Ný lög voru samþykkt á alþingi þann 4. febrúar 2014 sem verða til þess að allir öryrkjar skráðir með íslenskan ríkisborgararétt njóta ekki lengur þeirrar persónuverndar eða friðhelgi einkalífsins eins og aðrir þegnar þessa lands.
Lögin ganga út á það að Tryggingastofnun Ríkisins getur núna krafist þess að fá allar upplýsingar um einstaklinga sem eru skráðir öryrkjar frá öðrum stofnunum og má þar telja skattyfirvöld, Þjóðskrá Íslands, Innheimtustofnun sveitarfélaga, Fangelsismálastofnun, Útlendingastofnun, ríkislögreglustjóri, Samgöngustofa, lífeyrissjóðir, sjúkrastofnanir, dvalar- og hjúkrunarheimili, sveitarfélög, Lánasjóður Íslenskra námsmanna, og viðurkenndar menntastofnanir skulu veita Tryggingastofnun upplýsingar um bótaþega. Þá skulu Tryggingastofnun og Sjúkratryggingar Íslands skiptast á upplýsingum um mat á örorku og öðrum nauðsynlegum upplýsingum. Ennfremur fá læknar og heilbrigðisstarfsmenn Tryggingastofnunar aðgang að sjúkraskrám umsækjenda.
Einnig er umsækjendum eða greiðsluþegum og maka þeirra skylt að taka þátt í meðferð málsins meðal annars með því að koma til viðtals, ef óskað er, og veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem teljast nauðsynlegar til að meta bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta.
Samkvæmt lögunum skal Tryggingastofnun reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á.
Hvað þýðir þetta í raun fyrir öryrkja?
Jú. Þetta þýðir að við njótum engra raunverulegra mannréttinda lengur og friðhelgi einkalífs okkar er orðið nánast ekki neitt.
Það er búið að opna á öll gögn um okkur, læknaskýrslur um okkur verða aðgengilegar nánast öllum hærra settum starfsmönnum TR og þegar svo er komið er ómögulegt að segja til um hvaða fólk kemst í þessi gögn og getur notfært sér þær upplýsingar sem þar eru í hvaða tilgangi sem þeim sýnist.
Ég get ekki betur séð í þessum lögum, en TR komi til með að hafa fulla heimild til hnýsast í bankareikninga okkar, skoða færslur og yfirlit yfir hvað við höfum fengið inn á reikningana okkar og í hvað við höfum notað peningana. Síðan geta þeir eftir eigin geðþótta, ákveðið að skerða kjör okkar ef við höfum fengið lánaða fjármuni frá ættingjum eða vinum.
Eru þetta mannréttindi?
TR hefur samkvæmt þessu fullann aðgang að öllum gögnum okkar í lífeyrissjóðskerfinu og við getum ekkert sagt til um hvort við kærum okkur um það eða ekki því við erum orðin réttlaus gagnvart slíkri njósnastarfsemi og þessar persónulegu upplýsingar um okkur hjá sjóðunum hafa allir starfsmenn TR aðgang að þegar þeim sýnist.
TR getur kallað hvern sem er í viðtal, hvenær sem er og krafist þess að maki viðkomandi eða sambýlingur mæti til að veita TR allra upplýsinga sem þeir krefjast til að meta hvort maður á rétt á bótum eða ekki.
Er það síðan bara geðþóttarákvörðun viðkomandi tryggingafulltrúa hvort maður fær bæturnar eða ekki?
Manni sýnist það á öllu ef svörin verða ekki rétt.
Samkvæmt þessum lögum skal TR svo sannreyna réttmæti bóta og greiðslna ásamt þeim upplýsingum sem ákvörðun um réttindin byggir á.
Enn spyr ég hvar er friðhelgi okkar einkalífs?
Ég skal játa að ég varð alveg rasandi brjálaður þegar ég sá hverjir höfðu sagt já vð þessum lögum. Þegar ég sá nafn Birgittu Jónsdóttur, Helga Hrafns og Jóns Þórs á þeim lista þá gjörsamlega féllust mér hendur. Eini flokkurinn sem ég stólaði á að mundi vernda mig og alla aðra öryrkja fyrir þessum gjörningi hafði svikið mig.
