10 litlir öryrkjar. Pistill eftir Ólaf Skorrdal

Almenningur þekkir ekki raunverulegan mátt sinn.

Almenningur þekkir ekki raunverulegan mátt sinn.

Öryrkjar boðuðu til mótmæla á Austurvelli framan við þinghúsið í dag og hafði nokkur fjöldi boðað komu sína.
Reyndin varð nú heldur önnur og mættu aðeins 10 af þeim sem boðuðu sig.  Samstaðan var nú enn og aftur ekki meiri þegar upp var staðaðið.

Ólafur, félagi minn, Skorrdal mætti að sjálfsögðu og þegar heim var komið reit hann þennan pistil er lesa má hér á eftir.

„Í Skólavörðuholtið hátt“

Ég gekk yfir Skólavörðuholtið í fótspor skáldanna, niður að Laugarvegi og inn í Björk í Bankastræti. Mig vantaði filtera. Sólin stakk af og til í augun á milli húsþakanna; bærinn fullur af ferðamönnum að finna sér matarborð eða ný stigin upp frá því. Leið mín lá niður á Austurvöll að mótmæla skerðingu á friðhelgi einkalífs lífeyrisþega — aldraðra og öryrkja.

Það voru fáir mættir fyrir framan Alþingi á þessum fallega, en kalda degi. Þekkt andlit — ókunnugir; öll vorum við þarna í sama tilgangi. Kannski 20 manns, eitthvað svoleiðis. Þau stóðu í hópum, spjölluðu saman, vögguðu sér ti hita, kinnkuðu kolli og tóku undir sameiginilega gremju, reiði og uppgjöf sem var að finna í hópnum. Samt ekki uppgjöf, líkt og að leggjast í duftið — alls ekki. Meira heldur uppgjöf á ástandinu og vilji til aðgerða til að breyta því; vilji jafnvel til að fara í mjög beinar og harðar aðgerðir, sem gætu flokkast undir allt annað en hefðbundin mótmæli. Ég vaggaði mér til hita, kinnkaði kolli og tók undir sameiginlega gremju, reiði og uppgjöf. Ég er fyrir löngu búinn að fá nóg af mannfyrirlitningunni sem ég upplifi frá Alþingi og Kerfinu. Fyrir lifandis löngu.

Eftir nokkra stund pottabarnings, flautukonserts og skiltaslátts, rak þarna á fjörur okkar aumkunarverður þingmaður Bjartrar framtíðar, sem um leið var umkringdur, kæfður með spurningum, kröfum um svör, aðgerðir og úrlausnir. Það kom fát á hann — ég þekkti hann ekki baun, enda hafði ég aldrei séð smettið á honum, né vissi að hann væri á þingi. Hann hefði gersamlega farið fram hjá mér, hefði hann ekki kynnt sig sem þingmann. Svona kalkaður er ég nú orðinn — góðan daginn.

Aumingjans maðurinn fékk aldrei að komast að, en það eina sem kom út úr honum þegar hann reyndi, var að hann vildi byggja „betri framtíð“ — og svo var honum aftur drekkt í spurningaflóði og fleiri skemmtiatriðum. Einn mótmælandinn fékk smá útrás fyrir aldraða reiði sína og hrópaði mörgum miður skemmtilegum orðum að svo til nýbökuðum þingmanninum, sem gersamlega missti taktinn í frasaútspítingunum og þagnaði um stund, í örvæntingarfullri tilraun sinni til að koma æfðri frasasúpunni á framfæri í eyru sem kærðu sig ekkert um að heyra eitthvað endurunnið kosningakjaftæði, þarna fyrir utan Alþingi mánudaginn 10. febrúar. Það kom ekki til greina að sætta sig við eitthvað lýðskrum; „nasistinn“ skildi svo sannarlega fá að heyra allt — og meira til. Og það gerði hann blessaður.

Það er stefna okkar í Bjartri framtíð, að byggja betri framtíð,“ eða eitthvað slíkt, röflaði hann í sífellu, eins og það væri eitthvað sem ekkert okkar óskaði sér; betri framtíð OG ÞAÐ STRAX! „En það tekur tíma — nokkur ár,“ og hann tapaði orðræðunni á þeim tímapunkti.

