Núna er uppi á borðinu skýlaus krafa af hendi almennings að eitt dýrasta símtal sögunnar verði gert opinbert, ekki eingöngu útskrift af því heldur einnig hljóðupptaka til að færa sönnur á að Davíð Oddsson fyrrverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóri hafi veitt Kaupþingi 80 milljarða króna „þrautarvaralán“.
Seðlabankinn hefur ítrekað neitað Alþingi um afrit af samtali Davíðs og Geirs, og ber við trúnaðarskyldu. En það er ekki prívatmál tveggja manna þegar verið er að gefa tugmilljarða af almannafé! Hvers vegna er samtalið ekki bara birt svo þjóðin öll geti metið málið?
Hvað er verið að fela?
Davíð sló ný met í vanstillingu og æsingi í Reykjavíkurbréfi sunnudagsins. Lögmætar spurningar eru árásir og áróður, áróður og ófrægingarherferð. En það er merkilegt að sjá fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins nota dagblað sem hann ritstýrir, en á að heita frjálst og óháð, til að verja stórvafasamt baktjaldamakk sitt og annars fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins og má sjá hluta af bréfinu hér að neðan. Björn Birgisson í Grindavík tók mynd af því og setti á Facebook og mætti kalla fyrirsögnina að því; ,Hroki, heift og sjálfsréttlæting.“ Þeir sem hafa ekki lyst á að kaupa LÍÚ snepilinn geta lesið það sem mestu máli skiptir úr því.
Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrum Seðlabankastjóri, segir fjölmarga aðila hafa lesið útskrift samtals hans og Geirs H. Haarde um lánveitingu til Kaupþings. Samtalið þykir honum ómerkilegt, enda hafði það þá einu þýðingu að staðfesta að lánið var veitt með samþykki oddvita ríkisstjórnarinnar.
Hann segir einnig að bankinn liggi ekki einn á þessu símtali, Rannsóknarnefnd alþingis hafi einnig afrit af því og telur að Sérstakur saksóknari sé einnig með afrit af því og hafi unnið út frá því þegar unnið var að kæru á hendur Geir H. Haarde fyrir Landsdómi.
En af hverju þá ekki að gera þetta símtal opinbert?
Hvað er það sem þarf að fela fyrir almenningi?
Var það eitthvað fleira sem Geri og Davíð fór á milli sem þeir óttast að verði gert opinbert?
Hver var tilgangurinn með lánveitingunni?
Hverju átti að bjarga?
Hvers vegna fór féð til Þýskalands þegar sagt var að það ætti að bjarga dótturfélagi Kaupþings í London og hvar er þetta fé í dag?
Þetta eru upplýsingar sem eiga að vera almenningi aðgengilegar enda gífurlegir fjármunir sem fóru þarna forgörðum vegna einhliða ákvarðanatöku tveggja manna sem vissu að alger kollsteypa í fjármálakerfinu var að bresta á. Þessir menn skulda þjóðinni allri svör og þetta símtal er aðeins einn hluti í því púsluspili.