Það er alveg ástæða til að spyrja sig þessarar spurningar í ljósi þess hvernig staðan í stjórnmálum hér á landi er um þessar mundir. Nú er staðan sú, þegar rýnt er í nýjustu skoðanakannanir, að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mælast stæðstir af þeim flokkum sem eru í framboði. VG og Samfylking hafa tapað gífurlegu fylgi og kemur það ekkert á óvart miðað við hvernig þeir hafa stjórnað á þessu kjörtímabili og verkin þeirra tala sínu máli um hvernig ástandið er hjá almenningi í landinu. Síðasta útspil þeirra varðandi lyfjakostnað til handa sjúklingum er ekki til að auka vegferð þeirra og undirskriftarlisti sem er í gangi á netinu segir allt sem segja þarf um álit almennings á nýju lyfjalögin.
En hvernig verður staðan á næsta kjörtímabili gangi það eftir að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur fari með völd í landinu? Well, við sáum árangurinn eftir 18 ára stjórn þeirra þegar allt hrundi hér með látum árið 2008 og þjóðarbúið varð næstum því gjaldþrota og Geir H. Haarde bað Guð um hjálp til handa þjóðinni. Er það staða sem landsmenn vilja að komi hér upp aftur?
Við skulum skoða aðeins hvað það leiðir af sér komist Sjálfstæðisflokkurinn til valda eftir kosningar því loforð þeirra eru skattalækkannir, einföldun á skattakerfinu og afnám hátekjuskattar. Þetta þýðir á mannamáli að þeir sem hafa mestar tekjurnar í landinu fá meira á kostnað þeirra sem minna hafa. Á beinni línu á DV sagði Bjarni að ekki væri í forgangi að hækka persónuafslátt eða skattleysismörk.
Auðvitað væri gott að geta hækkað persónuafsláttinn en við munum frekar leggja áherslu á að lækka skattprósentuna sem aftur hækkar frítekjumarkið
Segjum að skattprósentan lækkaði sem nemur einu prósenti yfir heildina. Það þýðir einfaldlega að sá sem er með 200. þúsund í heildarlaun fær hækkunn upp á heilar 2.000 kr meðan sá sem er með 1 miljón á mánuði fær þá 10.000 kr í hækkunn sem aftur þýðir að bilið milli þeirra sem mest hafa og þeirra sem minnst hafa eykst í kjölfarið.
En þetta er ekki allt því í kosningaþætti Stöðvar tvö missti Bjarni út úr sér setningu sem segir allt um hverra hagsmuna Sjálfstæðisflokkurinn ver með kjafti og klóm.
Sannleikurinn blasir við fólki sem vill sjá hann og kýs að vera upplýst um það sem er að gerast í þessari kosningabaráttu. Það er með hreinum ólíkindum að hinn almenni borgari skuli kjósa yfir sig flokk sem hefur svona stefnumál á oddinum því þessi sami almenningur mun aldrei njóta neins góðs frá þessum flokki sem stendur aðeins fyrir auðmenn íslands.
En komist Framsóknarflokkurinn til valda, hvað þá? Jú þeir hafa sagt að það liggi 300 miljarðar á lausu hjá erlendu vogunarsjóðunum sem hægt verður að ná inn í hagkerfið og lækka þar með skuldir heimilana. Foristumenn Framsóknar láta þetta líta út sem auðvelt verkefni og strax eftir áramótin 2013 til 14 verði því hægt að fara að gera eitthvað róttækt í lánamálum þeirra sem verst standa.
Svona fullyrðingar eru algerlega út úr öllu korti og þeir sem trúa á svona ,,hókus pókus“ lausnir þurfa að skoða þetta nánar því þetta er einfaldlega ekki hægt og ástæðurnar fyrir því eru ekki flóknar.
Erlendu vogunarsjóðirnir eru ekkert að flýta sér og geta alveg beðið með að losa þessa fjármuni úr landi eins lengi og þeim hentar. Þess vegna í tvö eða þrjú kjörtímabil ef út í það er farið. En! Fari Framsókn í þær aðgerðir sem Sigmundur Davíð talaði um í kosningavakt Rúv á dögunum, að ná þessum fjármunum með lagasetningum, þá á eftir að fara illa fyrir okkur. Það verður nefnilega til þess að fæla endanlega burt alla erlenda fjárfesta frá landinu. Og þeir koma ekki aftur verði það gert.
Þarna er um algera skammtímalausn að ræða hjá Framsóknarflokkinum. Skammtímalausn sem mundi skaða landið og efnahag þess um óséða framtíð.
Er það lausn sem almenningur í landinu getur sætt sig við?
Man einhver eftir Lars Christensen yfirmanni greiningardeildar Danske Bank A/S?
Ekki? Það var hann sem gerði allt vitlaust hérna 2006 þegar hann setti fram harða gagnrýni sína á íslenskt viðskiptalíf. Var hann meðal annars einn höfunda skýrslunnar„Iceland, Geyser crisis“ sem kom út árið 2006 en í henni spáði hann fyrir um hrunið sem varð síðan 2008.
Nú kemur hann enn fram á sjónarsviðið og varar við þeirri leið sem Framsókn hyggst fara með kosningaloforðum sínum. Þar segir hann meðal annars:
Ef stjórnmálaflokkar nýta eignir föllnu bankanna til þess greiða fyrir kosningaloforð sín mun það leiða til efnahagslegra þrenginga fyrir Ísland, segir Lars Christensen, yfirmaður greiningardeildar Danske Bank A/S í viðtali við Bloomberg fréttastofuna.
Með því að gera upptæka eignir gömlu bankanna munu Íslendingar loka dyrunum fyrir utanaðkomandi fjárfestingum og möguleikum Íslands á að ná sér í frekara lánsfé á erlendum mörkuðum, segir Christensen í viðtali við Bloomberg.
Christensen var harðlega gagnrýndur af bæði stjórnmálamönnum og kaupsýslumönnum á Íslandi fyrir harða gagnrýni sína á íslenskt viðskiptalíf. Var hann meðal annars einn höfunda skýrslunnar„Iceland, Geyser crisis“ sem kom út árið 2006.
Hann segir mikilvægt að draga úr skuldum heimilanna en það að nota eignir föllnu bankanna sem eru í eigu kröfuhafa sé ekki rétt leið. Hluti kröfuhafanna séu fjárfestar sem hafa áhuga á að fjárfesta frekar á Íslandi, til að mynda norrænir lífeyrissjóðir. Ef eignir þeirra verða gerðar upptækar þá muni alþjóðlegir fjárfestar ekki gleyma slíku.
Þetta verða íslendingar að hafa í huga áður en þeir ganga að kjörborðinu á laugardaginn eftir viku, því komist hrunflokkarnir tveir að völdum aftur er það ávísun á annað hrun innan fárra ára, jafnvel áður en næsta kjörtímabili lýkur og þá verðum við í nákvæmlega sömu stöðu og haustið 2008 þegar allt fór hér á hvolf.
Það er bara grjóthörð staðreynd sem ekki er hægt að horfa framhjá og það verður þá algerlega á ábyrgð þeirra sem kjósa Sjálfstæðis og Framsóknarflokkinn í komandi kosningum.
Verum ekki blind, verum ekki heimsk, gefum fjórflokknum frí næstu fjögur árin og kjósum rétt.