Það hvarflar stundum að mér að ég hljóti að hafa verið algjörlega siðblindur drullusokkur í einhverju af mínu fyrra lífum miðað við þá einstöku heppni sem fylgir manni í dag.
Ég hlýt að hafa féflett allt fólk sem hef komið nálægt í því lífi og sent það á götuna til að deyja drottni sínum eða eitthvað þaðan af verra, td. svikið af því allar eignir, eyðilagt mannorð þess, nauðgað konum og börnum og er nú að taka út refsingu fyrir það í þessu lífi.
Það er að segja ef ég trúi á endurholdgun og refsingar fyrir fyrri líf.
Það gerði þrumuveður í dag hérna eins og svo oft áður en í dag stóð ég úti á palli með íþróttablys og tottaði það af minni alkunnu áfergju og af mikilli nautn þegar blindandi blossi skar í augun og nánast samstundis drundi þessi líka svakalega þruma í eyrunum á mér og gerði mig nánast heyrnarlausan. Kofaræksnið gjörsamlega víbraði undir fótunum á mér og konan sagði eftir á að hún þakkaði bara sínum sæla fyrir að hafa setið á postulíninu þegar þetta reið yfir því annars hefðu afurðirnar sem hún skilaði af sér endað í buxunum en ekki þangað sem þær fóru.
Þegar ég svo kom inn sá ég að routerinn blikkaði öllum ljósum og barðist við að tengja sig en ekkert gekk þrátt fyrir nokkrar endurræsingar og bilanagreiningu hjá netfyrirtækinu var farið að rölta til nágrana og spyrjast fyrir hvort aðrir væru sambandslausir. Þeir spurðu hvort ég hefði ekki orðið var við slökkviliðið sem hafði komið og ráðið niðurlögum elds í næsta garði eða rétt um 50 metra frá okkur. Nei. Ég sá þá ekki en konan sá þá keyra í burtu og við héldum að það hefði verið vegna smá elds sem hafði verið kveiktur nokkru áður í sameiginlegu eldstæði sem við nágranarnir útbjuggum fyrir nokkrum dögum.
Nei. Eldingin sem hræddi næstum úr mér líftóruna og skítinn úr frúnni hafði nefnilega slegið niður í símakassa í þarnæsta garði og gjörsamlega steikt innvolsið og mesta furða að routerinn hjá mér er í fínu lagi en ekki öskurhrúga á góflinu eftir þetta niðurslag.
Sem betur fer hafði ég fengið netpung hjá Telía fyrir tæpum tveim árum þegar klippt var á koparinn hjá okkur og við vorum netlaus í hálfan mánuð svo það var ekkert annað að gera en finna hann, kúppla honum inn og kaupa inneign svo maður gæti haldið áfram að hrella aumingjans fólkið sem asnast til að vera í samskiptum við mann á alnetinu og samfélagsmiðlum.
Já. Ég er greinilega vondur maður sem á allt vont skilið því auðvita skilur þetta eftir heilan helvítis kostnað fyrir mig og það er ekki eins og maður megi við því enda stutt í landsmót íslenskra leðurhomma og lesbía á mótorhjólum sem búsettir eru í Norvegi og að sjálfsögðu get ég ekki látið mitt eftir liggja en að hrella þetta aumingjans fólk líka með nærveru minni.
Svo maður tali nú ekki um að maður þarf að leggjast í snýkjur og betl til að komast á staðinn og enn á eftir að kaupa smáræði af viðlegubúnaði, mat og áfengi svo maður þoli nú við heila helgi í þessum félagsskap.
Þó aðalega sjálfssínsfélagsskap því jafn margklofinn persónuleiki og ég get verið þá gæti ég haldið partí með sjálfum mér og hent mér minnst þrisvar út á einu kvöldi og látið lögguna hirða mig fimm sinnum.
Nóg af rausinu og kjaftæðinu í bili.
Lifið heil.