Ég hef lengi velt því fyrir mér hvernig standi á því að íslendingar eru svo duglegir að kyssa vöndinn sem slær þá og kjósa aftur og aftur yfir sig þá stjórnmálamenn og flokka sem koma hvað verst fram við almenning í landinu. Flokka og þingmenn þeirra sem víla ekki fyrir sér að brjóta lög og stjórnarskrárbundinn rétt almennings sjálfum sér til hagsbóta, hagnaðar á kostnað þeirra sem verst hafa það í þjóðfélaginu og geta engann veginn borið hönd fyrir höfuð sér eða varist óréttlætinu á nokkurn hátt.
En þegar ég las grein eftir Bryndísi Schram í Kvennablaðinu í gær, þá leið mér eins og mér hefði verið gefið á kjaftinn, því þá skildi ég fyrst hvernig á þessu stendur. Íslendingar neita að horfast í augu við uppruna sinn og arfleið og afneita henni með exinu á kjörseðlinum því þeir eru jafn sannfærðir og öfgamaðurinn sem telur sig komast í himnaríki með því að sprengja sjálfann sig í loft upp þannig að hann drepi sem flesta, konur, börn og menn, að þá sé hann dýrlingur.
Þannig er íslendingurinn. Þegar þau stjórnmálaöfl sem sem berjast fyrir lítilmagnann hafa komið einhverjum umbótum í gegn á alþingi íslendinga fyrir almenning og bjóðast til að halda áfram að vinna að hag almennings í framtíðinni, þá snýr almenningur baki við þeim flokki því þessi almenningur vill ekki, skammast sín reyndar fyrir að tilheyra alþýðu landsins, afneitar þeim sem komu umbótunum á, kyssa vöndinn og kjósa íhaldið aftur og aftur þrátt fyrir stöðug svik þeirra við alþýðuna.
Það verður enginn úr röðum almennings hluti af elítunni með því að kjósa íhaldið þó þeir telji sjálfum sér trú um það
Ekkert frekar en öfgamaðurinn sem sprengir sig og fjölda annara saklausra í tætlur til að komast í himnaríki því báðir tilheyra þeim hópi sem þeir koma frá, hvort sem þeim líkar það eða ekki.
Í grein Bryndísar er þetta útskýrt nákvæmlega svo ekkert fer á milli mála hvað átt er við.
„Íhaldið, Bryndís – það kaus Íhaldið“.
Svo þagnaði hann.
Og þögnin getur verið óþægileg – sérstaklega í útvarpi.
Mér var orða vant, en gat þó stunið upp:
„En – hvers vegna?“
Enn horfðumst við í augu. Það brá fyrir sorg í svip hans.„Af því að fólkið vildi ekki tilheyra alþýðunni lengur.“ Svo lækkaði hann róminn. „Það vildi upp – upp til fína fólksins! Gleyma uppruna sínum, gleyma fortíðinni. Þannig launaði fólkið velgjörðina,“ sagði hann.
Og þannig er það enn í dag.
Ekkert hefur breyst. Sagan endurtekur sig.
Það er sorglegt að hugsa til þess að almenningur á íslandi skuli í raun trúa þeirri ranghugmynd að með því að kjósa íhaldið verði það hluti elítunar alveg eins og öfgamaðurinn sem sprengir í tætlur saklaust fólk trúi því að hann komist með því í himnaríki.
Það er sorglegt að íslendingar skuli aldrei læra af reynslunni og umbuna þeim sem umbun á skilið heldur ráðast á þá sem hjálpa þeim mest og rífa þá niður og snúa sér síðan í bæn til hryðjuverkamannana og kjósa þá fram yfir friðinn en þetta erum við að sjá gerast í dag þegar fylgi núverandi stjórnarflokka fer rísandi þrátt fyrir þá gegndarlausu spilingu sem þar þrífst innanbúða og lygar, fals og skrum er daglegt brauð þar sem sjálfshyggja og frekja yfirgnæfir allt sem heitir almannahagsmunir í þessu þjóðfélagi.
Nýtt frumvarp um breytingar á gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu er hreint og klárt brot á stjórnarskrá landsins en um það er Kristjáni Þór, heilbrigðisráðherra nákvæmlega og slétt sama. Þetta skal bara í gegnum þingið, hvað sem tautar og raular því ráðherrarnir hafa alla þingmenn í vasanum og LÁTA þá kjósa sér í hag en ekki eftir sannfæringu sinni sjálfra eins og þeir sóru þegar þeir settust á þing.
Það hefur gerst áður og mun gerast aftur, því þeir hafa komist upp með það og því þykir það bara sjálfsagt mál.
Þeir munu brjóta á almenningi aftur og aftur og þessi sami almenningur mun hrópa af gleði og gefa þeim atkvæði sitt í þeirri trú að þá tiheyri þeir elítunni.
Alveg eins og hryðjuverkamaðurinn mun halda áfram að sprengja í tætlur konur og börn því þá er himnaríki hans.
Nei kæru landsmenn. Þið getið aldrei afneitað uppruna ykkar og þið verðir aldrei hluti elítunar þó þið kjósið hana til valda í landinu.
Það er kominn tími til að vakna og viðurkenna hver þið eruð og hvaðan þið komið og vera stolt af þeim uppruna ykkar í stað þess að afneita uppruna ykkar og þjóðfélagsstöðu.
Það er kominn tími til að vakna og taka þátt í að gera þetta samfélag betra fyrir okkur öll. Tækin eru til staðar og fólkið til þess er til staðar en það er undir ykkur komið hvort þið veljið umbætur eða áframhaldandi spillingu.