Óréttlætið útskýrt

Lögbundnar tekjuhækkanir lífeyrisþega voru afnumdar árið 2009 og hafa engar leiðréttingar komið til handa lífeyrisþegum, á meðan forstjórar Ríkisstofnanna og alþingismenn sjálfir, hafa fengið sínar skerðingar að fullu til baka — og það afturvirkt. Ekkert slík er einu sinni í pípunum fyrir lífeyrisþega, sem mega lepja dauðann úr skel, undir vökulu auga Mannvonnskustofnunnar Ríkisins (lesist: TR — Tryggingarstofnun Ríkisins), sem getur komið hvenær sem er og stungið vasaljósi upp í görn hvaða öryrkja sem hentar — nú eða maka hans — ef þeim sýnist svo og án þess að nokkrum vörnum verður komið við af hendi lífeyrisþegans.

Þarna stóð því fulltrúi Bjartrar framtíðar — og lofaði öryrkjum bjartri framtíð — en þeir þyrftu að bíða í nokkur ár til viðbótar eftir henni. Svona eins og kristlingar bíða alla ævi eftir himnaríkisvistinni sem er alltaf handan við hornið, ef þeir haga sér eins og manneskjur en ekki skeppnur. Kristlingarnir haga sér eins og skeppnur — og svo fá syndaaflausn við bát ferjumannsins; halda að þannig komist þau rakleitt til himnaríkis — gratís aðra leið. Lífeyrisþegar á hinn bóginn, gætu ekki allir lifað þá bið af að bíða eftir bjartri framtíð Bjartrar framtíðar. Lífeyrisþegar krefjast réttlætis strax — og ekkert helvítis kjaftæði.

Það er ekki nóg að brotið hafi verið á friðhelgi einkalífs lífeyrisþega síðast liðin 13 ár, heldur hafa læknalög greinilega einnig verið brotin, þegar kemur að friðhelgi samskipta sjúklinga og lækna. Þar virðist lífeyrisþeginn hafa engann rétt, sem er klárlega brot á jafnræðisreglu Stjórnarskrárinnar, sem svo mjög er hampað þegar þarf að verja réttindi hinna betur settu í þessu samfélagi. Er því reiðin gagnvart þeim forréttindahóp sem endalaust klípur af hinum verst settu, en mokar undir eigin þjórhnappa í græðgi sinni og trú á eigin yfirburði, ekki aðeins skiljanleg, heldur einnig réttlætanleg. Réttlát reiði þeirra, sem hafa þurft að lepja dauðann úr skel svo lengi sem elstu menn muna — vera ofsóttir af samfélaginu og forréttindaelítunni, ásakaðir um svindl og svínarí; stjórnarskrárvarin réttindi afnumin á þessum hópi fólks og réttlætt með að það þurfi að koma í veg fyrir bótasvik. Hvað ætli skattgreiðendur segðu, ef Skatturinn fengi álíka heimildir til að vasast í persónuleg málefni skattgreiðenda, jafnvel án þess að láta þá vita — og svo svipta þá öllum tekjum og leggja á 15% álögur, ef þeir hafa ekki talið fram hverja einustu krónu og hvern einasta drátt? Ætli þá heyrðist ekki hljóð úr einhverjum hornum samfélagsins? Það mætti ætla svo. En þegar slíkt er lagt á lífeyrisþega þessa lands, þegja flestir landsmenn þunnu hlóði í aumingjaskap sínum og hatri á öllum „bótasvikurunum“.

Tryggingastofnun lítur á alla lífeyrisþega sem mögulega bótasvikara. Hún hefur gert það hingað til — og þessi lög munu í engu breyta þar um. Jafnvel þegar Tryggingastofnun gerir mistökin, þá er greinilega litið á lífeyrisþegann sem bótasvindlara. Þessu er svo skipulega ýtt að þjóðinni, til að skapa reiði, tortryggni og öfund, út í „öryrkjana“ sem „hafa það svo gott“. Svei, ykkur aumingjum, sem fulla heilsu hafið — og rísið ekki upp gegn óréttlætinu, sem svo mun snúast að ykkur, þegar búið er að ljúga ykkur nægilega full. Bótasvik eru áætluð 3 milljarðar á ári — sem er sama upphæð og Ísland greiðir á mánuði, í vexti af láninu frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Það er nú ekki meira en svo, að þessi „miklu“ bótasvik, eru rétt um 3% af heildargjöldum Ríkisins vegna lífeyrisþega. Svipað og í nágrannalöndunum. Og til að berjast gegn þessum 3% bótasvikum, skulu 100% lífeyrisþega vera undir grun um bótasvik. Það er eitthvað mikið að fólki sem telur slíkt í lagi — eitthvað verulega brenglað viðhorf; kannski það ætti að vera á bótum sjálft, því eitthvað er ekki í lagi. Svo mikið er víst.

