisköstin eiginlega að sjálfu sér og af minnsta tilefni, sérstaklega á haustin og á veturna.
Ég hef þrisvar reynt að koma mér fyrir kattarnef en mistekist í öll skiptin og ég hef aldrei leitað mér hjálpar utan eitt skipti sem ég leitaði á bráðamóttökuna í Fossvogi. Var sendur til sjúkrahúsprests hafði hvorki nennu né vilja til að tala neitt við mig og hafði í raun engan tíma fyrir mig. Mér var nánast sparkað út eftir tíu mínútur og rukkaður fyrir „viðtalið“ að auki.
Það var dagurinn sem ég fékk viðbjóð á kirkjunni og „þjónum“ hennar.
Í febrúar 2009 fékk ég fyrsta alvarlega ofsakvíðakastið þar sem ég réð ekki við neitt.
Ég hafði verið að vinna í fjóra mánuði við sjúkraflutninga í Danmörk, undir gífurlegu álagi, einn í ókunnu landi þar sem ég rataði illa og var nánast mállaus að auki.
Hafði fengið væg kvíðaköst áður en þetta var hreinn og klár hryllingur.
Hjartað barðist svoleiðis í kassanum að ég var handviss um að rifbeinsbrotna og púslinn hátt í 200.
Kófsvitnaði, skalf og nötraði og tárin flæddu án þess að ég réði neitt við neitt.
Ég kom mér fyrir í dimmasta horninu í húsinu og bað bara um að fá að deyja svo ég losnaði við þetta.
Smá saman róaðist ég niður og komst inn í rúm þar sem ég sofnaði og svaf í nærri sólarhring en þegar ég vaknaði var „svarti hundurinn“ búinn að bíta sig fastann við mig og hann sleppir ekki svo glatt.
Eftir þetta hef ég fengið nokkur slæm kvíðaköst en ekkert á við þetta en þunglyndið og félagsfælnin hefur sótt í sig veðrið og ég fer nánast ekki út úr húsi nema tilneyddur í dag. Bara það að fara út með ruslið getur valdið því að ég fer að svitna og hjartað hamast eins dýr í búri sem vill fá að sleppa.
Í dag er staðan sú að ég finn nánast aldrei til gleði eða ánægju og mér finnst ég vera staddur í biðsal þar sem eru aðeins tveir kostir í boði. Kála mér eða bíða þar til stjórnvöldin í landinu drepa mig með þeim aðgerðum sem þeir stunda á öryrkjum og öldruðum á þann hátt að láta þá velja um að svelta til dauða eða deyja vegna lyfjaskorts því fólk getur í dag ekki veitt sér bæði lífsnauðsynleg lyf og átt fyrir mat út mánuðinn því bætur almannatrygginga eru svo lágar að 90% þeirra sem eru með allra lægstu tekjurnar geta engan veginn lifað á þeim og átt bæði fyrir mat og lyfjum út mánuðinn.
Skilninslausir „sérfræðingar“ klóra sér í hausnum og botna ekkert í aukinni tíðni sjálfsmorða í landinu í yngstu og elstu aldurshópunum vegna aukins þunglyndis og kvíða. Ég fjallaði um það í pistli sem ég skrifaði fyrir rúmu ári síðan hér á þessari síðu og hvet fólk til að lesa þann pistil því ég þekki af eigin raun hvernig það er að sjá aldrei möguleika út úr þeirri fátæktargildru sem stjórnvöld í landinu halda öryrkjum og öldruðum stanslaust í og í raun koma í veg fyrir að þessir hópar geti átt sér eitthvað líf annað en það að berjast á hverjum einasta degi fyrir því að draga fram lífið á þeim fáu krónum sem þeim er úthlutað mánaðarlega.
Það er ekkert auðvelt að skrifa svona um sitt eigið ástand og ég tek ofan fyrir þeim sem það hafa gert og sagt frá því opinberlega.
Þeim sem eiga við þetta vandamál að stríða, óska ég góðs gengis í baráttu sinni og með því að tala um hlutina og gera þá opinbera er kanski smá möguleiki á því að við náum eyrum þingmanna og ráðherra sem bera í raun mestu ábyrgðina á ástandinu.
Farið efst á síðuna og í leitargluggann og sláið inn „Öryrkjar“ til að fá smá innsýn í það sem ég hef skrifað um þau málefni.
Góðar stundir.