Þau sem ætluðu að standa vörð um frelsi einstaklingsins, tjáningarfrelsið og svo ég tali nú ekki um að standa vörð um friðhelgi einkalífsins og að persónuupplýsingarnar um okkur færu ekki á flakk, samþykktu lög sem gera yfirvöldum frjálst að ganga í allar upplýsingar um okkur að okkur forspurðum. Í mínum huga eru þetta einhver verstu svik sem ég get hugsað mér og á einu bretti missti ég allt traust á Birgittu, Helga og Jóni, hversu vel sem þau hafa staðið sig til þessa.
Píratar drulluðu algerlega upp á bak í þessu máli og eru í mínum huga núna komin á sama stað og sá viðbjóður sem í daglegu tali kallast fjórflokkurinn.
Helgi Hrafn setti myndband á youtube í dag þar sem hann útskýrir sína hlið á því hvers vegna píratar samþykktu þessi lög en satt best að segja gef ég ekki skít fyrir þær útskýringar, ef útskýringar skyldi kalla, því þetta heitir að reyna að réttlæta vondan málstað. Það gera þeir sem vita upp á sig sökina og skömmina ef þeir þegja þá ekki bara.
Aumt er þetta yfirklór og ljótt. Fljótlærð voru þau fræði sem gömlu flokkarnir hafa haft fyrir ykkur og þið hafið verið góðir kandídatar.
Ég ætla að setja hérna inn komment sem kom á Facebook við þetta myndband og ég held að það útskýri ágætlega það sem flestir öryrkjar hugsa um þetta frumvarp sem og þetta yfirklór hjá Helga Hrafni.
Takk fyrir að svara Helgi Hrafn. Ég get að minnsta kosti hælt þér, ungum og nýjum þingmanninum fyrir að leggja þig fram um að svara á meðan forhertari þingmaður hefði líklega talið það algerlega ónauðsynlegt.
Fyrst – þú ert ekki einn um að hafa orðið pirraður og hafa þurft að róa þig. Réttlætiskenndinni minni, eins og margra annarra, er stórkostlega misboðið og ég er ekki orðin róleg.
Kannski vegna þess að ég geri mér grein fyrir því að enginn af þeim sem studdu þetta mál gera sér grein fyrir hversu alvarlegar afleiðinga það getur haft.
Öryrkjar hafa nákvæmlega ENGAN málsvara og það eru þeir sem eru notendur. Við skulum aldrei gleyma því!
Ég er vissulega með ákveðnar hugmyndir um hvað hægt er að gera til að breyta því en að svo stöddu ætla ég að halda mig við það að svara videóblogginu þínu sem mér finnst engan vegin útskýra fyllilega nauðsyn þess að ganga á persónurétt þeirra sem hvað lægst eru settir í þessu þjóðfélagi.
Þú talar réttilega um eftirlitsheimildir. Hvers vegna ykkur fannst rétt að veita ríkisstofnun svo víðtækar heimildir finnst mér með öllu óskiljanlegt. En þú notar allavega rétt orð.
Þú segir að „fólk haldi að þetta sé eitthvað sem það er ekki“ og að fólk sé að „skynja þetta sem brot á persónuvernd og friðhelgi“.
Það er alveg sama hvernig það er sagt – þetta er ekki skynjun heldur raunverulegt brot á persónuvernd og friðhelgi.
Þar með er þetta það sem við höldum.
Með þessu frumvarpi er freklega gengið gegn persónuvernd og friðhelgi umfram aðra í þjóðfélaginu. Eða getur þú bent mér á annan hóp sem er skyldaður til að leyfa aðgang að öllum gögnum í gegn um ríkisstofnanir, þar með talið trúnaðargögnum milli læknis og sjúklings?
Ef þessu er ætlað að „taka á vandamálum sem fyrir eru í kerfinu“ (eins og þú segir á annan hátt) til þess að koma í veg fyrir að TR geti ákveðið að þú fáir ekki bætur „bara af því bara“ þá þætti mér afskaplega vænt um að þið skoðuðuð það hvort það sé virkilega þannig. Staðreyndin er nefnilega sú að ef TR vantar gögn þá getur það beðið um gögn. Notendur geta skilað gögnum. En með því að taka af notendum valdið til að vita og andmæla því hvaða gögnum er dreift til TR er ekki verið að gera neitt annað en að auka hættuna á „af því bara“ svarinu. TR er nefnilega ekki gert að rökstyðja ákvörðun sína né heldur að upplýsa um hvaða gögn þeir styðjast við.
Öryrkjar þurfa sem sé áfram að sanna rétt sinn.
Þú segir á einum stað „Það sem skiptir rosalega miklu máli er að það sé upplýst samþykki“. Ég er algerlega sammála þér.