Alþingi yfirbugað

Eftir ræður, söng og öskur, trommaði hersingin sér á bak við þinghúsið og ætlaði að koma sér fyrir á þingpöllum, til að sinna lögbundnu eftirlitshlutverki sínu með Alþingi. Aumingjans „öryrkjunum“ var hleypt inn, einum í einu — og náðu heilir þrír að komast inn í þinghúsið, áður en hópurinn var stoppaður af og fólk fór að koma út aftur. Nú héldum við sem úti biðum, að eitt okkar hefði tapað sér þarna inni — því við höfðum fylgst með gremju- og reiðikastinu utan áður, og fórum að tuða í barm okkar og beint, um hvernig hægt er að skemma hitt og þetta með hinu og þessu. Dyraverðir Alþingis voru greinilega á nálum, vegna þessara 10 „öryrkja“ sem stóðu fyrir utan og komu fram við þá líkt og negradrengina í sönglaginu gamla. Pikkuðu einn og einn í einu, afklæddu, káfuðu á, snéru upp á vasa, fóru ofan í töskur, lyftu upp pylsum (nei, kannski ekki…). „Öryrkjarnir“ voru taldir svo hættulegri, að þegar þrír voru komnir inn var þingpöllum lokað, þremenningunum vísað út og hurðum skellt í lás. Undan flúðu hreystimenni Alþingis og létu sig hverfa til kaffistofu, skjálfandi á beinum undan hættulegum „öryrkja“ hópnum; 10 litlir „öryrkjar“ urðu til þess, að Alþingi lokaði dyrum sínum, skellti í lás og dróg fyrir glugga. Ekki er manndómurinn nú meiri á þeim bænum.

Eftir þetta tvístraðist hópurinn; fólk fór að taka saman, halda heim á leið og kveðja vini og félaga. Það var kalt og tærnar farnar að kvarta fyrir löngu, þrátt fyrir ullarsokka og síðar nærbuxur. Enda ná þær sjaldnast niðurfyrir tær. Lýðræðisníðingarnir innan veggja Alþingis, földu sig á bak við skothelt gler, læstar dyr og þykk gluggatjöld, á meðan þeir tóku á ráðin um frekari álögur á almenning, sem þeir sjálfir losna undan með margskonar sérsamningum, aukabitlingum og kostnaðarreikningum; sem þeir svo glaðir veita sjálfum sér og félögum sínum, úr sameiginlegum sjóðum okkar allra.

Tíu litlir „öryrkjar“ urðu til þess að öryggisráðstöfun Alfa var sett í gang; ekki skyldi komast inn fyrir dyr þingsins, svo mikið sem bréfberi með gluggaumslag. Uppgjöfin er algjör — fyrringin er slík; þykkur hroki þingheims fyllti upp í allar glufur þinghússins.

Tíu litlir „öryrkjar“ buguðu þingheim; hugsið ykkur! Hvað ef þjóðin stæði nú einu sinni öll saman, að koma þessum elítupésum frá völdum í eitt skipti fyrir öll? Annars þyrftum við ekki fleiri en 15 hraustmenni til viðbótar við þessa 10 litlu „öryrkja“, þá væri hægt að yfirtaka þinghúsið, þingmenn og þingverði á fimm mínútum. Svo mikill aumingjaskapur virðist vera þar innan dyra. En það er eðli ofbeldisins — að vera aumingi inn við beinið.

Svo mörg voru þau orð og sorglegt eina ferðina enn hvað margir gugna á að mæta til opinberra mótmæla til að leggja áherslu á að kjör þeirra verði bætt og ekki gengið stöðugt á þeirra mannréttindi.

Updated: 10. febrúar 2014 — 21:03