Óhætt er að segja að málþing ÖBÍ sem haldið var á Grand Hotel í gær, 19. mars hafi verið mjög vel heppnað og það sem kom þar fram varpaði ljósi á ýmsa þætti í málefnum öryrkja sem þarfnast lagfæringa og útskýringa stjórnvalda.
Þuríður flutti góðan inngang að þinginu og má lesa ræðu hennar hérna.
það sem var þó áhugavert á þessu þingi kom fram í pallborðsumræðunum í lokin þegar var farið að kryfja reglugerðarverkið í lögum um almannatryggingar og skerðingarákvæðin, þá kom í ljós að nákvæmlega enginn vissi nákvæmlega hvernig þessi skerðingarákvæði virka í raun og veru og spunnust talsverðar umræður út frá því hvernig taka ætti á því vandamáli en allir voru þó sammála um að einfalda þyrfti kerfið og lögin ásamt reglugerðarfarganinu svo það yrði skiljanlegt jafnt leiknum sem lærðum.
Ég hef sjálfur þrælað mér í gegnum lögin og reglugerðirnar og sem leikmaður í lögum þá er þetta gjörsamlega óskiljanlegt torf og oft með málfari sem minnir frekar á forngrísku eða súmersku heldur en mannamál.
Það þarf einfalega að þýða þetta allt saman á mannamál.
En sjón og heyrn er sögunni ríkari og ég hvet alla til að horfa á upptökuna af þinginu hér að neðan.
Sjálfur á ég eftir að fara betur í gegnum þetta og vinna úr því sem þarna kom fram.
Ég vil líka minnast á að þarna komu fram tvær konur, öryrkjar og sögðu sína meiningu og upplifun af kerfinu eins og það er í dag og í raun hrópuðu á breytingar.
ÖBÍ óskar eftir örsögum frá öryrkjum og hvernig það hefur orðið fast í vítahring fátæktar og örbyrgðar af völdum óréttmætra og í raun ólögmætra skerðinga á örorkubótum vegna aðgerða stjórnvalda.