Um gömlu vistaböndin segir á Wikipedia;
Vistarbandið var kvöð um að allt jarðnæðislaust fólk skyldi vera í vinnumennsku. Ef karl og kona réðu ekki eigin búi urðu þau að vera vinnuhjú á heimili bónda og eiga þar grið. Venjan var sú að fólk réði sig í ársvist í senn og skyldi skipta um heimili og vinnu á vinnuhjúaskildaga sem lengst af var á krossmessu á vor, 3. maí, en fluttist yfir á 14. maí árið1700 þegar tímatalinu var breytt.
Lágmarksstærð búa var þrjú kúgildi samkvæmt Píningsdómi frá árinu 1490. Ef einstaklingur réð ekki yfir slíkri eign þá varð hann að gerast vinnuhjú. Þessi lög voru ennþá í gildi á 18. öld og giltu í reynd áfram langt fram á 19.öld.
Ef húsbóndi stóð ekki við skyldur sínar við vinnuhjú þá mátti kæra hann fyrir hreppstjóra en vinnuhjú máttu þó ekki yfirgefa bæinn nema með leyfi bónda. Hvorki vinnuhjú né bændur máttu fara frá byggðalagi sínu nema þau fengju skriflegt leyfi prests eða veraldlegra yfirvalda.
Stundum var hægt að losna undan vistarbandi með því að gerast lausamaður. Þá réðu menn atvinnu sinni sjálfir og gátu selt húsbændum vinnu sína. Fram til ársins 1783 þurfti að eiga minnst tíu kúgildi til að vera lausamaður. Lausamennska var bönnuð árin 1783-1863. Þegar lausamennska var leyfð aftur árið 1863 var það með ströngum skilyrðum. Þegar sjósókn jókst var lögum breytt árið 1894 og fór þá lausaganga að vera flestu búlausu fólki aðgengileg.
Vistabönd hin nýju mundi ég skilgreina með þeim hætti sem birtist okkur á Austurvelli í gær, þann 7. júní 2012.
Þangað flykktust sjómenn og landverkafólk til mótmæla í boði útvegsmanna og útgerða. Sjómönnum var stefnt um borð í fiskiskip daginn áður en ekki til veiða heldur til að sigla til Reykjavíkur og síðan var þeim smalað á Austurvöll til mótmælafundar.
Á sama tíma tóku nokkrar fiskvinnslur sig til, smöluðu starfsfólki sínu í rútur og báru í það áfengi þar til komið var á áfangastað. Þegar það var borið undir stjórnendur viðkomandi fiskvinnsla neituðu þeir alfarið að hafa borið áfengi á fólk þó svo að nokkrir aðilar hafi stigið fram og sagst hafa orðið vitni að því. Trúi hver hverju sem þeim sýnist.
Sneypuför segja sumir en samstaða sjómanna við útgerðarmenn segja aðrir. Ekki dæmi ég hvort heldur það varð en ég hef skoðanir eins og aðrir.
En aftur að vistaböndum hinum nýju. Þau skilgreini ég með þeim hætti, að útgerðirnar eru með stanslausan áróður þess efnis, að verði kvótinn skattlagður muni laun sjómanna lækka sem því nemur og landverkafólki verði fækkað og launin dregin enn meira niður eða þá að vinnslustöðvum verði lokað. Þetta er ekkert annað en kúgun af verstu sort til að halda fólki í þeirri trú, að fái þeir ekki óáreittir að halda í þann kvóta og stinga í eigin vasa fleiri miljörðum á ári, þá leggist sjómennska og landvinnsla af á landsbyggðinni.
Þetta er ljótur leikur siðlausra manna og kvenna sem geta ekki hugsað sér að tapa þeim lúxuslaunum sem þeir skaffa sér af tekjum teknar úr sameign þjóðarinnar sem þeir eru farnir að líta á sem sína persónulega eign. Svo rammt kveður af sumstaðar, að þeir líta á heilu sjávarútvegsplássin með öllu sem þar lifir og hrærist sem sína persónulega eign þegar verst lætur.
Það þarf að stokka upp allt þetta kerfi og láta greiða ákveðið veiðigjald fyrir hvert tonn sem úthlutað er. Veiðigjald sem færi í það að byggja upp sjávarpláss úti á landi en ekki lúxushallir útgerðargreifa á suðurhafseyjum.
Í raun væri skynsamlegast að úthluta árlegum kvóta til byggðarlaga sem síðan gætu leigt eða selt hann til útgerða ef þau nota hann ekki sjálf. Þannig væri frekar hægt að byggja upp sanngjarnt kerfi og slíta þau vistabönd sem útgerðirnar hafa á fólki í smærri sjávarplássum.
Vissir þú að:
– Hreinn hagnaður útgerðarinnar var 45 milljarðar árið 2010?
– Af þessu greiddu útgerðarmenn 3 milljarða í veiðigjald og 300 milljónir í tekjuskatt.
– 70 fjölskyldur högnuðust þannig um 41,7 milljarða árið 2010 sem gerir að meðaltali 596 milljónir á hverja fjölskyldu.
– Þessar fjölskyldur greiða ríkinu 6 krónur af hverju veiddu þorsk kílói.
– Börn þessara fjölskyldna erfa veiðiréttinn að fiskimiðunum.
– Þín börn geta ekki veitt nema borga börnum útgerðarmanna 290 krónur á hvert veitt þorskkíló.
Heimild: Skjal frá Alþingi
Enn og aftur tek ég fram, að þetta er mín skoðun á þessum málum og ég eins og aðrir hef fullan rétt á henni hvað svo sem fólki finnst.