Samt dettur ykkur til hugar að samþykkja frumvarp sem gengur út á það að notendur þurfa ekki að gefa upplýst samþykki. TR einfaldlega sækir gögnin og öryrkjar þurfa ALDREI að gefa sitt samþykki fyrir því.
„Að fólk sem meðvitað um hvaða upplýsingum er verið að safna og í hvaða tilgangi“.
Er þetta grín?
Hvers vegna er notendum ekki treyst til að framvísa réttum upplýsingum en þið sjáið ástæu til að treysta því að ríksisstofnun upplýsi fólk um hvaða upplýsingum er verið að safna og í hvaða tilgangi.
„Gagnrýni er ekki efnislega rétt – þetta er ekki eitthvað fasískt dæmi“.
Jú, Helgi Hrafn – gagnrýni mín er efnisleg og hún er rétt. Þetta er fasískt dæmi. Það sem meira er – þetta er klassískt fasískt dæmi þar sem einsaklingum er gert að lúta valdi báknsins án þess að geta á nokkurn hátt varið sig. Takk fyrir það.
Ekki nóg með það heldur samþykktuð þið að ganga á rétt maka og gáfuð leyfi til að tekjur viðkomandi séu skoðaðar. Þið gáfuð leyfi til þess að viðkomandi sé yfirheyrður. Þar með eruð þið búin að skerða persónufrelsi aðila sem er ekki málsaðili.
Þetta er grafalvarlegt!
Af því að þú tekur dæmi um mál konu þá ætla ég að benda þér á að í tryggingakerfinu er fullt af fólki sem hefur ekki lent í þessu veseni sem þú lýsir. Sumir hafa jafnvel átt góð samskipti við TR og gert allt rétt og vel. Skilað gögnum á réttum tíma og umbeðnum gögnum. Það fólk og makar þeirra missti rétt sinn til persónuverndar daginn sem þetta frumvarp var samþykkt.
Og það er ekki rétt sem þú heldur fram að þessum gögnum sé þegar safnað! Þetta er heimild til að safna fleiri gögnum en áður hefur verið löglegt svo ef þú stendur við þessa fullyrðingu þá vonandi beitir þú þér fyrir lögreglurannsókn á TR vegna ólögmætrar gagnaöflunar.
Að lokum:
Það er nákvæmlega ekkert sem réttlætir það að aðför sem þessi sé gerð að notendum kerfisins. Það er ekkert sem réttlætir það að þingmenn taki persónufrelsi sjúklinga öðru vísi en persónufrelsi annarra! Persónufrelsi er ekki bara fyrir suma.
Stjórnmálaflokkur sem segist beita sér fyrir persónufrelsi á ekki að tína til réttlætingar fyrir því að skerða persónufrelsi þeirra sem minnst mega sín – hann ætti að beita sér fyrir því að persónufrelsi þeirra sé EKKI skert og þar með mannréttindi virt.
Þar finnst mér þið hafa klikkað og ég vona svo sannarlega að þið verðið við þeirri sanngjörnu kröfu Ólafs Skorrdals og skoðið það að biðjast afsökunar.
Mannstu: Réttindi þýða ekkert ef maður er ekki meðvitaður um þau. Ég er meðvituð um jöfn mannréttindi
Svo þakka ég þér fyrir síðustu setninguna sem gerir þig mannlegri en marga aðra þingmenn sem er á þá leið að „ef þetta er eitthvað klúður þá þarf að laga það“.
Afsakaðu svo lengdina en því miður er ekki hægt að koma þessu á framfæri öðru vísi.
Það er fátt sorglegra en að sjá öll mannréttindi rifin af manni og meira að segja möguleikinn á að lifa sómasamlegu lífi hefur verið tekinn af okkur líka.
Ísland er farið að minna meira á þriðja ríki Hitlers þar sem enginn var óhultur fyrir mönnum í svörtum leðurfrökkum með niðurdregin hattbörð sem bönkuðu uppá hjá fólki milli miðnættis og fjögur á næturnar.
Nú eru það tölvunördar sem sækja allar upplýsingar um okkar persónulegu hagi inn á aðrar tölvur og dreifa þeim til þeirra frakkaklæddu með niðurdregnu hattbörðin sem síðan dæma hvort við eigum einhvern rétt.
Rétt sem búið er að taka af okkur með lögum.
Takk fyrir Birgitta, Helgi Hrafn og Jón Þór.
Ykkar tími kom og fór eins og hver önnur tívolíbomba.