Þegar ég las það sem Lena Rós Matthíasdóttir skrifaði um muninn á lífi sínu hér á Íslandi og svo eftir að hún fór að vakna eftir að hún flutti til Noregs og sá hvernig lífið er þar, þá fór ég aðeins að hugsa lengra en ég hef gert áður um það hvernig þjóðfélag Ísland er orðið.
Umræðurnar í kringum skrif Lenu hafa vakið marga til umhugsunar um hvernig líf þeirra er og hvernig það gæti verið ef íslendingar tækju sig til og slitu af sér hlekki þrælahaldarna og neituðu að láta kúga sig lengur af þeirri valdastétt sem ræður ríkjum í landinu í dag.
Stjórnmálamenn hér á landi eru spilltir.
Um það þarf ekkert að hafa fleiri orð, það sést í orðum þeirra og gerðum á hverjum einasta degi.
Þeir hika ekki við að ljúga.
Það sér maður og heyrir oft á dag.
þeir hika ekki við að reyna að telja almenning trú um að Ísland sé best í heimi, þar sem hagvöxtur er mestur, verðbólgan lág og vaxtakjör með því besta sem þekkist í heiminum.
Allt eru þetta lygar. Lygar til að fá auðtrúa sálir til að trúa því að á Íslandi drjúpi smjör af hverju strái og þar sem lífskjör eru best í heimi.
Það sorglega er að fólk trúir þessu.
Sumir að minnsta kosti.
Þegar kemur að umræðum um heilbrigðiskerfið okkar þá vill fólk meina að við búum í landi þar sem Norræna velferðarstefnan sé sú besta og heilbrigðisþjónusta finnist hvergi betri í heiminum.
Allt er þetta blekking og lygar sem almenningur er matreiddur ofan í almenning af áróðursmeisturum sem lærðu fræðin af Göbbels, áróðursmeistara Htilers á tíma seinni heimstyrjaldarinar.
Segðu lygina nóg oft og nógu hátt og þá trúa því allir!
Þetta sáum við svo gjörla fyrir síðustu þingkosningar og var þetta mest áberandi hjá frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins þó vissulega kæmi þetta fyrir hjá öðrum frambjóðendum vinstri flokkana líka. Sérstaklega í málefnum sem þeir höfðu klúðrað algerlega á kjörtímabilinu og má þar helst nefna alla umræðu um „skjaldborgina“ frægu sem átti að slá um heimilin í landinu en snerist upp í það að verja bankana og fjármálastofnarninar en fjölskyldurnar sem skulduðu sátu eftir og margar, ef ekki flestar, misstu allt sitt.
Heimilin flosnuðu upp, fólk skildi og fór sitt í hverja áttina, sumir erlendis því enga vinnu var að hafa hér á landi.
Börnin liðu fyrir það.
En hvernig er ástandið sex árum eftir hrun?
Er það eitthvað betra?
Nei. Það er verra ef eitthvað er því fólk hefur varla efni á því að lifa, hvað þá heldur meira.
Tvær, þrjár og jafnvel fjórar vinnur er það sem sumir þurfa að leggja á sig, vinna allt að 20 tíma á sólarhring til að geta borgað þræalahöldurunum og haldið í það litla sem þeir eiga.
Sumir eiga ekkert.
Urðu gjaldþrota.
Flúðu land, fengu vinnu og ári seinna keyptu þeir sér fasteign.
Vinna samt aðeins sína dagvinnu, eyða tíma seinnipartinn með fjölskyldunni og eru heima hjá sér á kvöldin en hafa samt efni á því að borga af lánum, kaupa í matinn út mánuðinn, reka bíl, stunda tómstundir og geta tekið sér frí af og til.
Geta ferðast og farið í leikhús, bíó, tónleika og hvað eina sem því dettur í hug meðan þrællinn á Íslandi vinnur 24/7/365 og nær ekki endum saman.
Hér á landi er verðtrygging í gangi.
Falleg orð, verð – trygging.
En þegar upp er staðið þá er þessi svokallaða verðtrygging ekkert annað en dulbúið orð yfir vexti.
Okurvexti í þessu tilfelli því það er verið að hafa fólk að algerum fíflum með þessu.
Þessir vextir geta verið af verðtryggðum húsnæðislánum, allt að 65% ofan á hina hefðbundnu vexti.
Svo furðar fólk sig á því að lánin þeirra lækka aldrei?
Þegar staðan er svo skoðuð nánar þá sjáum við ársuppgjör bankana, þessara sömu og fóru á hausinn 2008, græða stórkostlegar upphæðir í hverjum einasta mánuði ársins. Svo mikið að hægt er greiða arð og borga bankastjórunum margar miljónir í mánaðarlaun.
Hvaðan kemur þessi gróði?
Jú. Hann kemur úr okkar vösum.
Okkar, almenningsins í landinu en þó mest frá þeim sem skulda húsnæðislán.
Þrælum auðvaldsins sem vinna tventíforsevenþrísixtífæv og moka laununum sínum í vasa auðjöfrana í skjóli gjörspilltra stjórnvalda sem er skítsama um almenning í landinu.
Þetta er bara staðreynd sem er hverju mannsbarni augljós.
Þetta eru staðreyndir sem fólk á erfitt með að kyngja og hreinlega neitar að viðurkenna. Bæði fyrir sjálfum sér og öðrum. Það er líka sárt að þurfa að horfa á þá staðreynd að fólk hafi algerlega sjálfviljugt rétt fram hendurnar og beðið um að láta setja á sig hlekki þrælsins.
Að viðurkenna slíkt er sárt, þess vegna er öll þessi afneitun í gangi.
Það er staðreynd.
Ég mæli með að fólk kynni sér þær umræður sem hér eru í gangi, skoði staðreyndir en þó fyrst og fremst, líti í eigin barm og skoði líf sitt og hvort það vill áfram vera í hlekkjum þrælsins eða hvort það hafi kjark til að brjóta þá af sér.
Við eigum tvo kosti í stöðunni.
Brjóta af okkur hlekkina og refsa þeim seku eða koma okkur úr landi.
Vissulega er þriðji kosturinn til staðar en ég held að hann sé ekkert fýsilegur.
Láta sem ekkert sé og halda áfram sem þrælar spillingar og auðvalds og selja börnin okkar til sömu framtíðar.
Í mínum huga er þriðji kosturinn ekki til.
Vona að þú sért sama sinnis.
Ræðið.