Margt er það sem hægt er að telja upp hér á landi sem opinberir embættismenn telja sjálfsagðan hlut og meðal annars að brjóta lög landsins og ganga á rétt borgarana í þessu landi. Sumum finnst það svo sjálfsagt, að þeir víla ekki fyrir sér að segja við lögregluna að henni komi það ekki við hverjir þeir eru og neita að framvísa skilríkjum til sönnunnar hverjir þeir eru.
Svokallaður fulltrúi Sýslumannsins í Hafnarfirði er einn af þeim sem þetta gerði og í meðfylgjandi myndbandi má sjá og heyra glögglega að hún gefur dauðann, djöfulinn og ömmu hans í lög og reglur, húseignina skal bjóða upp þó það sé gert með kolólöglegum hætti.
Talsverð umræða hefur skapast um þennan gjörning, sem allur er tekinn upp í meðfylgjandi myndbandi sem hefur verið sett inn á Youtube og er greinilegt á því sem þar kemur fram, að flestir hlutaðeigandi sem koma að þessu uppboði neita að gefa upp kennitölur sínar en vísa í vinnuveitendur sína. Þar á meðal fulltrúi frá Íbúðarlánasjóði, bönkunum og síðast en ekki síst fulltrúi Sýslumanns sem ekki er enn vitað hver er.
Í lögum númer 92, 6. grein stendur skýrum stöfum; ,,Sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra skulu bera einkennisfatnað eftir því sem ráðherra ákveður í reglugerð.“ Reglugerðina sjálfa má síðan finna hérna og kveður skýrt á í henni hvernig klæðnaður sýslumanns og fulltrúa hans skal vera þegar þeir sinna opinberum málum.
Þar segir meðal annars;
IV. KAFLI
Notkun einkennisfatnaðar.
10. gr.
Sýslumenn og löglærðir fulltrúar.Einkennisfatnað skal nota að jafnaði við embættisathafnir á skrifstofu eða utan hennar þegar nauðsynlegt er að gefa til kynna framkvæmd opinbers valds og ef sérstakar ástæður mæla því ekki gegn. Hann skal nota við eftirfarandi athafnir:
- Við hátíðleg tækifæri og meiri háttar viðburði í héraði, sem embættismaður eða fulltrúi hans, sbr. 2. gr., er viðstaddur stöðu sinnar vegna.
- Við hjónavígslur.
- Við framkvæmd aðfarargerða utan skrifstofu sýslumanns.
- Við framkvæmd bráðabirgðagerða utan skrifstofu sýslumanns.
- Við öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum.
- Við nauðungarsölur.
Við önnur verkefni utan starfsstöðvar þar sem embættismaður eða fulltrúi hans, sbr. 2. gr., kemur fram stöðu sinnar vegna.
Af þessu öllu er ljóst að þessi kona sem titlar sig sem fulltrúa Sýslumannsins í Hafnarfirði hefur brotið öll lög og reglur um klæðaburð og skyldur fulltrúa hins opinbera með því að halda ólöglegt uppboð á eign sem engar sönnur eru fyrir að hvíli eignarveð á. Fulltrúar þeirra stofnanna sem fóru fram á nauðgungarsöluna höfðu ekkert í höndunum sem sannaði að þeir ættu kröfu í eignina, aðeins ljósritaða pappíra sem eru minna virði en skeinipappír þar sem lög kveða á um að upprunalegu skjölin séu til staðar með undirritun og stimplum sem sanna eignarhaldið og lögmæti uppboðisins.
Það eru því miður orðnir fastir liðir hjá fjármálastofnunum að koma með falsaða pappíra til sýslumannsembætta og krefjast þess að uppboð fari fram og það sorglegasta er að sýslumenn þverbrjóta öll lög með því að samþykkja gerninginn á fölsluðum pappírum.
Almenningur þarf að kynna sér rétt sinn og ganga eftir því að farið sé að lögum því svona gjörningar eru allt of algengir. Fjármálastofnannir eru ekki heilagar og þeir þurfa að fara að lögum eins og aðrir og að mæta með ljósrit af samningum er ekki löglegt. Eina skjalið sem er löglegt að vísa fram til að fá eign einhvers boðna upp eru upprunalegu samningarnir, undirritaðair, vottaðir og stimplaðir. Séu þeir ekki til staðar er um algerlega ólöglega aðgerð að ræða.
Myndbandið sem gengur nú meðal notenda á Youtube.