Meinhornið mitt í dag er biturt rant í tilefni þjóðhátíðardagsins enda kanski ekki vanþörf á því á þessum síðustu og verstu tímum í íslensku þjóðlífi. Þar mátti sjá margar myndir þar sem svínabúið við Austurvöll ásamt gerðinu, Austurvelli, var búið að stúka af með girðingum til að svínahjörðin sem ræður ríkjum í landinu gæti ótruflað haldið hátíðarræður og mært sjálfa sig og verk sín án þess að skítugur almúginn væri að trufla þá með nærveru sinni.
Það var skrautlegt að sjá myndir sem fólk deildi á samfélagsmiðlum þar sem grasflötin á Austurvelli var tóm utan við eitt tjald sem reist hafði verið yfir hjörðina líkt og skýli í svínagerði svo grey dýrin brenni nú ekki af sólinni eða blotni af regninu en fyrir utan girðinguna stóð almenningr landsins ásamt túrhestum og horfði inn fyrir rimlana eins og þekkt er úr dýragörðum erlendis frá.
Það má hins vegar til sanns vegar færa, hvernig sem á það er litið, að stjórnarsvín landsins urðu ekki fyrir truflunum enda dýrahirðarnir alls staðar nærtækir til að halda almenningi frá því að smitast af hættulegum sjúkdómum eins og spillingu, undirferli, lygabakteríum og siðblindu, enda eiga stjórnarherrar landsins og eigendur þeirra, auðvaldið og útgerðir landsins einkaleyfi á slíkum sjúkdómum.
En það mættu fáir til að góna á svikasvínin mæra sjálf sig á þessum degi því lunginn af landanum situr heima í fátækt og eymd og kærir sig ekkert um lygar þessara svína sem búa og starfa á Animal farm og þó þeim sé hleypt út í girðingu er ekki þess virði að eyða tíma eða peningum í að sjá þá mæra sjálfa sig í svínagerðinu sem sett var sérstaklega upp á Austurvelli í dag.
Það eru þrettán dagar eftir af þessum mánuði og flestir sem ég þekki eiga ekki fyrir mat eða öðrum nauðsynjum út mánuðinn. Ekkert frekar en aðra mánuði ársins, þökk sé lygum og lýðskrumi þeirra sem landinu stjórna.